Sumarljós og svo kemur nóttin

Ár: 
2007
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Sumarljós og svo kemur nóttin

Stundum er maður svo heppinn að lesa bækur sem maður óskar helst að ljúki ekki. Þannig leið mér þegar ég las nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin – vildi helst ekki að henni lyki. En auðvitað lauk bókinni, enda ekki við öðru að búast þegar maður á erfitt með að leggja hana frá sér. Við urðum reyndar viðskila í nokkra sólarhringa, ég og eintakið mitt, sem var aðeins til að fresta hinu óumflýjanlega dálítið. Maður getur þó huggað sig við tilhugsunina um að lesa verkið aftur, sem er satt að segja tilhlökkunarefni. Líkt og aðrar bækur Jóns Kalmans er Sumarljós og svo kemur nóttin hófstillt verk og því ekki við hæfi að skrifa um hana hól sem prentað er á límmiða og smellt á bókakápur. Það þýðir ekki að bókin sé ekki góð því Jón Kalman skipar flokk úrvalshöfunda á borð við Óskar Árna Óskarsson, Gyrði Elíasson og jafnvel Þorstein frá Hamri. En hvar á maður svo að byrja til að lýsa þessu verki? Það er sennilega best að gefa sögumannsrödd verksins orðið til þess:

Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, það myndir þú ekki afbera, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur, frá hamingjusömum flutningabílstjóra, dimmum flauelskjól Elísabetar og honum sem kom með rútunni; frá Þuríði sem er hávaxin og full af heimullegri þrá, manni sem gat ekki talið fiskana og konu með feiminn andardrátt – frá einmana bónda og fjögurþúsund ára gamalli múmíu. Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar, og þá hugsanlega vegna þess að það eru ekki til neinar skýringar á þeim; menn hverfa, draumar breyta lífi, næstum tvöhundruð ára gamalt fólk virðist gera vart við sig í stað þess að liggja hljóðlátt á sínum stað. Og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur og sækir afl sitt djúpt út í geiminn, frá dögum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu, þetta verða áreiðanlega margar sögur, við byrjum hér í þorpinu og endum út á hlaði í norðursveitinni, og nú byrjum við [...] (bls. 9)

Sumarljós og svo kemur nóttin er safn tengdra sagna af þorpi vestur á landi. Sögusvið og mannlíf þess er lesendum Jóns Kalmans ekki ókunnugt enda svipar því mjög til sögusviðs og mannlífs fyrstu þriggja skáldsagna hans sem mynda þríleik sveitasagna sem samanstendur af bókunum; Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bakvið Brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999). Þar er þorpið fremur baksvið en sveitin í forgrunni, þessu er snúið við í Sumarljósi þar sem þorpið er aðalsögusviðið þótt sveitirnar í kring komi talsvert við sögu. Það er reyndar ekki fjarri lagi að segja að Sumarljós komi í beinu framhaldi af þríleiknum, a.m.k. hvað sögutímann varðar. Þríleikurinn gerðist að mestu á áttunda áratugnum en sögurnar í Sumarljósi aðallega á þeim tíunda, þótt upphaf ýmissa atburða megi rekja til níunda áratugarins og jafnvel enn lengra aftur í tímann.

Sögurnar í Sumarljós eru allar sagðar í fyrstu persónu fleirtölu, sem er frekar óvenjulegt en passar þeim fullkomlega. Það er afskaplega erfitt að ímynda sér söguefnið í öðrum búningi, a.m.k. eftir á að hyggja. Verkið ber undirtitilinn „sögur og útúrdúrar“ sem gefur til kynna að hér sé ekki á ferðinni skáldsaga. Ef mælistikur hefðbundinnar skáldsögu væru lagðar að verkinu félli það sjálfsagt ekki að þeim en það hefur samt eitthvað til að bera sem kalla má skáldsöguleika. Persónur sem spila stórt hlutverk í einni sögu dúkka upp í öðrum sögum, enda eru þorp þannig í eðli sínu að maður hlýtur að rekast á sama fólkið hvað eftir annað. En þótt fjögurhundruð manna þorp sé ekki stórt í sniðum þá gerir sögumannsröddin sér engar grillur um að geta lýst því öllu, eins og fram kemur í upphafi tilvitnunarinnar hér að ofan. Þorpið sjálft er það sem heldur verkinu saman ásamt þessari skemmtilegu sögumannsrödd í fyrstu persónu fleirtölu sem jafnvel má kalla þorpssál. Hún á sér ákveðinn samastað í milliköflum sem eru auðkenndir með örlítið daufara letri en hinir kaflarnir. Þessir kaflar virka eins og brýr sem tengja sögurnar saman og gera grein fyrir ýmsu sem má kalla innri líðan þorpsins – þorpssálarinnar. Þessir þættir skapa í sameiningu skáldsöguleika verksins en hann felst þó einnig í því að það er þráður í verkinu, einskonar framvinda sem lýsir kannski helst þeim breytingum sem þorpið sem heild verður fyrir.

