Morð er morð er morð og Systir mín, raðmorðinginn

morð er morð er morð
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
systir mín, raðmorðinginn
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Rað er morð

Glæpasögur eru ein vinsælasta bókmenntagreinin og jafnan meðal söluhæstu titla í hverju jólabókaflóði. En glæpasaga er ekki bara glæpasaga og ótrúlega fjölbreytilegar bókmenntir rúmast í raun undir þeim gamla hatti. Bókaútgáfan Hringaná gaf nýverið út tvær glæpasögur í íslenskri þýðingu sem eru gríðarlega ólíkar en eiga það þó helst sameiginlegt að vera óvenjulegar og falla utan ramma hinnar hefðbundnu glæpasögu.

Morð er morð er morð eftir Samuel Steward er áhugaverð glæpasaga sem hefur fallið í skuggann af höfundi sínum en líf hans er óneitanlega talsvert reyfarakenndara en glæpasagan sjálf. Steward (sem var fæddur árið 1909) var upphaflega prófessor í ensku og kenndi við ýmsa háskóla í Bandaríkjunum áður en hann sneri gjörsamlega við blaðinu og gerðist klámritahöfundur og tattúlistamaður en um tíma var hann opinber tattú-isti mótorhjólaklúbbsins Vítisengla auk þess sem hann stundaði rannsóknir fyrir kynlífsfræðinginn kunna Alfred Kinsey. Um ævi hans má lesa í bókinni Secret Historian: THe Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade eftir Justin Spring. Í gegnum bókmenntir og fræðimennsku kynntist Steward bandaríska rithöfundinum Gertrude Stein sem var goðsögn í lifenda lífi og varð þeim vel til vina og skrifuðust lengi á. Á millistríðsárunum var Steward tvívegis gestur á sveitasetri Stein og sambýliskonu hennar, Alice B. Toklas í jaðri lítils þorps í Frakklandi en þar dvöldu þær jafnan á sumrin og tóku á móti litríkum og frægum gestum.

Sveitin franska er einmitt sögusvið Morð er morð er morð, en í bókinni eru skáldkonurnar tvær í hlutverk áhugaspæjara sem leysa glæpi. Kyrrlátt sveitalífið er skyndilega í uppnámi þegar faðir daufdumbs garðyrkjumanns Toklas og Stein hverfur sporlaust. Lögreglan virðist ekki hafa getu til að leysa málið, enda finnast í raun engin merki um átök. Sjálfur kemur Steward fyrir í frásögninni sem vinur þeirra, Johnny McAndrews, sem kemur og dvelur hjá parinu og hjálpar þeim að leysa gátuna. Hefðbundin glæpasaga er þetta svo sannarlega ekki, framan af er óvíst hvort glæpur hefur verið framinn og spennan felst aðallega í því hvort Gertrude getur verið nógu fljót á vettvang með sjónaukann þegar Alice sér til grunsamlegra mannaferða niðri á akrinum, eða hvort þær munu þurfa að eiga samskipti við viðkunnanlega eða leiðinlega lögreglumanninn næst þegar þær fara á stöðina.

