Hrafninn

Ár: 
2005
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

„Krummi krunkar úti“

Tengsl og samskipti Íslendinga og Grænlendinga eða Inúíta hafa löngum verið umdeild og á stundum einhversskonar vandræðamál. Að mörgu leyti ætti skyldleikinn að vera nokkur, þó ekki væri nema vegna þess að þetta eru hvorttveggja undarlegar smáþjóðir sem lifa á norðurhjara og búa við vetur í það minnsta níu mánuði ársins, enda halda margir að Ísland hafi upphaflega verið byggt Inúítum. Eða héldu allavega, nú þegar Ísland er orðið bragð mánaðarins meðal vesturlandabúa er ekki gott að vita hvort einhver fróðleikur læðist með. Ekki svo að skilja að sú tilhugsun að hér hafi búið Inúítar sem síðar blönduðust Íslendingum sé á nokkurn hátt athugaverð, þó vissulega sé allt í lagi að hafa helstu söguleg atriði á hreinu verður líka að huga að því hvernig þeim er komið á framfæri. Mér er enn í fersku minni túristabæklingurinn sem lýsti fjálglega björtu landi og hreinu, og bætti við í næstu setningu að hér hefðu aldrei búið eskimóar. Grænland er auðvitað hluti af okkar sagnararfi og sögu, en síðan í fornsögunum hefur ekki mikið verið fjallað um Grænland í íslenskum bókmenntum. Ég man óljóst eftir leikriti sem hét Nanúk, og svo kemur Grænland við sögu í skáldsögu Jónasar Kristjánssonar, Veröld víð, sem segir frá ferðum Guðríðar Þorbjarnardóttur. Hin bráðfallega barnamynd Ikingut (2000) gladdi mig mikið á sínum tíma, en þar er einmitt sagt frá litlum Inúíta strák sem óvart skolar upp á íslenska strönd og veldur heilmiklum usla í örsmáu byggðarlagi, er meðal annars ásakaður um að vera galdrakind.

Það er reyndar ýmislegt líkt með Ikingut og Hrafninum, nýjustu skáldsögu Vilborgar Davíðsdóttur. Í báðum verkum er fjallað um fordóma og fordæmingar, en jafnframt um vináttu, ást og tryggð. Vilborg hefur sérhæft sig í sögulegum skáldsögum eða reyfurum, frá víkingatímanum og miðöldum. Sagan hefst á minningu ungrar stúlku, Naaju, um stjörnubjarta nótt á ferð með föður sínum á sleða. En fljótlega kemur í ljós að samband þeirra feðginanna er ekki alltaf svona fallegt, auk þess sem hann og stúlkan eru hálfgerðir útlagar í sínu samfélagi. Naaja hefur erft blá augu móður sinnar, en amman var eitt sinn lánuð undarlegum fölum draugum, það er, norrænum mönnum. Því hefur fjölskyldan alltaf verið hálf-utanveltu í samfélaginu. Eftir dauða móðurinnar fer faðirinn á brott með Naaju og þau flytja inn í lítinn afskekktan kofa sem gefið er til kynna að sé yfirgefinn norrænn bær. Eitt kvöldið kemur faðirinn ekki heim af veiðum, hann hefur verið bitinn af rostungi. Naaja kemur honum og rostungnum heim. Þegar hún hlutar dýrið í sundur kemur hrafn hoppandi og hún hendir til hans auga. Uppfrá því verður hrafninn verndarandi hennar og einnig kemur í ljós að hún býr yfir hæfileikum angakoq, sjamans eða galdramanns. Eftir að hafa verið hafnað af ættbálki sýnum á ný, þegar hún snýr aftur, saurguð af nauðgun föður síns, hittir Naaja einn af fölu draugunum og bjargar honum frá ísbirni. Með þeim takast ástir og hann fer með hana heim í sitt norræna þorp og þar er hún að sjálfsögðu sökuð um að vera galdrakind.

Hér eru mörg kunnugleg minni úr verkum Vilborgar. Að vanda er það kvenhetja sem er í aðalhlutverki, kona sem er af einhverjum ástæðum gerð útlæg úr sínu samfélagi eða stendur á mörkum þess á einhvern hátt. Í fyrstu bókum hennar er það Korka, dóttir ambáttar og húsbónda, göldrótt að auki, í Eldfórn er það óvenjulegt sjálfstæði konunnar auk galdurs sem gerir hana útlæga, og í Galdri er aðalsöguhetjunni Ragnfríði getið barn á unga aldri. Reyndar er Hrafninn einskonar framhald þeirrar sögu, því það er einmitt þetta barn Ragnfríðar, sonurinn Mikjáll, sem Naaja bjargar og verður ástfangin af, en móðir hans hefur greinilega flutt til Grænlands í kjölfar atburða Galdurs. Naaja er bæði sterk og sjálfstæð og lætur illa að semja sig að hefðbundnu kvenhlutverki og fyrir það er henni ítrekað refsað, bæði meðal eigin fólks og Íslendinganna. Að auki býr hún yfir mætti sjamansins sem gerir hana enn sjálfstæðari og sterkari. Í þriðja lagi er hún framandi í báðum samfélögum, bláu augun gera hana hættulega meðal hennar eigin fólks, og kynþáttur hennar er fordæmdur meðal Íslendinganna.

Annað stef er galdurinn sem löngum hefur glætt sögur Vilborgar dulúð og krafti. Hér fannst mér henni ekki takast eins vel upp, og á stundum er eins og of mikið púður fari í að lýsa háttum Inúítana á kostnað sögunnar. Þannig verður saga Naaju stundum eins og einskonar leiðarvísir um yfirnáttúruleg öfl og þjóðhætti. Þetta veikir söguna óþarflega og dregur úr krafti hennar, því þótt átök Inúítanna við náttúruna og náttúruöflin séu vissulega áhugaverð, þá virkar þetta of mikið eins og lýsing, og vantar meira bit. En þegar á líður styrkist sagan og seinni hlutinn, þegar Naaja er komin til Íslendinganna er flottur, sérstaklega er sterkt hversu vel Vilborg nær að miðla sýn ungu Inúítakonunnar á undarlega hætti Íslendinganna, meðal annars guð þeirra sem henni líst þunglega á, enda býr hann í svo stóru húsi!

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005.