Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins og Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf

Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Ráðgátur og leynimakk - ekki er allt sem sýnist í Álftabæ

Dularfull skilaboð, yfirgefin hús og sérkennilegt fólk sem villir á sér heimildir er meðal þess sem lesendur fá að kynnast í ráðgátunum Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins og Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf eftir Snæbjörn Arngrímsson, en sú fyrrnefnda hlaut íslensku barnabókaverðlaunin í fyrra. Í bókunum segir frá vinunum Millu X. Ákadóttur og Guðjóni G. Georgssyni og tilraunum þeirra til að komast til botns í afskaplega óvenjulegum atburðum sem eiga sér stað í bænum Álftabæ þar sem þau búa. Þó að sögurnar séu á yfirborðinu hefðbundnar spennusögur fyrir krakka gera einstakur stíll, órætt andrúmsloft og óvenjulegur endir þær ólíkar öðrum sögum í sama flokki.

Í upphafi Rannsóknarinnar á leyndardómum eyðihússins kynnast lesendur aðalpersónunni Millu, sem er einnig sögumaður beggja bóka. Hún býr ásamt foreldrum sínum og bróður í útjaðri Álftabæjar en skammt frá heimili hennar standa tvö hús sem koma mikið við sögu, annars vegar Sjónarhóll sem hefur staðið auður til skamms tíma og svo Eyðihúsið, sem vísað er til í titlinum. Síðasti íbúi Eyðihússins var Hrólfur ríki, sem var einstaklega óviðkunnanlegur og vinafár maður, en þegar sagan hefst er akkúrat liðið ár frá andláti hans. Eyðihúsið, saga þess og íbúar eru öll sveipuð mikilli dulúð og þó að það eigi heita yfirgefið sjást þar stundum skuggar á kvöldin, einhverjir halda því fram að þar feli sig strokufangar sem hefur spurst til í grenndinni.

Sagan gerist að sumri til og ýmislegt breytist í lífi Millu þetta sumar; það sem ber kannski hæst í þeim efnum er koma feðganna Guðjóns G. Georgssonar, eða Gonna eins og hann vill helst láta kalla sig, og pabba hans, uppfinningamannsins Georgs, í bæinn. Óvænt vinátta tekst með þeim Millu og Guðjóni G. og þó að Milla ýti honum reglulega frá sér til að fá frið til að hugsa um lífið hefur það lítil áhrif á vináttuna, hann bíður bara hinn rólegasti eftir að hún nenni að tala við hann aftur.

Um svipað leyti og feðgarnir birtast í bænum er leyndardómsfullur kistill skilinn eftir á tröppum bókasafnsins. Í honum leynast þrjár nánast óskiljanlegar þrautir ásamt hvatningu til bæjarbúa að leysa þær til að komast að því hvernig Hrólfur ríki öðlaðist ríkidæmi sitt og fá jafnvel sneið af kökunni. Guðjón G. Georgsson, sem Milla kallar alltaf fullu nafni þrátt fyrir mótmæli hans, fær sérstaklega mikinn áhuga á þrautunum og tekst þrátt fyrir efasemdir hennar að vekja áhuga Millu á að taka þátt í að finna lausnina. Fljótlega verður ljóst að meira er undir, þeim berast óvæntar vísbendingar og undarleg skilaboð og einhver virðist fylgjast með þeim á laun. Í eyðihúsinu læðist einhver um á nóttunni og einhvern veginn tengist innihaldið í kistlinum gleymdu leyndarmáli í iðrum hússins. 

Aðalpersónurnar Milla og Guðjón G. Georgsson eru í fyrirrúmi í sögunni og vinátta þeirra sem Milla á í fyrstu svolítið erfitt með, hún er sjálfri sér nóg og þarf engan með sér. Þrátt fyrir það eiga þau ágætis samleið og vega hvort annað upp; á meðan Milla er lokuð og stutt í spuna er Guðjón G. þolinmóður og blíður og leyfir henni að rasa út þegar hún þarf þess. Nokkrar aukapersónur setja að auki svip sinn á söguna, svo sem Nanna á bókasafninu og foreldrar Millu, en aðrar persónur leika nokkuð stór hlutverk þrátt fyrir að koma í raun aldrei fram í sögunni, Hrólfur ríki er þar á meðal en sagan fjallar að vissu leyti óbeint um hann.

Stíllinn í sögunni er afar sérstakur og á stóran þátt í að skapa heillandi andrúmsloft. Framsetning textans myndar ákveðna hrynjandi með mörgum stuttum köflum í rykk, sem virka nánast eins og örsögur og ná svo hápunkti með nokkrum lengri köflum þar sem sögunni vindur áfram í lengra máli. Mynstrið endurtekur sig nokkrum sinnum í gegnum söguna og stuttu kaflarnir eru til þess fallnir að skapa hraða og spennu þegar þarf að fletta hratt áfram til að lesa meira. Samt sem áður ríkir ákveðin kyrrð í þessum örköflum þar sem Milla lýsir umhverfi sínu eða veltir fyrir sér ýmsum hlutum. Ágætt dæmi er þegar Milla fylgist með Guðjóni G. Georgssyni þegar innihald kistilsins er afhjúpað:          

Áhorfandinn

 

Mér var litið á Guðjón G. Georgsson sem stóð eins og dáleiddur og fylgdist hugfanginn með því sem fram fór við púltið.