Morð er morð er morð (nafnið er vísun í skáldskap Stein) kom fyrst út 1985 og hefur ekki átt sérstökum vinsældum að fagna en sennilega hafa aðalsöguhetjurnar tvær þó haldið nafni hennar á lofti. Í áðurnefndri ævisögu Steward eru skáldsagan afgreidd sem léttvægar afþreyingarbókmenntir, en í stað þess að einblína á hvað hún er ekki; hefðbundin, spennandi glæpasaga – liggur beint við að skoða hvað hún þó er; litrík, skemmtileg saga og áhugaverð lýsing á lífi Gertrude Stein og Alice B. Toklas. Aðal uppistaða Morð er morð er morð er samræður – og má vart á milli sjá hvor kvennanna er hnyttnari í tilsvörum, vissulega er ekki gert lítið úr sérvisku þeirra en þær dregnar afskaplega hlýlegum dráttum. Þá er þetta líka hinsegin saga – uppfull af tvíræðum vísunum í samband þeirra og annarra samkynhneigðra persóna. Johnny McAndrews er sjálfur samkynhneigður og rennir hýru auga til garðyrkjumannsins heyrnalausa á sama tíma og hann á í kynlífssambandi við lögreglumann úr héraðinu sem þau kynnast við rannsókn málsins. Samkynhneigð er sjálfsagður hlutur í heiminum sem dreginn er upp í bókinni – svo sjálfsagður að það kemur næstum á óvart þegar einhver reynist ekki samkynhneigður. Þetta er afskaplega hressandi og skemmtilegt sjónarhorn þar sem lesendur eiga því oftar en ekki að venjast að bækur jafnt sem kvikmyndir kynni til sögunnar að enga eða í mesta lagi eina samkynhneigða persónu. Raunar gerir samkynhneigð kvennanna þær að ákveðnu skotmarki í smábænum eins og sést þegar einn lögreglumannanna spyr þær vísvitandi út í hjúskaparstöðu þeirra. En eins og með aðra, frægari spæjara – svo sem Hercule Poirot og Miss Marple – er það svo á endanum staða þeirra Toklas og Stein sem „utangarðs“ sem gerir þeim kleift að leysa glæpinn. Ógiftar, gamlar konur þykja varla marktækar – og í besta falli tortryggilegar. Lögreglumaðurinn sem talar við þær efast um sjón þeirra, andlega og líkamlega heilsu og minni þeirra. En þær eru eftirtektasamari, slyngari og greindari en fólk á von á, og í krafti þess leysa þær málið.

Steward fylgdi Morð er morð er morð eftir með annarri skáldsögu þar sem þær stöllur leysa sakamál með hjálp Johnny McAndrews, The Caravaggio Shawl, þar sem hann heldur uppteknum hætti og lætur glæpinn og spennuna víkja fyrir skemmtilegum persónulýsingum, leiftrandi samræðum og miklum vangaveltum um mat – en Toklas var annálaður kokkur og gaf síðar út fræga matreiðslubók. Hringaná á þakkir skyldar fyrir að koma þessari óvæntu og áhugaverðu bók í hendur íslenskra lesenda – en þó verður að segjast að þýðing Ara Blöndal Eggertssonar  og prófarkalestur hefðu mátt við aðeins meiri yfirlegu. Setningaskipan er á stundum dálítið enskuskotin og innsláttarvillur hafa laumað sér inn í textann – eins og þegar Gertrude Stein er með rjóðar „kynnar“.

Notalegar samræður um mannshvarf yfir tebolla og skonsum í franskri sveit eru víðsfjarri í spennusögunni Systir mín raðmorðinginn. Höfundur bókarinnar er hin nígeríska Oyinkan Braithwaite sem er menntuð í lögfræði og skapandi skrifum en hefur starfað við ritstjórn auk þess sem nokkrar smásögur hennar hafa komið út á prenti. Systir mín raðmorðinn er fyrsta skáldsaga hennar og hefur vægast sagt slegið í gegn en hún var meðal annars tilnefnd til Man Booker verðlaunanna árið 2019. Það er Hringaná sem gefur út sem fyrr og Ari Blöndal Eggertsson sem þýðir og ferst honum það hér prýðilega úr hendi.

