Nonni og Selma: Fjör í fyrsta bekk

Ár: 
2007
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Táp og fjör og (mis)frískir krakkar ...

Það er athyglisvert að sjá hvernig bókmenntaleg viðmið og gildi virðast hafa ólíkt vægi eftir því hvort um er að ræða barnabók eða fullorðinsbók. Almennt séð er það ekki talið skáldskap fyrir fullorðna til tekna að hann sé of áróðurskenndur, eða beri boðskap sinn um of utan á sér. Hinsvegar virðist þykja mun sjálfsagðara að barnabækur beri með sér gagnsæan farangur umvandana og uppeldislegra sjónarmiða. Vissulega er misvel haldið á slíkum en stundum get ég þó ekki annað en haft samúð með börnum sem þrá bara innihaldslausa skemmtun.

Kannski kemur þetta til af því að þegar ég les bækur eins og Nonni og Selma þá man ég ósköp vel eftir því hvað mér þóttu slíkar bækur lítið spennandi þegar ég var barn. Þá voru það reyndar aðallega hugljúfar sveitasögur sem stóðu til boða og eftir nokkrar slíkar sannfærðist ég endanlega um að sveitalífið væri ekkert fyrir mig.

Það er því tvöföld upplifun að lesa bók Bryndhildar Þórarinsdóttur, Nonni og Selma, því annarsvegar vekur hún upp minningar um leiðindi og hinsvegar get ég vel séð, sem fullorðin manneskja, að hér er margt ágætlega gert. Sagan er skrifuð með styrk frá Cp-félaginu sem óskaði eftir því að skrifuð væri barnabók þarsem hreyfihamlað barn væri í aðalhlutverki. Hinn hreyfihamlaði er Nonni sem er með ‘latalöpp’ og er að byrja í skóla. Hann er spenntur að hitta hina krakkana og einn þeirra, Selma, verður besta vinkona hans og svo segir sagan frá ævintýrum þeirra, innan skólans og utan.

Allt er þetta hugljúft og fallegt án þess þó að verða væmið (þó stundum gangi nærri þegar kennslukonan Anna Fríða er að dáðst að því hvað krakkarnir séu klárir og hvað hún hafi lært mikið af þeim). Uppátæki Nonna og Selmu eru á stundum bráðfyndin og hlutur hreyfihömlunarinnar fléttast átakalaust inn og þannig tekst vel að sýna framá að barn er alltaf bara barn, hvort sem líkami þess fellur að einhverju normi eða ekki. Sjónarhornið er barnanna sem horfa í kringum sig forvitnum augum og skilgreina heiminn út frá sjálfum sér, eins og þegar þau ákveða að verða veik til að geta verið heima og látið dekra við sig og þegar þau uppgötva hvernig stóð á hvarfinu á veski kennslukonunnar. Þar sést vel hvernig barnsaugað skynjar stærð og umfang fólks en í því liggur einmitt lausn gátunnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2008