Andardráttur hans var þungur. (52)

Kaflarnir í bókinni bera allir fyrirsagnir sem varpa oft nýju ljósi á það sem gerist, þær bæta þó nokkru við söguþráðinn, vekja lesandann umhugsunar og fá hann til að staldra við.

Lausn ráðgátunnar og ýmsar uppljóstranir í lok sögunnar eru nokkuð óvæntar og hugmyndaríkar, og ófyrirséðar tengingar milli atburða og fólks gera söguna bæði áhugaverða og óvenjulega. 

***

Í seinni sögunni, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf, sem er nokkuð sjálfstætt framhald af þeirri fyrri, er Guðjón G. Georgsson fjarverandi í upphafi. Hann er á ferð um landið með pabba sínum og Milla er ekki alveg viss hvort hann sé hreinlega farinn fyrir fullt og allt. Hann virðist í það minnsta hafa verið óratíma í burtu. Á meðan Milla bíður þess að hann komi aftur fylgist hún með fólkinu í bænum og sérstaklega nýjum íbúa, glæsilegri en svolítið ógnvekjandi furstynju sem er flutt inn í eitt húsanna.

Milla er ekki sú eina sem hefur áhuga á furstynjunni, bekkjarbróðir hennar Doddi, alræmt hrekkisvín, þvælist í kringum húsið hennar og er örugglega að gera eitthvað sem hann má ekki.

Furstynjan er í litlum sem engum samskiptum við bæjarbúa en þegar hún rekst á Millu fyrir utan hjá sér býður hún henni inn. Óvæntir atburðir í heimsókninni vinda upp á sig, pínulítil froskastytta virðist fyrir eigin vilja taka upp á að láta sig hverfa úr hillu á heimili furstynjunnar og Milla kemst við það í nokkur vandræði, þar að auki rýkur Doddi öllum að óvörum út af heimili sínu og hverfur. Guðjón G. Georgsson snýr þá loksins aftur úr ferðalaginu og þau tvö geta hafist handa við að koma hlutunum aftur í samt lag. Leit er skipulögð að Dodda og Milla og Guðjón G. ákveða að taka þátt eins og aðrir í bænum. Þau eru send á afvikinn stað að leita og uppgötva ekki bara eyðibýli þar sem undarlegir atburðir eiga sér stað heldur kemur í ljós að það er eitthvað mjög skrítið á seiði hjá furstynjunni. Óvæntar tengingar leiða að lausn málsins hér líkt og í fyrri sögunni og leiðin þangað er bæði spennandi og svolítið hrikaleg.

Vaxandi væntumþykja Millu í garð Guðjóns G. Georgssonar er áberandi söguna í gegn; hún saknar hans þegar hann er fjarverandi, sem kemur henni sjálfri kannski mest á óvart. Þó ekki beri mikið á því þar sem hún er ekki mjög tilfinningasöm að eðlisfari, breytast tilfinningar hennar til hans smám saman í gegnum seinni söguna og hún hættir að reyna að ýta honum frá sér líkt og hún gerði í þeirri fyrri. Guðjón G. breytist líka og verður áræðnari, hann kynnist fleiri jafnöldrum þeirra og hættir að elta Millu um í blindni. Hann verður sjálfstæðari gagnvart henni, hættir að samþykkja allt sem hún segir og verður með því meiri jafningi hennar. Flóknari tilfinningar fara að bæra á sér, en aðeins er krafsað rétt í yfirborðið á þeim, enda ekki í anda sögumannsins Millu að fara að kafa dýpra í þær í þessu samhengi.

Líkt og í fyrri bókinni er textinn hér settur fram með styttri og lengri köflum í ákveðnum takti, þó nokkur söknuður sé af kaflaheitunum sem hefur verið sleppt. Engu að síður skapast sama óræða, spennuþrungna andrúmsloft og fyrr, söguþráðurinn og fléttan eru vel unnin og áhugaverð, úrlausnirnar koma aftur á óvart en á allt annan hátt en síðast. 

Ýmislegt er gert til að tengja sögurnar heiminum utan bókanna og gefa þeim þannig yfirbragð raunverulegra atburða. Í inngangi beggja bóka kemur þannig fram að Álftabær sé raunverulegur bær en sé hér undir dulnefni til að vernda íbúana. Fremst í báðum bókum er auk þess kort yfir Álftabæ, ásamt yfirliti yfir staðreyndir sögunnar. Ýmis atriði sem fjallað er um og koma við sögu eru þannig ofin saman við raunveruleikann, í það minnsta eins og hann er kynntur í sögunni.

Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins og Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf eru virkilega vel skrifaðar, spennandi og grípandi sögur þar sem lesandinn er dreginn inn í heillandi heim þeirra Millu og Guðjóns G., Hrólfs ríka, furstynjunnar og allra þeirra hættulegu sem læðast um í myrkrinu. Margt í sögunum kallast á við hefðbundnar spennubækur fyrir unga lesendur, þar sem ævintýragjarnir krakkar fá ráðgátu til að leysa, lenda í alls kyns háska og tekst með þrautseigju og hugmyndaflugi að komast til botns í málunum, en íhugul rödd sögumannsins Millu, hið nokkuð óhefðbundna vinatvíeyki sem er í aðalhlutverki og sérstakt andrúmsloft gerir þessar sögur einstakar og öðruvísi.

 

María Bjarkadóttir, október 2020