Samkvæmisleikir

Höfundur: 
Ár: 
2004
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Viðburðir í Vesturbænum

Ég vildi að allir væru búnir að lesa Samkvæmisleiki, nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar. Ekki einungis vegna þess að það yrði öllum til gleði og ánægju – þótt að þau lýsingarorð nái ekki utan um þetta verk, kannski óhugnaður og ónot væru nærri lagi – heldur liggja líka eigingjarnar hvatir að baki. Samkvæmisleikir er nefnilega bók sem maður iðar í skinninu að fá að tala um, en nú þegar ég hef til þess tækifæri, þá vil ég eiginlega ekki segja neitt, alls ekki gefa of mikið upp, vil ekki fyrir nokkurn mun skemma fyrir væntanlegum lesendum þá grípandi lestrarreynslu sem þeir eiga í vændum.

Það er gaman að fá svona þykkan Braga, þetta er 340 síðna skáldsaga sem lesandinn geysist í gegnum, grípur í frakkalöf höfundarins, eltir hann um Vesturbæinn og vill ekki sleppa. Andrúmsloft og sumar persónur eru að einhverju leyti kunnuglegar úr öðrum verkum höfundar og stundum finnst manni eins og aðalpersónan úr Gæludýrunum hafi risið upp og ákveðið að halda veislu. Þetta er nefnilega bók um samkvæmi, um þrítugsafmæli Friðberts, eitt sumarkvöld á Hringbrautinni. Inn í atburðarásina dragast ýmsir vinir og vandamenn Friðberts að ógleymdu furðufólki af margvíslegri gerð. Sagan spannar knappt tímabil og vandlega afmarkað sögusvið í Vesturbænum – með örlitlu skreppi út úr bænum.

Frásagnarmátinn er sérlega vel heppnaður, tímaflakkið vel uppbyggt og tónninn hefur mikið aðdráttarafl, með sínum sérstaka húmor. Eins og fyrr segir þá er atburðarásin grípandi og vekur forvitni – þetta er svona ég-verð-að-vita-hvað-gerist-næst-bók og heldur þannig nokkuð stöðugri spennu í gegnum allt verkið. Þrátt fyrir þetta, eða kannski þess vegna, er eins og stíllinn vilji kannski frekar hægja á lesandanum. Hér er dvalið við, tíminn lötrast áfram á stundum, athöfnum fólks er lýst mjög nákvæmlega í smæstu smáatriðum, jafnt ákaflega tíðindalitlum athöfnum, sem og kynlífi og óhugnaði. Textinn virkar því við fyrstu sýn sem þéttriðið net; hér skiptir hvert smáatriði máli, hver athöfn, hverri gerð er lýst fyrir lesandanum, en smám saman áttar maður sig á því að textinn er gljúpur, hér er ekki endilega fast land undir fótum, stundum eru gloppur í netinu sem lesandinn dettur skyndilega í gegnum – þessum texta er ekki að treysta. Ég er heldur ekki frá því að við annan lestur hafi senur sem ég mundi svo vel eftir frá fyrsta lestri hreinlega verið horfnar. Var ekki myndavélin þarna? Sá ég ekki ponsjóið hér? Allt þetta heldur við spennunni, um leið og stíllinn tefur stöðugt fyrir og varnar því að hámarkinu séð náð of fljótt.

Einu sinni fór ég í samkvæmi á Hringbraut 45, 4. hæð til hægri, en þá skildi rithöfundurinn ekki eftir svarta rúskinnsskó fyrir utan dyrnar, svo eftirmál urðu samasem engin. Við fórum heldur ekki í leiki. Í Samkvæmisleikjum skapast mjög sérstakt rými þar sem lesandanum er sleppt lausum. Nákvæm staðsetning atburða bindur atburðarásina rækilega við áþreifanlega veruleika um leið og textinn kippir reglulega undan manni fótunum; höfundurinn hristir mann af sér þar til maður sér frakkalöfin hverfa fyrir húshorn á Bræðraborgarstíg.

Samkvæmisleikir hefðu verið mjög ofarlega á mínum tilnefningarlista fyrir bókmenntaverðlaunin og veiti ég þeim hérmeð mín prívat verðlaun áður en ég hef lesturinn í þriðja sinn í leit að týndum senum og persónum.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2004