Rummungur og Hundmann

rummungur 3
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
hundmann
Ár: 
2019
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Greifingjahundur breytist í krókódíl og lögreglumaður og hundur verða eitt

Hundar og krókódílar, ræningjar og lögreglumenn

Rummungur 3 eftir Otto Preussler

Það eru gleðitíðindi að þriðja og síðasta bókin um Rummung ræningja er komin út í ljómandi góðri íslenskri þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar og ber hið lýsandi nafn Rummungur 3. Fyrsta sagan um skúrkinn kom út hér á landi fyrir meira en hálfri öld og var með öllu ófáanleg þótt hún lifði góðu lífi í bókaminni þeirra sem eldri eru. Dimma hóf svo endurútgáfu á þessum meistaraverkum fyrir tveimur árum með Rummungi ræningja og í fyrra fylgdi Meira af Rummungi ræningja.

Bækurnar eru allar myljandi fyndnar og alveg passlega uppfullar af vitleysu og ærslum og minna um margt á bækur Ole Lund Kirkegaard – ekki síst vegna frábærra teikninga J.F. Tripp, sem eru svo aftur litaðar af Matthias Weber. Höfundurinn, Otto Preussler, var þjóðverji en fæddur í fyrrum Tékkóslóvakíu. Eftir að hafa þjónað í þýska hernum í heimsstyrjöldinni síðari, þá nýskriðinn úr skóla, sat hann um tíma í fangabúðum bandamanna og skrifaði raunar síðar bók um þá reynslu. Hann starfaði svo sem kennari og síðar skólastjóri til æviloka auk þess sem hann skrifaði margverðlaunaðar barnabækur sem hafa verið þýddar á yfir fimmtíu tungumál og selst í meira en fimmtíu milljónir eintaka.

Eins og í fyrri bókunum um Rummung, segir hér frá ævintýrum drengjanna Kaspers og Jobba og samskiptum þeirra við ömmu, lögregluvarðstjórann Fimbulfúsa og fleiri skrautlegar persónur og ekki síst við Rummung ræningja sjálfan. Í fyrstu bókinni stelur þessi skelfilegi ræningi kaffikvörninni hennar ömmu (og hér er vert að taka fram að þetta var alveg sérstök kaffikvörn, mjög falleg og spilaði uppáhalds lagið hennar ömmu þegar sveifinni var snúið). Það kom auðvitað í hlut Kaspers og Jobba að endurheimta kvörnina og koma Rummungi á bak við lás og slá auk þess sem þeir þurftu að kljást við hinn illa galdramann Slembimann. Í annarri bókinni beitir Rummungur fólskulegum bellibrögðum til að sleppa úr fangelsinu og gerir gott betur og rænir ömmu og aftur verða Kasper og Jobbi og koma til bjargar. Þessi þriðja og síðasta bók hefst á því að amma er í rólegheitunum að hengja þvott út á snúru þegar hún kemur auga á Rummung í felum í runnunum. Nú er hún reynslunni ríkari, hefur þurft að kljást við Rummung áður og hefur þar að auki setið við og lesið ræningjasögur undanfarið. Hún gerir sér því lítið fyrir og læsir Rummung inni í þvottahúsinu. Þegar svo Fimbulfúsi varðstjóri, Kasper og Jobbi mæta á svæðið virðist ævintýrið úti áður en það hefst en svo kemur í ljós að Rummungur flúði ekki úr fangelsinu, hann var látinn laus fyrir góða hegðun og ætlar nú að snúa við blaðinu og hefja nýtt, glæpalaust líf. Þá er bara spurningin hvort honum er alvara með því eða hvort þetta er bara nýtt bragð – en ekki síður hvort amma, Fimbulfúsi og drengirnir tveir taka hann trúanlegan.

Við sögu koma einnig ekkjan Strókalín, sem er spákona og dálítið göldrótt og hennar tryggi hundur, Vísir, sem er reyndar krókódíll. Eitt sinn sem ung stúlka var hún að fikta með galdra og breytti þá óvart greifingjahundinum sínum í krókódíl þegar hún ætlaði (líkast til vegna leiðinda, viðurkenndi hún sjálf) að breyta honum Sankti Bernhardshund. Í upphafi bókar eru Kasper og Jobbi einmitt að leita leiða til að breyta honum aftur í greifingjahund. Hingað til hafa tilraunir þeirra leitt til þess eins að Vísir er orðinn gallhörð grænmetisæta. Áður en þeir komast lengra með tilraunirnar hverfur kristalskúla ekkjunnar Strókalín og böndin berast, einu sinni sem oftar, að Rummungi ræningja.

