Hunangsveiði

hunangsveiði
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Draumkennt ferðalag

Það væri hægt að lýsa Hunangsveiði sem ljóðabók þótt hún telji raunar tæpar 200 síður – en draumkenndur heimurinn sem birtist í henni er að mörgu leyti tengdari ljóðinu en hefðbundinni skáldsögu. Þó er vissulega söguþráður í verkinu, sem og atburðarás, en engu að síður er textinn svo nátengdur ljóðinu að oft staðnæmist lesandinn til að endurlesa setningar, reyna skilja betur myndir sem höfundurinn dregur upp, rétt eins og við lestur ljóða. Hunangsveiði er önnur skáldsaga Soffíu Bjarnadóttur sem áður hefur gefið út skáldsöguna Segulskekkju árið 2014 og ljóðabækurnar Beinhvít skurn og Ég er hér árin 2015 og 2017.

Hér segir frá ungri konu, Silvu Saudade, sem er í einhvers konar ógöngum í lífi sínu. Hún er heltekin af sögu ömmu sinnar og nöfnu sem endaði líf sitt hangandi í tré – og sem tré – í Portúgal árið 1939. Í leit að sinni að lausn hefur hún gengið til tengslafræðingsins Tómasar O. sem beitir óhefðbundnum aðferðum til að hjálpa skjólstæðingum sínum. Silva upplifir svik í sambandinu við sambýlismann sinn Valgarð og endar með því að fara frá honum um leið og hún heldur í ævintýralegt ferðalag ásamt Tómasi og öðrum sjúklingi hans, Rónald. Tómas hefur tekið eftir því að þótt draumar þessara tveggja skjólstæðinga sinna séu ekki efnislega líkir, er áferðin sú sama og þau eru bæði með sterkar tengingar við Portúgal. Því er ferðinni heitið þangað, þar þurfa þau öll þrjú að horfast í augu við sjálfið og það getur verið sársaukafull aðgerð eins og Tómas varar þau við.

Í fyrri skáldsögu höfundar, Segulskekkju, snýr aðalsöguhetjan heim til Íslands til að fylgja móður sinni til grafar og saga móðurinnar flæðir inn í sögu konunnar. Hér speglast þessi þráður þótt sögurnar séu annars ólíkar því Silva fer frá Íslandi til Portúgal til að finna ömmu sína, eða sögu hennar. Í báðum tilvikum heyrist þessi ómur úr lífi látinnar formóður (eða móður) sem bergmálar í lífi afkomandans. Meinin sem hrjá Silvu eru bæði líkamleg og andleg en segja má að skilin þar á milli séu ekki mjög skýr enda hefur aðskilnaður þessi kannski ekki reynst sem skyldi í vestrænu heilbrigðiskerfi. Silva sér ýmsa hluti í huga sér sem og í kringum sig en vegna rispu sem hún er með sjónhimnunni treystir hún ekki alltaf sjóninni. Þessi rispa veldur sömuleiðis sársauka og höfuðverkjum og er þeirrar náttúru að hún hreyfist. Þegar Silva lítur í spegil sér hún ítrekað „vængjað skordýr í vinstra auga draga blauta þunga vængi á eftir sér“ (5).

Frásögnin er draumkennd og skilin milli þess sem við köllum raunveruleika og innri hugarheims Silvu óljós. Þetta er töfraheimur, heimur ljóðsins, þar sem myndirnar spretta upp af textanum og ryðja sér leið inn í söguna sem fellur stundum í skuggann af krafti myndanna. „Hún titraði eins og hrædd antilópa sem hefur verið ráðist á og skilin eftir í blóði sínu“ (103). Stundum er eins og raunveruleikinn umbreytist í myndlíkinguna: „Rónald tók sólgleraugun af henni þegar hún var sofnuð og sá glitrandi silfurþráð, eins konar tár loða við annan augnkrókinn“ (104). Þessi hlaðni og óræði stíll er ekki allra en þeir lesendur sem kunna slíkt að meta hafa svo sannarlega ratað á réttan stað:

Það er undarleg þörf okkar að breytast í slóða annarra. Að rekja líf okkar aftur á bak. Við höfum þörf fyrir sögur sem segja okkur, staðfesta veru okkar og skrásetja dýrmætt hunang veraldar. Afhjúpa á svipstundu söknuð eftir okkur sjálfum. Þrá eftir því að lífið sigri dauðann. Þrá eftir því að vængjaður hestur spretti frjáls sem harmkviða, eins og hesturinn Pegasus sem flýgur úr blóði Medúsu þegar hún er veginn úr hljóðlátri orrustu. (195-6)

Í upphafi þráir Silva sannarlega að lífið muni sigra dauðann en eftir því sem á söguna líður og sorgin verður skýrari fara að renna á hana tvær grímur.

Textinn er afskaplega líkamlegur og andstæður takast á; hiti og kuldi eru ráðandi þar sem kuldinn er almennt tengdur Íslandi en hitinn Portúgal. Sveittir, heitir líkamar, sár og blóð, áferð hlutanna svo sem harðar, kaldar flísar, mjúkir sófar og brennandi, valdsmannleg sól fylla textann krafti og lífi. Dauðinn er endurtekið stef í draumum allra sögupersónanna, og draumar þeirra flæða saman við veruleikann. Dauðinn er einnig nátengdur kynlífi og öll blíða sömuleiðis tengd hörku. Saga ömmunnar fléttast inn í frásögnina, bæði í gegnum drauma og andvökur Silvu en einnig eru nokkrir kaflar sagðir frá sjónarhóli hinnar ungu konu sem í raun varð aldrei amma: „Ég er löngu látin amma sem aldrei varð amma, 27 ára gömul, yngri en barnabarn mitt“ (195). Mitt í allri umræðunni um sorgir og áföll sem ferðast eftir genamenginu niður til næstu kynslóða hittum við hér fyrir unga stúlku sem ber allar sorgir þessarar formóður sinnar sem hún hefur aldrei hitt. Eins og amma hennar 77 árum fyrr, er Silva löskuð, blíðan sem hún ætlaði að taka á móti í lífi sínu reyndist harkaleg og grimm og sorgin sem bar ömmuna að lokum yfirliði á það á hættu að yfirbuga barnabarnið. Öll frásögnin virðist föst í limbói milli lífs og dauða, draums og vöku og rétt eins og amman fær ekki að hvíla í friði í dauðanum, nær Silva ekki að lifa. Þessi staðsetning á mótum tveggja póla (ef hægt er að tala um líf og dauða sem raunverulegar andstæður) er hvortveggja í senn, helsti kostur og stærsti galli skáldsögunnar sem verður eins og áferðarfalleg martröð sem krækir klónum í lesandann og heldur honum, eftir atvikum, föngnum.

Þetta er saga um sorgina, þrána og söknuðinn enda er nafn Silvu Saudade engin tilviljun og í upphafi bókarinnar er merking portúgalska orðsins saudade skýrð sem hugtak yfir „tilfinningu eða ástand: fortíðarþrá, löngun, djúpur söknuður, missir, heimþrá.“ Þessi hugtök eru svo eins og rauður þráður í gegnum frásögnina sem endurspeglar djúpa angurværð yfir lífinu þar sem öll fegurð heimsins verður hluti af sorginni.

 

Maríanna Clara Lúthersdóttir, desember 2019