Langelstur að eilífu

Langelstur að eilífu
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Bestu vinir í gegnum súrt og sætt

Langelstur að eilífu er þriðja sagan af Eyju og vini hennar Rögnvaldi, eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Bókin hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2019 en fyrri bækurnar tvær, Langelstur í bekknum (2017) og Langelstur í leynifélaginu (2018), voru báðar tilnefndar til Fjöruverðlaunanna þegar þær komu út. Bækurnar eru ætlaðar lesendum á yngsta stigi í grunnskóla.

Í fyrstu bókinni, Langelstur í bekknum, kynntust lesendur Eyju, sem var þá að hefja skólagöngu sína og var auk þess nýflutt. Hún var svolítið utanveltu og óörugg í fyrstu en það breyttist fljótt eftir að hún kynntist sessunaut sínum í skólastofunni, hinum 96 ára gamla Rögnvaldi, sem var sestur á skólabekk í fyrsta sinn rétt eins og hún sjálf. Þrátt fyrir að vera afskaplega ólík, eða kannski einmitt vegna þess, smullu Eyja og Rögnvaldur saman og urðu perluvinir. Fyrsta bókin sagði þannig frá fyrsta árinu þeirra í skólanum, en Rögnvaldur ákvað þá að klára loksins fyrsta bekk og læra að lesa með aðstoð vinkonu sinnar. Í Langelstur í leynifélaginu var sagt frá ævintýrum þeirra í sumarfríinu þegar Eyja fékk að vera með Rögnvaldi á meðan foreldrar hennar þurftu að vinna.

Í upphafi þessarar þriðju bókar er skólinn að hefjast að nýju og nú eru þau vinirnir að byrja í öðrum bekk. Það er hins vegar ekki allt eins og það á að vera því Rögnvaldur er veikur. Þegar dagarnir fara að líða án þess að Rögnvaldur mæti að nokkru ráði í skólann verður smám saman ljóst að aldurinn er farinn að segja til sín og hann á líklega ekki langt eftir ólifað. Eyja á erfitt með að sætta sig við tilhugsunina og ákveður að nú sé kominn tími til að Rögnvaldur geri loksins allt sem hann hefur dreymt um en aldrei haft tækifæri til. Hún býr til lista með spennandi verkefnum fyrir hann og þau hefjast handa við að vinna í hverju atriðinu á fætur öðru. Á listanum er alls konar fjör: karókí, trampolín og fallhlífarstökk svo fátt eitt sé nefnt.

Veikindi Rögnvaldar eru ekki eina óvænta verkefnið sem Eyja þarf að takast á við þennan veturinn. Foreldrar hennar færa henni nefnilega þær fréttir að hún eigi von á systkini fljótlega og Eyja sem hefur alltaf verið ein með foreldrum sínum veit ekki hvernig hún á að bregðast við þessum ófyrirséðu breytingum á högum fjölskyldunnar. Rögnvaldur veit þó sínu viti og þegar Eyja leggur fram verkefnalistann hans kemur hann henni á óvart og gerir lista fyrir hana líka. Á honum er þó aðeins eitt atriði, að vera góð stóra systir. Rögnvaldur hefst svo handa við að sýna Eyju fram á að það sé kannski ekkert svo slæmt að eignast systkini og gerir það á einstaklega ljúfmannlegan hátt og með svolitlu glensi. Þau félagarnir geta nefnilega lært ýmislegt hvort af öðru, og þó að Rögnvaldur eigi margt eftir óreynt í þessu lífi veit hann og skilur margt. Þar sem Rögnvaldur og Eyja ná svo vel saman er líka eins og ráð hans og hugmyndir vekji Eyju sérstaklega til umhugsunar. Hann skilur hana svo vel, kannski af því hann er sjálfur á margan hátt svolítill krakki í sér. Mörg þeirra atriða á listanum sem Eyja leggur fyrir hann eru einmitt ekki beint hlutir sem maður sér fólk á hans aldri fyrir sér að framkvæma, en persóna Rögnvaldar er einhvernveginn þannig að það verður fullkomlega eðlilegt og nokkuð trúverðugt.

Langelstur að eilífu er eins og fyrri bækurnar afskaplega falleg saga af vináttu og hugrekki, því Eyja þarf svo sannarlega að vera hugrökk og takast á við mikil umskipti og erfiðar tilfinningar.  Hún upplifir sorg og óöryggi í tengslum við veikindi Rögnvaldar en líka í sambandi við þær breytingar sem eru að verða á fjölskyldu hennar, hlutverki hennar í fjölskyldunni og sambandinu við mömmu og pabba. Þessu eru öllu lýst á afar einlægan hátt og listinn sem þau vinirnir vinna sig í gegnum býður upp á skemmtilegar aðstæður og uppátæki, og gefur þeim auk þess margar gæðastundir saman og góðar minningar. Listinn verður líka eins konar trygging fyrir Eyju, á meðan hann er ennþá ókláraður getur Rögnvaldur ekki dáið. Eyja fær þannig tækifæri til að venjast tilhugsuninni um það sem framundan er, þó að það verði auðvitað samt ekkert auðvelt að takast á við.

Bókin er rétt undir 100 síðunum, með stærra letri og afar aðgengileg ungum lesanda. Sagan er full af húmor og skemmtilegum atvikum á sama tíma og tekið er á sorglegum atburðum og erfiðum tilfinningum á nærgætinn hátt. Myndirnar eru eftir höfundinn sjálfan og gæða persónur lífi auk þess sem þær bæta helling við textann og skapa létt andrúmsloft sem vegur upp á móti þeim erfiðu hlutum sem verið er að fjalla um. Rögnvaldur og foreldrar Eyju hjálpa henni hvert á sinn hátt í gegnum þetta tímabil og Eyja stendur uppi reynslunni ríkari.


María Bjarkadóttir mars 2020