Beint í efni

Ég var nóttin: Reykjavíkursaga

Ég var nóttin: Reykjavíkursaga
Höfundur
Einar Örn Gunnarsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Eftir langa leit að leiguherbergi býðst ungum lögfræðistúdent óvænt herbergi á furðulega lágu verði í stóru einbýlishúsi í Þingholtunum. Húsið var á sínum tíma með fallegustu glæsihýsum borgarinnar en er nú í niðurníðslu. Leigusalarnir eru roskin hjón sem lifa í fortíðinni og draumórum sínum. Laganeminn er varaður við þeim en þrátt fyrir það aukast samskipti þeirra. Með tímanum fer hann að átta sig á að þau eru ekki öll þar sem þau eru séð. 

Úr bókinni

Stórt, grátt og voldugt stóð húsið hátt uppi á vanhirtri lóðinni. Þakið hafði fyrir ævalöngu verið málað grænt en tíminn látinn um kvistina sem voru ryðbrúnir og héngu tæplega saman. Utan við garðshliðið stóð ég drykklanga stund og virti þessa hálfgildings höll fyrir mér. Í fyrstu var ekkert líf að sjá en óvænt bærðist rauð gardína og ég fann að einhver var að horfa á mig. Ég opnaði hliðið hægt og gekk inn. 

   Gangstéttarhellurnar lágu á skjön upp eftir lóðinni og ummerki haustsins voru allt um kring þar sem ég steig í hverju skrefi á fallin lauf liðins sumars. Skyndilega barst dauft þrusk að eyrum mér og ég veitti loðnum, norskum skógarketti athygli þar sem hann klifraði upp í hátt reynitré. Þegar ég var kominn nær húsinu sá ég að málningin var tekin að flagna og mosi fyllti sprungur veggjanna. 

   „Franz er að koma,” heyrði ég konu kalla glaðhlakkalega út um lítinn glugga. Ég staðnæmdist og eitt andartak hvarflaði að mér að snúa við en svo hélt ég áfram upp tröppurnar að grænmálaðri hurð. Á ryðgaða bréfalúgu var grafið „Kristján Kristjánsson forstjóri og María Níelsdóttir”. Til hliðar við þröskuldinn lá dyrasími, gamall og gegnumryðgaður. Bak við steindan glugga mótaði fyrir manneskju og áður en ég náði að berja að dyrum birtist í gættinni roskinn, lágvaxinn maður. Hann var í brúnum jakkafötum með glasbotnagleraugu og úfið grátt hár. 

   „Hvað er þér á höndum?” hraut hranalega af vörum hans. Áður en ég náði að koma upp orði barst kvenmannsrödd innan úr íbúðinni: „Farðu.” Ég gægðist feimnislega inn og sá þar litla grannvaxna konu. 

   „Voruð þið ekki að auglysa herbergi til leigu?” spurði ég hvumsa og mér var skapi næst að hraða mér burt. 

   „Jú. Það varst þá þú sem hringdir niður á skrifstofu til mín,” ályktaði maðurinn; rödd hans var dimm og hrjúf. Síðan rétti hann fram höndina og kynnti sig vinalega: „Kristján Kristjánsson.” Handtak hans var þétt og ákveðið. Hann bauð mér inn í stórt heiðgult anddyri. Þar var fatahengi og gömul svarthvít ljósmynd af húsinu í gylltum ramma. Myndin bar glöggan vott um hve glæsilegt það hafði verið í fyrndinni, umlukt fallegum vel hirtum garði. Litla konan var vesaldarleg ásýndum, hokin, með steingrátt hár, í rósóttum morgunslopp. Hún hélt sér í nokkurra metra fjarlægð frá okkur, gaumgæfði hverja hreyfingu og hlustaði af athygli en um leið og ég kinkaði kurteislega kolli til hennar virtist hún verða óttaslegin, skundaði inn í næstu stofu og hvarf mér sjónum. 

   Kristján opnaði dyr, benti á að herbergið væri niðri og ég gekk á eftir honum niður stiga. Þar var megn málningarlykt sem varð sterkari með hverju þrepi. Í fyrstu hafði ég ekki augun af jakkanum því að á herðunum var drífa af flösu. Kristján sneri sér að mér og sagði dálítið grobbinn að hann hefði látið hendur standa fram úr ermum. 

   „Ég sé það,” sagði ég og barði hlandgula og klúðurslega málaða veggina augum. Helgidagarnir blöstu hvarvetna við, málningarslettur höfðu lekið á fjólublátt gólfið og smitast yfir á hvítt loftið. Annað eins smekkleysi og vandalisma hafði ég ekki séð í heimahúsi áður. Gangurinn minnti á leikmynd í absúrdleikverki þar sem allt færi senn úr böndunum. 

   „Að taka til hendinni er góð líkamsrækt,” stundi hann. „Það er nauðsynlegt fyrir kontórista eins og mig að hreyfa sig. Við þurfum að halda okkur í góðu formi.” 

   Orðin hljómuðu eins og brandari því að spikið og grunnur andardrátturinn voru hrópandi merki um fullkomið hreyfingarleysi.

(bls. 7-9) 

Fleira eftir sama höfund

Benjamín

Lesa meira

Bréf til mömmu

Lesa meira

Draugasinfónían

Lesa meira

Tár paradísarfuglsins : bréf til mömmu

Lesa meira

Næðingur

Lesa meira

Krákuhöllin

Lesa meira

Dýrmætasta leyndarmálið

Lesa meira

Gíslasaga

Lesa meira

Rojaus Paukscio Asaros

Lesa meira