Beint í efni

Með kveðju frá Dublin

Með kveðju frá Dublin
Höfundur
Árni Bergmann
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1984
Flokkur
Skáldsögur

Úr Með kveðju frá Dublin:

Morguninn eftir lokuðu þeir sumarbústaðnum og óku af stað. Vesturlandið var í fegursta skapi, en það flugu undarlega fáir fuglar yfir sléttan sjóinn. Þeir töluðu um sögu Íslands og Björn gerði hlut Dana verri en efni stóðu til: ekki mátti Michael halda að Írir vissu einir í álfunni hvað kúgun var. Þegar þeir voru komnir norður í Donegal undir kvöld skildu þeir bílinn eftir að húsabaki hjá vinsamlegum krárhaldara. Sean tók við þeim, ungur maður á laslegum jeppa, og hristi þá og skók eftir síversnandi vegi inn í land og upp til heiða. Þeir þögðu allir sem einn. Síðast var enginn vegur. En mitt í stórgrýti sem lagðist þungt á fátæklegan gróður var kvos, þar rann fram vinalegur lækur og á bak við grjótgarð sem enn hélt sér furðanlega stóðu gamlir og þolinmóðir veggir – eyðibýli undir stráþaki og hlaða rétt hjá. Langt var liðið síðan sauðfé var rekið héðan síðast, en öllu var sæmilega við haldið.
 Þetta var ein af æfingastöðvum Írsla lýðveldishersins. Ein af furðum Írlands um leið. Þetta var felustaður og skóli þar sem nýliðum var kennt að fara með byssur og sprengjur. Skóli í ólögmætu athæfi og refsiverðu, en þó mátti hann vera til meðan allir létu sem þeir vissu ekki neitt, meðan nokkrir háttsettir menn í írska ríkishernum eða í stjórnarflokknum töldu að enn væri hægt að hafa visst gagn af IRA – svo framarlega sem þeir glóðarhausar og bavíanar þekktu sín takmörk. Meðan þeir færu ekki yfir ósýnileg strik, sem lá handan við lögin en upp að einhverju ólýsanlegu athæfi sem ábyrg stjórnvöld í Dublin gátu ekki sætt sig við.
 Eða svo sagði Michael Birni og einfaldaði málið um leið. Hvernig var hægt að ætlast til þess að þessi Íslendingur skildi írskar flækjur, írska tvöfeldni, hugmyndaheim sem byggir á því að gleyma því sem kemur sér illa en brýna minnið í sífellu á þeim atburðum sem réttlæta allt sem þú gerir?
 Rory stjórnaði þessari stöð, óvenjulega glaðlegur samsærismaður, nokkru eldri en þeir Björn, hárið byrjað að grána. Hann var ögn haltur eftir skot sem hann fékk í fótinn þegar nokkrir fangar struku úr Curraghfangabúðunum fyrir allmörgum árum. Hann einn fékk að vita hvaðan Björn kom, öðrum var sagt að hann væri sænskur en ætti írska móður. Hann gekk undir nafninu Per. Hér áttu reyndar allir að vita sem minnst um persónu nágrannans, en tóku þau fyrirmæli misjafnlega alvarlega.

(s. 116-117)

Fleira eftir sama höfund

Stelpan sem var hrædd við dýr

Lesa meira

Hjá Erenbúrg

Lesa meira

Hláka, frosthörkur, endurskoðun

Lesa meira

Hólmgangan endalausa

Lesa meira

Íslensk verkalýðshreyfing á tímamótum

Lesa meira

Íslenskar afþreyingarbókmenntir og Guðrún frá Lundi

Lesa meira

Jarðsambandið

Lesa meira

Glíman við Guð

Lesa meira

Eitt á ég samt: endurminningar

Lesa meira