Öskraðu gat á myrkrið

öskraðu gat á myrkrið
Höfundur: 
Ár: 
2015
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Og auðvitað finnst mér það í góðu lagi

Bubbi Morthens er fjall í landslagi íslenskrar dægurmenningar. Fjall sem hefur endurnýjast, veðrast og breyst með tímanum en stendur þó óhaggað á sínum stað og er ekkert á leiðinni burt. Hvort sem okkur líkar betur eða ver, kunnum að meta þetta fjall eða látum það fara í taugarnar á okkur, er Bubbi fasti í tilverunni sem minnir á sig í gegnum tónlist og viðtöl bæði í útvarpi og sjónvarpi, blöðum og tímaritum. Biggi, sem er lönguhættur í hljómsveitinni Maus, sagði einu sinni að það væri hægt að greina aðstæður í íslensku samfélagi hverju sinni með því að líta til Bubba. Ég er ekki alveg klár á því hvort hann átti þá við ytri aðstæður Bubba og hvernig þær birtust okkur hinum í fjölmiðlum; Bubbi mættur að auglýsa jeppa eða Bubbi að selja lögin sín til Sjóvá, eða hvort listsköpun hans tæki ávallt mið af samfélaginu hverju sinni og að textar hans og lög væru gluggar inn í það samfélag. Að mínu mati gætu báðar nálganirnar átt við. Tónlistarmaðurinn Bubbi og höfundarverk hans er eitt en Bubbi sem rokkgoðsögn og ímynd í dægurmenningu þjóðarinnar er annað. Hvort um sig hefur ákveðið menningarlegt gildi og vægi hvorutveggja getur sagt okkur ýmislegt um það tímarými sem við lifum í.

En fjallið Bubbi sem haggast ekki og er á sínum örugga stað í samfélaginu gerir það að verkum að ég fer að máta mig við þetta fjall og rifja upp minningar því tengdu. Hvernig leiðir okkar Bubba hafa legið saman – hann sem rokkgoðsögn og opinber persóna, ég sem krakki á póstmódernískum tímum í Reykjavík. Þegar ég var lítil gerði ég mér grein fyrir að Bubbi væri merkilegri en aðrir og eins skildi ég að hann endurspeglaði ákveðin gildi og ákveðna týpu í þjóðfélaginu. Fyrir mér var Bubbi og einn móðurbróðir austur á fjörðum eina og sama manneskjan – báðir miklir töffarar, rokkarar, en algjör samruni varð þegar ég sá frænda taka loftgítar og syngja hástöfum „og mér finnst það í góðu lagi“ með Bubba í botni heima í stofunni hjá ömmu. Bubbi varð að goðsögn í mínum huga og eins og börn í sakleysi sínu gera trúði ég því ekki að hann gerði nokkuð slæmt eða vont. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar ég einn daginn kom heim úr skólanum eftir fyrirlestur um skaðsemi reykinga og spurði mömmu hvort hún héldi nokkuð að Bubbi reykti. Móðir mín, sem var ekkert að fela sannleikann, sagði að einu sinni hefði hún séð Bubba á balli og þá hefði hann verið með mann í vinnu við að kveikja á öllum sígarettunum sem hann reykti. Þegar ég skrifa þetta finnst mér reyndar ólíklegt að það hafi verið móðir mín sem sagði mér óvæginn sannleikann með þessum hætti en vonbrigðin, sem lita þessa minningu eru ótvíræð. Síðar fór ég að læra á gítar hjá afar þolinmóðum gítarkennara á Grensásvegi. Við uppgvötuðum ansi fljótt að framtíð mín sem gítarleikari yrði ekki björt – ég hefði engan áhuga á þessum hljómum og með dvergvaxna fingur þar að auki sem náðu illa til strengjanna. Svo var það líka áhuginn á textunum sem skyggði á tónlistina sjálfa. Það kom skýrast fram þegar hinn ágæti gítarkennari reyndi að kenna mér „Mýrdalssandur“ með GCD, sem í voru Bubbi og Rúni Júl. Það er rigning og myrkur og meinlegir skuggar á Mýrdalssandi og hvergi skjól að fá ... yfirgefinn bíll útí vegarkanti... með taugarnar þandar, titrandi andar... og tíminn líður. Hvað í fukkanum var að gerast hér ? Og þegar gítarleikarinn góðkunni tilkynnti mér að þetta væri byggt á sönnum atburðum og bað mig vinsamlegast að spyrja foreldra mína út í þá nánar en ekki hann, var mér allri lokið. Síðar söng vinkona mín „Sumar konur hlæja eins og hafið“ í söngvakeppni Menntaskólans við Hamrahlíð og leyfði mér og tveimur öðrum vinum að vera í bakröddum: Geggjað! Í dag skipti ég fólki í tvo hópa: þá sem hlæja eins og hafið og þá sem gera það ekki. Oft hefur hafs-hláturinn eitthvað með reykingar, viskýdrykkju og áhugaverða lífsreynslu að gera og í mínum huga er það alls ekki verra.

