Kærastinn er rjóður

kærastinn er rjóður
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur

Kærastinn er rjóður er nýjasta skáldverk rithöfundarins Kristínar Eiríksdóttur og það næsta í röðinni á eftir skáldsögunni Elín, ýmislegt sem kom út árið 2017. Skáldsagan hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin, var síðar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og birtist nýverið á lista vestanhafs yfir bestu þýddu skáldverkin á árinu. Höfundurinn er því á mikilli siglingu þessa dagana og nýtur verðskuldaðrar velgengni. Fyrri verk hennar sýna að hún stendur vel undir lofinu og lesendur njóta góðs af því að verk hennar berist sem víðast. Áður hefur Kristín sent frá sér skáldsöguna Hvítfeld – fjölskyldusaga og smásagnasafnið Doris Deyr, og eftir hana liggja alls fjórar ljóðabækur, fimm með þeirri nýjustu. Þá hefur hún einnig fengist við leikritagerð en Karma fyrir fugla var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2013 og Hystory í sama leikhúsi árið 2015.

Bókakápa nýjustu ljóðabókarinnar og myndin sem blasir við framan á grípa auga lesanda. Þar má sjá stækkaða passamynd af ungum manni með rjóðar kinnar sem starir í myndavélina með bjartsýnisbros. Myndin gefur til kynna að hér sé á ferð rjóði kærastinn, sem titillinn vísar í, um leið og hún slær grátbroslegan tóninn sem einkennir ljóð bókarinnar. Hér glittir í háð og grín, en einnig dapurleika og harm. Titillinn og kápan benda til þess að bókin, sem lesandi tekur sér í hönd, fjalli um ástarsamband, samband ljóðmælanda við kærasta, og sjálf hefur skáldið undirstrikað að orðið „rjóður“ búi yfir tvöfaldri merkingu, þ.e. roði í kinnum en einnig „grasblettur í kjarri“ samkvæmt orðabók, þangað sem gott getur verið að hverfa og fela sig, að minnsta kosti um stundarsakir. Hugmyndin um kærastann sem rjóður eða skjól birtist til dæmis nokkuð skýrt í eftirfarandi broti úr ljóðinu „Hæ fyrrverandi“:

eins og þessu með sambandið sem ég var í

og hvernig það var dálítið eins og að vera svipt sjálfræði

og hvernig það voru í raun bestu ár lífs míns

þegar ég þurfti ekki að hugsa um hvaða fötum ég

klæddist næringu peninga framtíðarplön

Bókin skiptist í sex ólík ljóð sem tengjast innbyrðis og fjalla öll um ástarsamband. Fyrsta ljóðið segir frá stefnumótum eða tilhugalífi ljóðmælanda með, að því virðist, ólíkum mönnum sem fá nöfnin kærasti nr. 1, kærasti nr. 2, og svo framvegis. Þessir kærastar virðast þó renna saman, vera flestir jafn breyskir og óþolandi, svo úr verður eitt allsherjar sambandsferli sem greinist í upphaf, sem einkennist af sakleysi og björtum vonum, sambandið sjálft, þar sem erfiðleikar og afhjúpanir gera vart við sig, og loks sambandslitin, tímann þegar sambandinu er lokið með tilheyrandi vonbrigðum og eftirsjá. Í ljóðinu „kæri bréfaritari 1“ virðist kærastan svara bréfum kærastans þegar það er við það að slitna upp úr, en í ljóðinu „7 stefnumót með 7 útgáfum af honum“ lítur ljóðmælandi til baka og lýsir því hvernig kærastinn hafði að geyma ólíka menn á ólíkum tímabilum, eða öllu heldur hvernig mynd hans breyttist þegar hún kynntist honum betur – þegar nýjabrumið fór af sambandinu og raunveruleikinn tók við: „ég vil hann sem kom á stefnumót nr. 4 / Hann skynjaði mig og ruglaðist aldrei“. Ástarsambandið virðist því byggjast á einhvers konar óskhyggju, þar sem parið virðist sækjast eftir því að elska fyrirframgefna hugmynd um elskhuga í stað þess að mæta hvort öðru á raunverulegum forsendum. „Hæ fyrrverandi“ lýsir hugrenningum ljóðmælanda sem hugsar til elskhugans fyrrverandi. Hún veltir fyrir sér hvort hann hugsi einnig til hennar og rifjar upp hversdagslegan pirring sem fylgdi ástarsambandinu, hver stíflaði niðurfallið, tal um fyrrverandi kærustur, og þar fram eftir götunum. Í „Kæri bréfritari 2“ biðst ljóðmælandi hálfpartinn afsökunar á að hafa látið ýmislegt misfallegt falla í lok sambandsins, til dæmis um móður kærastans, og það er ljóst að gremja fylgir sambandslokunum, ef ekki biturð, jafnvel ofbeldi:

