Katrínarsaga

Ár: 
2018
Flokkur: 
Staður: 
Selfoss
Höfundur umfjöllunar: 

Uppgjör við hippaárin

Katrínarsaga segir frá Katrínu og félögum hennar, íslenskum hippum, sem klæðast slitnum Vír-úlpum með hekluðum bótum. Þau eru sögð „börn bjöllunnar“ og líkt við villuráfandi sauði sem hópast saman og vilja skapa nýjan heim á grundvalli ástar. Þegar sagan hefst hafa þau nýlega stofnað kommúnu og sitja í hring á gólfinu, hlusta á tónlist og láta pípuna ganga. Lesendur fylgja Katrínu vestur í land, út til Kaupmannahafnar og heim aftur. Þegar líður á söguna spyr Katrín sig: „Hvað fólst aftur í þessari uppreisn?“ (bls. 77). Markmiðið hafði verið að berjast gegn hatri, hætta að skemma jörðina og hjálpast meira að en uppreisnin þróaðist út í misnotkun vímuefna og frjálsar ástir. Og með tímanum viku hugmyndir um samfélag fyrir hugmyndum um einstaklinginn, neytandann.

Fyrirferðamikill alvitur sögumaður segir frá. Hann hefur frásögnina á ljóðrænum ævintýralegum lýsingum á Íslandi og afmarkar síðan sjónarhornið við unglinga eyjarinnar. Hlutverk sögumannsins er að upplýsa og koma með heimspekilegar vangaveltur. Hann leggur mat sitt á hitt og þetta (og er stundum með viðbótar-athugasemdir innan sviga), kemur með fullyrðingar og ávarpar annars vegar lesandann og hins vegar Katrínu. Milli þess sem sögumaðurinn segir frá eru atburðir úr lífi Katrínar sviðsettir í sögulegri nútíð, í anda Íslendingasagnanna. Vísanir í þann sagnaarf eru í raun margar. Fyrst ber að nefna titil bókarinnar Katrínarsaga. Þá er Katrín sögð „drengur góður“ í formálanum. Líkt og í Íslendingasögum koma margar persónur við sögu, hátt í þrjátíu talsins. Þær eru svo margar að gott hefði verið að teikna upp tengsl þeirra, líkt og við lestur Íslendingasagna. Ringulreiðin kann þó að vera stílbragð og leið höfundar til að sýna kommúnulífið, þar sem fólk kom og fór, samanber: „Er hann nú úr sögu um hríð“ (bls. 44).

Áhugavert er hvernig tungumálið er notað í Katrínarsögu. Málið er yfir heildina litið mjög formlegt en inn á milli leynast óformleg orð sem stinga í stúf. Stílnum má ef til vill lýsa með orðum sögumannsins um tónlist Megasar: „Hvílík himnasending og það á djúp-íslensku, lengst inni í þjóðsögu, með brakandi nútíma í bland, slangri og nýsmíði“ (bls. 60). Textinn er hlaðinn erfiðum ritmálsorðum eins og: „eigind“, „gauð“, „aðdróttun“, „ættleri“ og „krit“. Þar leynast einnig orð sem gætu verið nýyrði höfundar, samanber „upplýsingarnar skýjuðust“, „flatspeki“ og „gjaldþrotagleði“. Þetta er síðan skreytt með óformlegum orðum, samanber „massívur áróður“, „költ“, „feik“ „að sjanghæja“ og „meikar sens“; og nýyrðum eins og „eltihrellir“. Nokkuð er um setningar sem minna á örljóð. Þá þarf að kryfja textann til að átta sig á merkingu hans en slíkt getur verið erfitt þegar lesinn er samfelldur texti. Þetta var sérstaklega áberandi í formálanum. Þar var auk þess vaðið svolítið úr einu í annað.

Katrínarsaga er saga um hugsjónir og uppreisn. Katrín er í leit að sjálfri sér í heimi þar sem heildin er æðri einstaklingnum. Hún reynir að finna lífi sínu tilgang, hættir að stunda kynlíf fyrir kurteisissakir og lærir að setja öðrum mörk. Sagan er uppgjör við hippaárin. Höfundur virðist leitast við að svara spurningunum: Hverju kom þessi „róttæka óreiða“ til leiðar? Hverju skilaði baráttan? Var þetta allt þess virði? Sagan krefst þess að lesendur hafi einhverja innsýn inn í hippaárin. Þar sem ég hef hvorki upplifað þessi ár, verandi á þrítugsaldri, né öðlast neina þekkingu á tímabilinu tel ég mig varla vera í markhópi lesenda þessarar bókar. Sagan höfðaði ekki til mín nema að takmörkuðu leyti. Fólk af 68-kynslóðinni kann aftur á móti að hafa gaman af því að leggja af stað í þetta ferðalag með sögumanni – aftur í tíma þar sem bjölluhljómur kallar saman sauði sína, eins og segir á bókarkápu.

 

Karítas Hrundar Pálsdóttir, 2018