En nóg um æsku mína með Bubba altumlykjandi. Við eigum rómantíska-Bubba og pönk-Bubba, baráttu-Bubba og alþýðu-Bubba, bíla-Bubba og Sjóvá-Bubba, sagna-Bubba, Bubba sem lætur sér annt um fanga og heimilislausa, reggí-Bubba, xfactor og ædol-Bubba, Voga-Bubba (kom það fram að ég er líka úr Vogunum í 104 Reykjavík?) og blogg-Bubba. Bubbi sem heldur útgáfupartý í Hagkaup innan um sjampóbrúsa og tannbursta.

Í ljóðabókinni Öskraðu gat á myrkrið, sem er fyrsta ljóðabókin sem Bubbi gefur út, fáum við aftur á móti annan Bubba en við höfum fengið áður; myrka-Bubba. Hér sýnir hann  á sér hlið sem við höfum séð glitta í bæði í fjölmiðlum og söngtextum, hlið sem er hluti af hans ímynd sem rokkgoðsögn en hann hefur ekki fjallað um eða tekist á við með jafn beinskeyttum og sársaukafullum hætti og áður.

Eitt af upphafsljóðum bókarinnar - ljóðin bera ekki titil en eru númeruð sem gefur tilkynna að þau eru samhangandi heild og í þeim má greina upphaf, miðju og eins konar niðurstöðu - lýsir tryllingslegu augnabliki úr æsku skáldsins og kvíðanum sem tekur sér bólfestu í sálinni í kjölfarið. Í næsta ljóði hefur ljóðmælandi kynnst undrum hassins. Það gefur því augaleið að hér er skapað og túlkað ákveðið orsakasamhengi  - erfiðleikar og öryggisleysi í æsku sem að mörgu leyti útskýra eða leiða til þess sem á eftir kemur. Eftir því sem líður á bókina sekkur ljóðmælandi í dýpri neyslu en reynir einnig að takast á við neysluna og verða edrú. En eins og ljóðabókin miðlar á afar afdráttalausan hátt er það hægara sagt en gert. Í leiðinni minnist hann fallinna félaga og „gleymdra“ ástkvenna – þó ekki með nafni eða tengja við ákveðinn tíma eða stað (því miður fyrir ykkur, voyeuristar!) heldur eru efnistökin mun óræðari en svo. Ef við ættum að tengja  þau bókmenntafræðilegu hugtaki væri það „súrrealískur sósíalrealismi“ sem yrði ofan á og ég tel að lýsi Bubba almennt bara ágætlega.

Myndmálið í bókinni minnir um margt á lagatexta Bubba og tengist meðal annars hafinu, en við munum eftir blindskerjum, háflóði og hafinu í allri sinni ógn og dýrð úr lögum hans. Bubbi verður jafnvel sjálfsvísandi þegar hann skrifar eftirfarandi:

við sem höfum aldrei gist hafið
þetta risastóra bláa lunga
aldrei fundið það fylla okkur
fegurð sinni
aldrei þekkt það
nema sem klisju í dægurlagatextum

Hafið kallast á við tilvitnunina í Moby Dick í upphafi bókarinnar og tengist öðrum náttúruundrum og öflum sem eru áberandi í ljóðunum. Eins og eyðimerkur, auðn og jafnvel himingeimurinn, sem öll verða að vettvangi myrkursins, þar sem það breiðir úr sér og umlykur einstaklinginn og reynir að gleypa hann. Hér líkir ljóðmælandi sér við tunglið:

kalt myrkrið hörfar undan öllum þessum ljósum
máninn strýkur glerið
liggjandi virðir þú fyrir þér fótspor armstrongs
þín spor hafa haft skelfilegri afleiðingar
og þín dimma hlið sést ekki heldur

Myrkrið fær einnig að ráða ferðinni í hönnun á útliti bókarinnar þar sem svartar þykkar blaðsíður skilja ljóðin að. En eins og gatið, sem nær í gegnum bókina og í gegnum stafinn Ö í titli bókarinnar á bókarkápu, er hér gerð tilraun til þess að takast á við myrkrið eða nánartiltekið öskra á það svo það haldi sig fjarri. Og þar er kominn megintilgangur skrifanna sem endurspeglast í ljóðabroti sem birtist einnig aftan á bókarkápu og þar sem dregin eru fram tengsl á milli líkamlegrar baráttu, í formi ofbeldis eða bardagaíþrótta – fer eftir því hvernig er litið á það - og baráttu ljóðmælandans við einhvers konar sannleika um líf eða fortíð sem hann reynir að færa í frásögn:

sláðu fyrsta höggið
pírðu augun
...
láttu hnefann ríða
á andlit sannleikans

Myrki-Bubbi er áhugaverð viðbót við þá Bubbaflóru sem við, njótendur íslenskrar dægurmenningar, eigum fyrir. Ég efast um að aðdáendur tónlistarmannsins og sagnaskáldsins Bubba verði fyrir vonbrigðum með Öskraðu gat á myrkrið.  Aðdáendur Séð og heyrt-Bubba og aðrir þeir sem njóta að gægjast inn í einkalíf opinberra persóna fá aftur á móti lítið fyrir sinn snúð og er það vel.

Vera Knútsdóttir, október 2015