Beint í efni

Eitt á ég samt: endurminningar

Eitt á ég samt: endurminningar
Höfundur
Árni Bergmann
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um bókina:

Um áratugaskeið var Árni Bergmann lykilmaður í íslensku menningarlífi. Hann var lengi blaðamaður og ritstjóri á Þjóðviljanum, helsta málgagni íslenskra vinstrimanna, og skrifaði jöfnum höndum um bókmenntir og alþjóðamál. Skrif hans einkenndust af víðsýni, réttlætiskennd og sjaldgæfri viðleitni til að skilja ólíkan þankagang. En Árni á sér önnur tilverusvið: hann er skáldsagnahöfundur sem hefur meðal annars skrifað njósnasögu, þorpssögu, kvótasögu og sögulega skáldsögu; heimspekingur sem velt hefur fyrir sér hinstu rökum tilverunnar og glímunni við Guð; eiginmaður og faðir sem tengst hefur Rússlandi og gyðingum á sérstakan hátt; ferðalangur …

Úr bókinni:

Í næstsíðasta bekk sat ég stundum á tali við Teit Benediktsson sem hafði verið með okkur í bókmenntaklúbbi og var farinn að kenna okkur í fjarveru latínukennarans. Hann sagði skoðanir mínar stórhættulegar og ég yrði áreiðanlega drepinn fyrir þær. „Best að snúa sér að málfræðinni,“ sagði hann, „hún er hættulaus.“ Ekki var ég þó beinlínis trúaður á að ég stefndi mér í voða með þessari róttækni. Þó vissu allir að sósíalistar kynnu að eiga erfitt uppdráttar síðar meir þegar kæmi að því að sækja um störf í borgaralegu félagi. Ég velti fyrir mér í smásögu, sem aldrei var birt, ástandi sem kynni að koma upp á Íslandi ef þar kæmi til svo harðra átaka við valdsmenn tækju lýðræðið úr sambandi. Þessi áhyggja var arfur frá kreppuáratugnum þegar róttækir menn gátu ekki komist hjá því að hugsa um það, hvað til bragðs skyldi taka ef fasísk eða hálffasísk öfl bönnuðu hreyfingu þeirra, því það hafði þá þegar gerst í mörgum Evrópulöndum. En í rauninni var enginn að hugsa um slík átök í alvöru, ekki einu sinni með vangaveltum um hvað hefði getað gerst í átökunum við Alþingishúsið 30. mars 1949.

Einn nýliðinn í hinni rauðu hreyfingu, bekkjabróðir minn, sagði við mig: „Mér finnst varla taka því að vera með eitthvað brambolt, eru ekki yfirburðir sósíalismans það miklir að innan skamms sjái menn að hann er eina færa leiðin?“ Mér fannst þetta röng kenning. „Það gerist ekkert af sjálfu sér,“ sagði ég. Höfðu góðskáldin ekki um það kveðið að „jafnvel þín er þörf í því stríði sem mannkynið heyr“. En samt kann vel að vera að bæði ég og aðrir hafi verið á valdi einhvers konar „biðhyggju“ eða attendismo, sem svo var kallaður á Ítalíu. Það orð vísar til einskonar pólitískrar lögmálshyggju. Marxísk söguskýring spáir því að alþýðan hljóti að taka völdin af kapítalistum, rétt eins og borgarastéttin á sínum tíma steypti aðlinum og einvödlum góngum úr sessi. Og þess var í rauninni vænst að í álfunni austanverðri yruð unnin þau afrek í lífskjarabótum og almennri menningarbyltingu að allur þorri alþýðu á Vesturlöndum myndi taka sinnaskiptum þegar hann fengi réttar upplýsingar.

Svona leið tíminn. Ég fór of fljótt í burt af landinu til náms til að ég gæti fengið leið á hvunndagsleika pólitísks starfs á Íslandi. En ég þekkti í einhverjum mæli það andrúmsloft sem Eric Hobsbawn, framúrskarandi sagnfræðingur, breskur, austurrískur Gyðingur að uppruna, lýsir í endurminningum sínum. Að vísu voru æskuár hans mun dramatískari en mín, hann gekk inn í rauða heimshreyfingu og drakk í sig „fjöldahrifningu“ sem greip hann í félagsskap við aðra unga menn á pólitískum stórfundum í Berlín kreppuáranna, rétt áður en Hitler komst til valda. Eric ungi hefur samúð með þeim arðrændu og atvinnulausu og til hans höfðar hugmyndakerfi marxista sem útskýrir fyrir honum samhengi allra fyrirbæra og þar með stöðu lista og bókmennta í samélaginu. Frá Þýskalandi kemur Hobsbawn til háskólans í Cambridge og þá kemur ein freistingin enn: Róttæknin laðar að sér þá gáfuðustu og skemmtilegustu. Og ég er einn af þeim! „Ég var kominn í besta partíið í bænum,“ sagði einn íslenskur félagi minn um þessa freistingu. Og allt stuðlarað því að ungur stúdent telji sér og sinni hreyfingu alla vegi færa. Raunsæið þokast til hliðar. Eric Hobsbawn tók ekki eftir því að stúdentar í Cambridge væru í raun mjög einangraðir í heiminum, rétt eins og við menntskælingar á Laugarvatni höfðum komið okkur upp litlum Neskaupstað á staðnum meðan okkar kynslóð Íslendinga var, þegar á heildina er litið, farin að þoka sér til hægri eða burt frá pólitískum áhuga.

(59-60)

Fleira eftir sama höfund

Stelpan sem var hrædd við dýr

Lesa meira

Hjá Erenbúrg

Lesa meira

Hláka, frosthörkur, endurskoðun

Lesa meira

Hólmgangan endalausa

Lesa meira

Íslensk verkalýðshreyfing á tímamótum

Lesa meira

Íslenskar afþreyingarbókmenntir og Guðrún frá Lundi

Lesa meira

Jarðsambandið

Lesa meira

Glíman við Guð

Lesa meira

Með kveðju frá Dublin

Lesa meira