Aðalsöguhetjan er nígeríski hjúkrunarfræðingurinn Korede sem býr í stóru húsi með móður sinni og systur eftir að faðir þeirra deyr á voveiflegan hátt. Korede er ábyrgðarfull, dugleg, trú og trygg og elskar á laun lækninn Tade. En þegar systir hennar heimsækir hana óvænt í vinnuna veit hún að nú er voðinn vís. Systirin, Ayoola, er nefnilega tveimur árum yngri og ótrúlega fögur og þokkafull. Allir karlmenn falla að fótum hennar og hafa gert síðan þær voru unglingar. Allir nema kannski faðir þeirra sem ekki gerði upp á milli systranna, hann beitti þær báðar jafn miklu ofbeldi og kúgaði til dauðadags. En vandamálið með Ayoolu er ekki bara hversu fögur hún er og hve auðveldlega hún snýr karlmönnum um fingur sér, heldur að hún drepur þá á endanum og hringir svo í Korede systur sína til að hjálpa sér að „taka til“. Korede er nefnilega ekki aðeins afar hæfur hjúkrunarfræðingur heldur fyrsta flokks hreinsitæknir og veit sem er að þegar kemur að því að ná blóðblettum úr fötum, bílskotti eða af baðherbergisflísum er ekkert betra en klór. Og af klór á hún alltaf nóg. Í upphafi bókar hringir Ayoola í Korede og segist hafa stungið nýjasta kærastann sinn í sjálfsvörn. Þar sem þetta er nú þriðji maðurinn sem sem Ayoola stingur til bana er tortryggni Korede eðlilega vakin. En allar hugmyndir um að stöðva Ayoolu eru erfiðara í framkvæmd, í fyrsta lagi af því henni ber um fram allt að gæta litlu systur sinnar og í öðru lagi af því hún sekkur sjálf sífellt dýpra í fen lyga og blekkinga. Þannig snýst ráðgátan ekki um hver framdi glæpinn, heldur er miklu fremur stúdía í ótrúlegu sambandi systranna sem er í senn hræðilegt og stórkostlegt.

Kaflarnir eru stuttir, hraðinn er mikill og húmorinn kolsvartur en þó glittir í raunverulegan sársauka undir blóðbaðinu. Staða konunnar í nígerískum samtíma er í brennidepli; þegar stúlkurnar eru unglingar heilsa þær ekki mikilsvirtum gesti með handabandi, heldur með því að leggjast á grúfu fyrir framan hann. Höfðingja, sem faðir systranna vill ganga í augun á, líst vel á Ayoolu og augljóslega ætlar faðirinn að gefa honum dótturina til að liðka fyrir viðskiptum. Móðir systranna þarf að þola endalaust ofbeldi og niðurlægingu og hennar lausn er að einblína á yfirborðið og afneita öllu. Það er því pottur brotinn löngu áður en Ayoola byrjar að munda hníf föður síns. Og þó að lesandann ói við skelfilegu athæfi Ayoolu (morðunum en ekki síður hvernig hún kemur fram við Korede) er erfitt að líta fram hjá því hvernig karlmennirnir hegða sér. Þegar Korede spyr einn kærastann hvað hann sjái við systur sína lýsir hann því fjálglega hversu ómótstæðilega fögur og heillandi hún sé, en þekkir hana greinilega alls ekki. Hann sér ekki hvað hún er mikill tækifærissinni, hvernig hún lýgur og hversu fullkomlega sjálfhverf hún er, en hann er alveg jafn blindur á kosti hennar; hæfileika, kímnigáfu og létta lund.

Hinn nígeríski söguheimur setur mark sitt á söguna og lýsingar á hefðum, matargerðarlist og klæðnaði mæðgnanna, en ekki síður samstarfskvenna Korede á spítalanum, mynda litríkan og ilmandi ramma utan um kolsvarta frásögnina. Þó má finna sterk tengsl við hinn sígilda harðsoðna bandaríska reyfara; annað eins glæpakvendi/femme fatale og Ayoola hefur ekki sést lengi á prenti. Siðferðislegar spurningar eru líka í fyrrirúmi og aðalsöguhetjan, sem ætlar sér upphaflega að breyta rétt, dregst lengra og lengra niður í fen glæpa.

Þó það sé svo sannarlega ekki skortur á hræðilegum glæpum og spennu í Systir mín raðmorðinginn, liggur þó slagkraftur bókarinnar eins og áður sagði, í sambandi systranna, rétt eins og það er samband Alice B. Toklas og Gertrude Stein sem heldur fyrri bókinni uppi. Sambandið í Morð er morð er morð er þó öllu heilbrigðara en það snúna og flókna systrasamband sem er hryggjarstykkið í síðari bókinni. Systir mín raðmorðinginn er jafn spennandi og óþægileg lesning og Morð er morð er morð er notaleg og létt – en báðar eru þó afskaplega velkomin viðbót við glæpasagnaflóru landsins.

 

Maríanna Clara Lúthersdóttir mars 2020