Eins og sjá má af söguþræðinum eru bækurnar dásamleg blanda af ærslum og ævintýrum, þær eru sérlega fyndnar og hugvitsamlegar og persónurgalleríið eitt og sér væri lestursins virði og þar leika myndskreytingarnar stórt hlutverk. Hér má til dæmis nefna ekkjuna Strókalín sem á stórkostlegum myndunum er mikil um sig, með úfið hár, í marglitum morgunslopp og gjarnan með stóran vindil í munnvikinu, við fætur hennar liggur gjarnan krókódíllinn/greifingjahundurinn Vísir. Félagarnir Kasper og Jobbi eru ráðgóðir en ekki neinir snillingar, en það er Rummungur svo sem ekki heldur svo það kemur ekki að sök. Stíllinn er leikandi léttur og skemmtilegur en um leið afar vel skrifaður eins og sjá má bara af blábyrjuninni:

Þetta var fallegur gullinn vordagur. Stjörnufífillinn stóð í blóma, sólblómin heilsuðu frá girðingunni fyrir ofan og á moltuhaugnum í garðshorninu þroskuðust graskerin, fimm stór, níu miðlungs og sex lítil. Amma hafði ræktað þau sjálf, eftir leynilegri uppskrift frá fjarskyldri frænku sinni. Þau litlu áttu að vera einsog apríkósur á bragðið, þau stóru einsog súkkulaði, þau miðlungsstóru einsog rjómi að utan, en að innan einsog hindberjaís. (11)

Í lok bókar kemur svo í ljós að eitt graskerið smakkast að utan eins og sterkur ostur og að innan eins og síldarflak, en þá eru drengirnir þegar búnir að fá svo mikið af kökum að þeir eru hæstánægðir með graskerið og Rummungur 3 endar, eins og hinar bækurnar tvær, á því að þeir borða yfir sig af góðum mat og eru svo hamingjusamir að þeir myndu ekki vilja skipta við neinn, ekki einu sinni sjálfa sig.

Bækurnar um Rummung ræningja eru allof skemmtilegar til að hægt sé að tala um boðskap eða fræðslu í tengslum við þær – en eins og í öllum frábærum bókmenntum birtist þar hins vegar einhver lífssýn og speglun á heiminn. Þrátt fyrir öll ærslin og ævintýrin liggur í bókunum einhver dásamleg fullvissa um að það sé varla til meiri hamingja en að sýsla sáttur við sitt í góðum félagsskap.

Það er hreinlega erfitt að finna snöggan blett á bókunum um Rummung – það væri þá helst að letrið mætti vera stærra – sérstaklega í síðustu bókinni, svona til að auðvelda ungum lesendum (og ekki síður þeim eldri) lesturinn og svo hefði ekki verið úr vegi að geta þess fremst í bókinni hvenær hún kom upphaflega út.

Hundmann eftir Höfundur Dav Pilkey

Það eru ekki bara Kasper og Jobbi sem bregða á leik fyrir jólin heldur eru félagarnir Georg og Haraldur aftur komnir á kreik. Georg og Harald kannast margir við úr bókunum um Kaftein Ofurbrók en í þeim geysivinsælu bókum má finna þessa óforbetranlegu prakkara. Skólastjórinn þeirra, Kári, er ekki með glaðlyndari mönnum en Georg og Haraldi hefur tekist að dáleiða hann og geta breytt honum í ofurhetjuna Kaftein Ofurbrók, þegar þeim hentar. Þeir skrifa svo hasarblöð þar sem Kafteinninn bjargar málum, í mikilli óþökk skólastjórans eins og gefur að skilja. En þeir skópu líka hetjuna Hundmann og nú er komin í íslenskri þýðingu fyrsta bókin um Hundmann sem er greindur lögreglumaður með hundshaus. En jafnvel afskaplega greindur maður í bók eftir Dav Pilkey fann ekki upp djúpa diskinn og rétt eins og í bókunum um Kaftein Ofurbrók er Hundmann full af vitleysisgangi, prumpubröndurum, heimsku fólki, hori, hundaskít og rugli – og sjö ára sonur minn hló hvað eftir annað upphátt við lesturinn – sinn eiginn lestur – enda eru þetta teiknimyndasögur og sem slíkar afskaplega aðgengilegar ungum lesendum.