Á furðu áreynslulausan hátt, næstum án þess að lesandinn taki eftir því, eru dregnar upp stórar og smáar andstæður sem skapa stóran hluta af merkingarheimi verksins. Stóru andstæðurnar snúa að hinum lokaða heimi þorpsins gagnvart stærri samfélögum en líka alheiminum. Þorpsbúar eiga reyndar betri aðgang að alheiminum en flestir aðrir í gegnum Stjörnufræðinginn sem sneri baki við góðu starfi, fjölskyldulífi og glæstri framtíð. Stjörnufræðingurinn einbeitir sér að himingeyminum: „Á vetrarkvöldum um nætur ráfar Stjörnufræðingurinn umhverfis þorpið með augun á himni, stundum með góðan handsjónauka, og ef hann er ekki úti við, situr hann undir stóra sjónaukanum sem sogar fjarlægðir ofan í þorpið“ (bls. 21). Rannsóknum sínum deilir hann svo með þorpsbúum með því að halda fyrirlestra í samkomuhúsinu einu sinni í mánuði. Þorpið andspænis Reykjavík birtist líka á margskonar hátt. Auðvitað hverfa margir frá þessu þorpi og til borgarinnar eins og annarsstaðar á landsbyggðinni en þeir sem snúa aftur eru þó fyrirferðarmeiri í verkinu. Má þar nefna Davíð, son Stjörnufræðingsins, sem lýkur ekki námi í íslensku; lögfræðinginn Gaua sem hafði „opnað lögfræðistofu í Reykjavík, hörkuduglegur og séður, kominn með kúluvömb og sex starfsmenn eftir átta ár, 300 fermetra einbýlishús, golfsett og jeppa en þá gerðist einhver fjárinn og hann drakk þetta allt frá sér á einu ári, sem er náttúrulega rösklega gert“ (bls. 164); og svo Matthías sem snýr til baka eftir sex ára ferðalög um heiminn. Það eru líka ýmsar smærri andstæður dregnar upp og þær laumast stundum inn í textann svo lítið beri á: „Við fórum í ullarsokka, hugsuðum um volgt vínarbrauð, angist og kaffikönnu“ (bls. 59). Þarna læðist angistin inn á milli ljúfari hugsana um vínarbrauð og kaffi, og þetta eina orð, angist, skapar spennu og vekur hugboð um eitthvað óskemmtilegra en vínarbrauð og kaffi.

Það er óleysanleg og heillandi þversögn fólgin í fyrstu persónu fleirtölu frásögninni, þessari samsettu rödd sem er summa þorpsbúa eða kannski þorpsins sjálfs, vitundar þess. Því á bakvið þetta „við“ hlýtur eitthvað „ég“ að standa. Einhver hlýtur að segja söguna, einhver hlýtur að halda á pennanum. Og stundum brýst fram í frásögninni eitthvað afmarkaðara brot af þessari summu, t.d. í einum millikaflanum þegar sögumannsröddin segir frá gamalli frænku sem liggur fyrir dauðanum: „Til hvers hef ég lifað, spurði frænka okkar á dánarbeði, við opnuðum munninn til að svara, án þess þó að vita svarið, en þá dó hún, því dauðinn er ennþá góðu skrefi á undan okkur“ (bls. 121). Frænkan gamla getur tæplega verið frænka allra þorpsbúa og því hlýtur einhver hluti þorpsins að eiga meira í þessari frásögn af frænkunni. Og varla eru það allar fjögurhundruð sálirnar sem opna munninn til að svara henni. Á öðrum stöðum er þessi skemmtilega þversögn smærri í sniðum: „Elísabet passaði Davíð þegar hann var barn, hún er trúnaðarvinur og veit um Hörpu, bara hún sem veit það“ (bls. 154). Aðeins ein manneskja sem veit þetta en samt veit þetta „við“ það líka. Þessi þversögn er í raun aðeins til að auka á margbreytileika hins samsetta sjálfs sögumannsraddarinnar. Það er einhver tregafullur tónn í þessari rödd, kannski dálítil nostalgía, sem ýjar að því að þorpið megi muna sinn fífil fegurri. Þrátt fyrir tregann er húmorinn skammt undan og stundum blandast þetta tvennt saman, t.d. þegar sagt er frá tilurð Prjónastofunnar:

Prjónastofan var reist af ríkinu, slíkar byggingar rísa mjög hægt og svo hikandi að það er eins og það eigi að hætta við á hverjum degi, smám saman gleymir fólk því hver tilgangurinn á að vera með byggingunni. En svo margt háð tilviljunum. Litirnir í fjöllunum, kvefið í marsmánuði, byggingarhraði húsa; tveir þingmenn lentu á fylliríi. Annar þeirra framsóknarmaður, hinn úr gamla Alþýðuflokknum og þegar liðið var á nótt tóku þeir að metast um hvor yrði fljótari að koma upp tíu manna fyrirtæki í nýju húsnæði í sínu kjördæmi. Þessvegna reis Prjónastofan. (bls. 17)

Með þessu verki hefur Jóni Kalman enn á ný tekist að skapa heillandi heim sem er í senn hversdagslegur og töfrandi. Kannski féll ég hér í límmiðafrasana en það verður bara að hafa það! Áður en síðasta saga bókarinnar hefst segir sögumannsröddin: „Ein saga til viðbótar, svo er það búið en samt ekki – “ (bls. 192). Svo hver veit nema þetta „en samt ekki –“ veiti fyrirheit um að lesendur eigi von á fleiri sögum úr þessum heillandi heimi þorpsins. Að minnsta kosti vonar undirritaður það.

Ingi Björn Guðnason, nóvember 2005