og ég skil að ég kem þér ekki lengur við

að í grunninn er ég sama tussan og við allar

en mig langar samt að segja þér

að þú mátt koma

og sparka niður hurðina

rífa af alla snaga myndir hillur

[...]

Síðasta ljóð bókarinnar, sem ber titilinn „Umfang“, er knappara en fyrri ljóðin og lýsir hversdagslegu umhverfi ljóðmælanda: „gömlu vatni í glasi / klístruðu ryki á svörtu plasti / hillusamstæðu með engu / leikföngum á víð og dreif“. Hér virðist sambandinu vera lokið og ljóðmælandi standa ein eftir í kaldranalegum hvunndeginum.

Lýsingarnar á kærastanum og hvernig hann hegðar sér gagnvart kærustunni, konunni, veltir upp þeirri hugmynd hvort að ljóðabókin sé stúdía í karlmennsku eða kynhlutverkum. Hér má greina ákveðna erkitýpu-hegðun hjá kærastanum sem lýsir sér í því hvernig hann leikur hetju sem bjargar kærustunni frá uppdiktuðum hættum eins og flössurum og gluggagægjum. Það sama á við um yfirlýsinguna „allir leita ásta / á kunnuglegum slóðum“ („Kæri bréfritari 1“), þ.e. í freudískum skilningi leita allir karlmenn að kærustu og ástkonu sem líkist móður þeirra. Og þegar betur er að gáð er svosum ekkert skrítið við það – hugmyndin um konuna sem táknmynd kemur frá móðurinni, hún er fyrsta konan sem karlmaðurinn kynnist, rétt eins og faðirinn er fyrsti karlmaðurinn sem hann kynnist. Hér er því beint sjónum að konunni og karlmanninum sem táknum, og að kynhlutverkunum, hvað í þeim felst og hvernig þau eru performeruð. Ljóðabókin dregur fram hvernig hlutverkaleikur kynjanna magnast upp í ástarsambandi karls og konu, hvernig karlmaðurinn telur nauðsynlegt að setja sig í ákveðnar stellingar, leika hetju og skapa öryggi til þess að sambandið verði farsælt. Það sama á við um konuna sem gengst inn í kvenhlutverkið með dálítið ýktum hætti, nýtur þess að dvelja í rjóðrinu um stund, en fær svo ef til vill nóg.

Þetta leikrit kynjanna, sem sambandið virðist sitja fast í, skapar, þegar upp er staðið, ákveðið sambandsleysi, innilokunarkennd og leiðir að lokum til endaloka þess. Kærastinn er rjóður er því ekki óður til ástarinnar, enda á bókmenntahefðin nóg til af þannig ljóðum, heldur lýsir þeim hindrunum sem verða á vegi hinna ástföngnu, hvernig þau þurfa að brjótast út úr kynjaleikritinu til þess að sambandið geti þróast, orðið þrautseigt og teygt sig yfir mörg ár. Ljóðabók Kristínar virðist ef til vill einföld og aðgengileg í fyrstu, en hér er gerð krafa til lesanda, að hann staldri við og rýni í hið óskrifaða. Og með þeim hætti sver ljóðabókin sig í ætt við fyrri verk höfundar sem eru margrbotin og marglaga svo hægt er að lesa þau aftur og aftur en koma í hvert skipti auga á eitthvað nýtt.

 

Vera Knútsdóttir, nóvember 2019