Rotturnar

Ár: 
2018
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Háskalegur rottugangur

Hildisif starði á skjannahvítar dyrnar sem lokuðust hljóðlega á eftir bláklæddri verunni sem hafði rétt áður nærri blindað hana með því að lýsa sterku ljósi beint í augun á henni. 
Hvar er ég? 

Svona hefst þriðja skáldsaga Ragnheiðar Eyjólfsdóttur, Rotturnar,  en Ragnheiður hefur áður skrifað bækurnar Arftakinn: Skuggasaga #1 og Undirheimar: Skuggasaga #2. Ragnheiður hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2015 fyrir fyrri bókina og sendir nú frá sér bók ótengda þeim tveimur fyrri.  Í Skuggasögubálkinum byggir höfundurinn upp skuggalegan fantasíuheim og fær lánað úr brunni íslenskra þjóðsagna og ævintýra. En í Rottunum hefur Ragnheiður breytt svolítið um stefnu frá fantasíunni yfir í vísindaskáldskap, þótt fantasíuna megi svo sannarlega finna í skrifunum. Lesendur sogast hér inn í æsispennandi atburðarás íslenskra unglinga sem virðist vel geta verið raunveruleg – að minnsta kosti í fyrstu. 

Í upphafi bókar fáum við að kynnast unglingunum fjórum, þeim Hildisif, Flexa, Garúnu og Garra en þau eru á leið austur á hálendi þar sem þau hafa ráðið sig í sumarvinnu fyrir fyrirtækið Geislaspan. Þar eiga þau að sinna ýmsu viðhaldi á stígum og skálum sem og öðrum klassískum unglingavinnuverkefnum. Ekkert af þeim er sérstaklega spennt fyrir vinnunni og sumrinu sem bíður þeirra og gamanið kárnar enn frekar þegar þau eru send ásamt sérstökum hópi í afskekktan skála þar sem ekkert símasamband er. 

Þegar einn unglinganna,  Hildisif, veikist skyndilega eftir flóabit fara grunsamleg atvik að eiga sér stað og það líður ekki á löngu áður en unglingarnir þurfa að berjast fyrir lífi sínu á margvíslegan hátt. Meginpartur bókarinnar gerist síðan í hátæknilegri rannsóknarstofu sem unglingarnir vakna allir inni á eftir að hafa sofnað út frá gasi í skálanum. Hildisif, aðalsöguhetjunni okkar,  er haldið í einangrun þar sem grunur leikur á að hún hafi sýkst af engu öðru en svarta dauða sem varð þriðjungi íslensku þjóðarinnar að bana á 15. öld. Krakkarnir þurfa að horfast í augu við ytri hættur, finna út hverjum sé treystandi í þeirra hópi sem og í hópi fólksins sem vinnur á rannsóknarstofunni. Smám saman kemur í ljós að það er ekki tilviljun að unglingarnir eru samankomnir á þessari undarlegu rannsóknarstofu og það eru ytri öfl sem hafa komið þeim þangað. 

 

Vísindi og veikindi 

Hræðsla nútímamannsins við tækniframfarir er auðvitað þekkt þema í vísindaskáldskap og í Rottunum er fyrst og fremst unnið með þær framfarir sem hafa átt sér stað í lækna- og genavísindum. Bókin fellur í flokk svokallaðra plágubókmennta en frægust þeirra er líklega skáldsaga franska rithöfundarins Alberts Camus, Plágan, frá árinu 1947. Í Rottunum skipta hinir veiku miklu máli og því er gefið gott rými í textanum. Veikindunum er lýst ítarlega, hvernig sjúklingunum líður og hvernig heilsu þeirra hrakar. Þetta vekur óhug á sama tíma og ástand hinna sýktu er einnig kunnuglegt þar sem einkenni geta minnt á harkalega flensu sem flestir þekkja af eigin raun. Þar að auki er sjúkdómurinn og tilvist hans í nútímanum undirbyggður með sögulegum heimildum. Ljóst er að talsverð heimildavinna liggur að baki og veitir söguþræðinum aukið vægi í veruleika íslenskra unglinga.  

 

Vonin sem fylgir tækninni 

Eins og sannri vísindaskáldsögu sæmir er það síðan tæknin sem getur bæði tortímt og bjargað hetjunum okkar. Á rannsóknarstofunni ríkir alsæi þar sem enginn veit hvenær er verið að fylgjast með þeim og með tækninni er unglingunum haldið í stöðugri óvissu um hvað sé handan veggjanna. Persónuupplýsingar þeirra eru notaðar gegn þeim og svo virðist sem yfirmenn rannsóknarstofunnar viti meira um unglingana en þau sjálf. Í bókinni er unnið með þá þörf okkar að vera stöðugt tengd umheiminum og hvernig símarnir okkar og tölvurnar vekja með okkur öryggi og von um að allt sé hægt að betrumbæta.  Þessi von er síðan það sem hægt er að misnota, sé viljinn fyrir hendi. 

Á köflum getur verið erfitt að greina á milli þess sem gæti átt sér stoð í íslensku samfélagi og hvað sé uppspuni frá rótum.  Stórfyrirtækin sem talað er um eru vissulega ekki til, en það þarf ekki að leita langt til að sjá fyrimyndirnar í  þjóðfélaginu; risastofnanir sem búa yfir upplýsingum um litla þjóð og orkufyrirtæki sem hafa mikil völd, þótt hvorugt sé orðað hreint út. Að baki spennusögunni er baksaga sem ekki er sögð en minnir um margt á ýmislegt í íslensku samfélagi.
Það er skemmtilegt að sjá vísindaskáldsögu sem talar svo vel inn í íslenskan nútíma og á því mögulega nokkuð skylt við fyrstu skáldsögu Sigríðar Hagalín, Eyland, sem kom út fyrir tveimur árum og naut mikilla vinsælda, þótt markhópurinn sé annar. 

Óljóst er hvort Rotturnar sé fyrsta bókin í seríu eða hvort hún muni standa ein og sér. Engir lausir endar verða eftir óhnýttir í lok bókarinnar en hægt er að ímynda sér að þau Hildisif, Flexi, Garri og Garún gætu lent í frekari hremmingum í annarri bók. Ragnheiður hefur bætt um betur frá því í fyrri bókum sínum. Hér einbeitir hún sér að einum söguþræði og einu meginþema og fellur ekki í þá gryfju að reyna að setja of mikið í eina bók. Fyrir aðdáendur Hungurleikanna eftir Suzanne Collins og Divergent-seríunnar eftir Veronicu Roth má vel mæla með þessari bók sem er kjörin viðbót við ört vaxandi flokk íslenskra bóka fyrir ungt fólk. 
 

Guðrún Baldvinsdóttir, 2018