Saga Ástu

Saga Ástu
Ár: 
2017
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Saga Ástu

Jón Kalman er einn virtasti höfundur Íslands og hefur notið mikilla vinsælda erlendis. Hann hefur verið þýddur á fjölda tungumála og hefur verið orðaður við bókmenntaverðlaun Nóbels. Hann hóf feril sinn sem ljóðskáld en gaf út fyrsta smásagnasafn sitt Skurðir í rigningu 1996. Síðan hefur hann gefið út fjölda skáldsagna sem margar hverjar tengjast innbyrðis. Stíll Kalmans er annarsvegar háfleygur, epískur og tilfinninganæmur; og hinsvegar raunsær, rýnandi og á köflum mjög hvass. Þessi blanda af viðkvæmri ljóðrænu og köldu raunsæi köldu raunsæi hrífur lesandann og dregur inn í sagnaheim þar sem tekist er á við það að vera manneskja.

Saga Ástu er eins og nafnið gefur til kynna bók sem segir frá lífi Ástu Sigvaldadóttur. Ásta er draumabarn foreldra sinna og skírð í höfuðið á annarri Ástu úr heimi bókmenntanna, nefnilega Ástu Sóllilju úr Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness. En fljótlega eftir að Helga og Sigvaldi hafa komið sér saman um nafn stúlkunnar leysist þessi litla fjölskylda upp og líf Ástu sömuleiðis. Hún fer í fóstur, er send í sveit sem vandræðaunglingur, eignast barn og missir það frá sér. Ásta verður fyrir fjölmörgum áföllum á lífsleiðinni, en heldur samt alltaf áfram. Ekki vegna þess að hún búi yfir óbilandi viljastyrk eða metnaði, heldur frekar vegna þess að hún sér enga undankomuleið úr lífinu. Þannig velkist hún um, ávallt dæmd til þess að þurfa að bregðast við því sem lífið eða samferðamenn hennar bjóða henni upp á.

En nafn Ástu er líka vísun í ástina. Sagan fjallar um eftirsjá og söknuð. Fólk sem elskar, sem lifir og þjáist í hringiðju mikillar ástríðu en nær aldrei að koma því almennilega frá sér og missir því ástina. Afleiðingin er þessi mikli söknuður, um hann skrifar Ásta á einum stað: „Það er staðfest að söknuður minn nær út fyrir ystu mörk lífsins. Raunar svo vel út fyrir að það veldur ókyrrð meðal hinna dánu.“ (229)

Bókin fjallar jafnframt um sjálfan skáldskapinn, um hlutskipti höfunda og lesenda, hvernig þeir hvor um sig sitja fastir í fyrirfram skilgreindum hlutverkum sem þeir ráða ekki alltaf við. Bréfaskriftir koma víða við sögu í bókinni, og þýðingarmestu bréfin komast aldrei til skila. Sögumaður veltir í sífellu fyrir sér hvernig best sé að segja sögu Ástu en veltir líka upp álitnum spurningum um stöðu íslenskra höfunda: „Erum við þá hingað komin, hefur skáldskapurinn hrakist út í þetta horn, orðinn hluti af afþreyingu, iðnaði? Íslenskt skáld er lundi. Heitur pottur. Íslenskt skáld er norðurljós. Hreint loft, óspillt náttúra. Íslenskt skáld er söluvara.“ (393) Hér tekst sögumaður á við þann veruleika sem spyrja má hvort íslenskir höfundar glími við í síauknum mæli, og þá ekki síst höfundur þessa verks.

Saga Ástu er einstaklega íslenskt bókmenntaverk og á köflum er líkt og það innihaldi allar íslenskar nútímabókmenntir, öll einkenni íslenskra skáldsagna eru til staðar: eymdin í sveitinni, harkið á mölinni, Íslendingurinn sem strandaglópur í útlöndum og íþyngjandi áhrif ættar og uppruna á örlög einstaklingsins. Samhliða þessu þræðir höfundur bókmenntasöguna aftur á bak, en verkið hefst á Laxness og endar hjá Jónasi Hallgrímssyni.

Bókin er meistaralega vel skrifuð, textinn rennur létt og ljóðrænt áfram. Hinn einkennandi stíll Kalmans er hvarvetna til staðar , landslagið lifnar við og speglar atburðarás og tilfinningar sögupersóna, eins og í þessari lýsingu á nótt við Þingvallavatn: „Sumarnóttin er mild, fjöllin blá, kyrrir draumar, flugurnar suða lágt, fuglar dorma, fiskar anda ofan í hljóðu vatninu og lífið er dýrmætt.“ (17) Þetta er bæði nákvæm og ljóðræn lýsing af sumarnóttinni í þjóðgarðinum en líka í algjörri andstæðu við lýsingarnar á til að mynda lífi Ástu í eymdinni fyrir vestan, þar sem meira að segja hafragrauturinn er svo þykkur og ógirnilegur að unga stúlkan kúgast yfir honum á hverjum morgni.

Saga Ástu er sögð af sögumanni, af henni sjálfri í gegnum bréf og Sigvalda föður Ástu sem rifjar upp líf sitt á meðan hann liggur fyrir dauðanum. Þessar frásagnir fléttast saman og dýpka lýsingar á persónum og atburðum í sögu Ástu. En lesandinn þarf að fylgjast vel með, og oft er nauðsynlegt að staldra við til þess að átta sig á því hver er að tala um hvern á hvaða tíma. Skáldsagan spannar ævi Ástu frá fæðingu hennar snemma á sjötta áratug síðustu aldar fram undir sjöttugt. Það er því að mörgu og mörgum að huga og ekki laust við lesandi sitji eftir með ósk um að hafa viljað vita meira um einstaka persónur eða atburði.

Rósa María Hjörvar, desember 2017