Hundmann hefst á inngangi sem útskýrir hvernig Georg og Haraldur kynntust í 1. bekk og skrifuðu fullt af teiknimyndasögum um Hundmennið. Skiljanlega voru þeir ekki sleipir í stafsetningu né teikningu á þessum tíma eins og útdráttur úr efninu sýnir glöggt. En þegar þeir finna sögurnar aftur, þá eldri og reyndari, er Georg búinn að læra stafsetningu og Haraldur orðinn betri teiknari. Þeir ákveða að skrifa fleiri sögur um Hundmennið en kalla það nú Hundmann.

Einu sinni voru í lögregluliðinu fremur illa gefinn en kraftalega vaxinn lögreglumaður og skarpgreindur en væskilslegur lögregluhundur. Alræmdi glæpakötturinn Pési ætlaði að eyða þeim báðum í sprengingu en í staðinn skóp hann óvart erkióvin sinn; Hundmann – og í öllum sögunum takast þeir tveir á. Hundmann sjálfur er fyrirtaks lögreglumaður/hundur en þótt hann sé hálfur maður heldur hann enn ýmsum hundlegum einkennum. Hann sefur á gólfinu, skítur stundum inni á skrifstofu lögreglustjórans og sleikir andlit yfirmanns síns í tíma og ótíma til að sýna hlýhug. Grínið í Hundmann er, eins og í Kafteini Ofurbrók, yfirleitt húrrandi rugl og vitleysa, en oft ansi gott og ristir dýpra en við fyrstu sýn. Í einni sögunni rísa t.d. svæsnar glæpabúllur um alla borg og þar fer ýmislegt vafasamt fram eins og sjá má á skiltum húsanna: „Tölvuþrjótaval“, „Græjur til að svindla á prófum“ og „Hér fást plastpokar“ (80). Þá verður líka að nefna frábæra þýðingu Bjarka Karlssonar sem bæði staðfærir heilmikla kómík ásamt því að vísa skemmtilega í ýmsar áttir eins og þegar Hundmann kemur glæpamanninum í fangelsi og félagarnir á stöðinni syngja „Glaðasti hundur í heimi“ fyrir hann. Hér er orðagrín blóðmjólkað á besta hugsanlega hátt og persónur setja upp hundshaus, eru hundfúlar og sýna hundakúnstir út í eitt. Þá er vert að nefna að eins og fram kemur fremst í bókinni hafa íslenskar þýðingar á sögupersónum, stofnunum og stöðum sem koma fram í bókunum um Kaftein Ofurbrók fengið að halda sér hér – aðdáendum til mikillar gleði. Það voru Karl Ágúst Úlfsson og Bjarni Guðmarsson sem áttu heiðurinn af þeim þýðingum og leyfi var góðfúslega fengið frá Forlaginu til að nota þær áfram sem er afskaplega vel til fundið. Að lokum má nefna að bókinni fylgja vandaðar leiðbeiningar um hvernig fólk getur lært að teikna persónurnar – og hafa þær þegar verið teknar í gagnið á heimili rýnis.

Ef ætti að fetta fingur út í eitthvað í bókinni þá væri það skortur á kvenpersónunum en fyrir utan illmennið Forsætis úr einni sögunni og hina eitursnjöllu „hjúkku-konu“ Birgittu, sem á hugmyndina að því að sameina höfuð hundsins og líkama lögreglumannsins í fyrstu sögunni, er nánast engar konur að finna.

Barnabækur eiga undir högg að sækja á Íslandi, enda markhópurinn hlutfallslega afar smár og þetta kemur auðvitað niður á frumsömdum íslenskum barnabókum en ekki síður á þýðingum. Því ber að fagna því að Rummungur ræningi, sem er dásamleg barnabókaklassík og Hundmann, sem er nýklassík í myndasagnaheiminum, komi út á íslensku. Með þessum þýðingum stækkar sá heimur sem við sýnum börnunum og frábært samspil mynda og texta gerir þær báðar að listaverkum, þótt afar ólíkar séu.

 

Maríanna Clara Lúthersdóttir, desember 2019