Hinn grunaði hr. X

Höfundur: 
Ár: 
2018
Flokkur: 
Höfundur umfjöllunar: 

Skák snillinganna

Yasuko teygði fram höndina án þess að segja orð. Misato horfði skelkuð á hana en lagði síðan símann í útrétta höndina. Yasuko dró andann djúpt og bar símann að eyranu.
“Já, halló. Þetta er hjá Hanaoka.”
“Hmmm, þetta er nágranni þinn, Ishigami.”
“Ó…” Er þetta hann aftur, stærðfræðikennarinn? Hvað ætli hann vilji núna? hugsaði hún og bætti við: “Hvað get ég gert fyrir þig?”
“Ö, ég var bara að velta fyrir mér hvað þú hefðir hugsað þér að gera?”
Hún skildi ekki alveg spurninguna.
“Gera? Í sambandi við hvað?” [...]
“Frú Hanaoka,” byrjaði Ishigami. “Það er ómögulegt fyrir tvær konur að losa sig aleinar við lík.” (bls. 38-39)

 

Hinn grunaði Hr. X er fyrsta skáldsagan eftir japanska rithöfundinn Keigo Higashino sem þýdd hefur verið á íslensku. Higashino er vinsæll höfundur sem hefur skrifað tugi bóka og smásagna á ferlinum. Hann er best þekktur fyrir ráðgátu- og spennusögur sínar. Hinn grunaði Hr. X er glæpasaga sem kom upphaflega út árið 2005 og hefur notið mikillar hylli á Vesturlöndum eftir að ensk þýðing kom út árið 2011. Bókin hefst á því að fyrrverandi eiginmaður Yasuko Hanaoka ryðst enn og aftur inn í líf hennar. Hann áreitir hana og dóttur hennar, Misato, sem endar í átökum en mæðgurnar ná að verjast og enda með að drepa hann í sameiningu. Að lokum rennur upp fyrir Yasuko að þrátt fyrir að þeim sé borgið er í raun öllu lokið -- hún mun fara í fangelsi. Öll von er úti, þangað til að sérlundaður nágranni þeirra blandar sér í málið.

Stærðfræðikennarinn Ishigami verður vitni að átökunum og býður strax fram hjálp sína þrátt fyrir að tengjast mæðgunum ekki neitt. Hollusta Ishigmai er ótrúleg þar sem hann fórnar sakleysi sínu fyrir mæðgurnar og tekur að sér að losa þær við líkið og sjá um að hylma yfir  glæpinn. Hann gerir allt sem í sínu valdi stendur til að forða Yasuko og dóttur hennar frá fangelsisvist og hrindir af stað flókinni ráðagerð. Grunur fellur þó fljótt á mæðgurnar og rannsóknarlögreglumaðurinn Kusanagi fylgir þeim hvert fótmál. Helsta ógnin við ráðagerð Ishigami reynist hins vegar ekki vera lögreglan, heldur eðlisfræðingurinn og háskólaprófessorinn Yukawa. Kusanagi og Yukawa eru gamlir félagar og lögreglumaðurinn á það til að bera sérlega erfið mál undir vin sinn. Fyrir tilviljun kemst Yukawa að því að nágranni hins grunaða í rannsókn Kusanagi er gamli skólabróðir hans, Ishigami. Hvorki Kusanagi né Yukawa hafa nokkra ástæðu í upphafi til að gruna að Ishigami hafi verið viðriðinn mál nágrannakonunnar og Yukawa endurnýjar því kynnin við hinn bráðgáfaða Ishigami. Smám saman renna á Yukawa tvær grímur eftir því sem rannsókn Kusanagi miðar áfram og hann finnur sig knúinn til að komast til botns í málinu. Ishigami þarf að hafa sig allan við að vernda mæðgurnar Yasuko og Misato með snilligáfu sinni á meðan Kusanagi nýtur aðstoðar prófessorsins Yukawa og hans snilligáfu til að komast til botns í málinu.

Verkið er því óvenjuleg glæpasaga þar sem rannsóknin og yfirhylmingin verður ein stór skák milli snillinganna tveggja, Ishigami og Yukawa, meðan gerandinn og rannsóknarlögreglumaðurinn hafa lítið um framvindu mála að segja. Bók Higashino er líka nýstárleg að því leytinu til að lesandinn telur sig vita alla málavexti frá upphafi og ég átti í fyrstu bágt með að skilja hver „ráðgáta“ verksins ætti að vera. Samt hélt bókin athygli minni allt frá upphafi því textinn gaf örlitlar vísbendingar um að eitthvað dýpra byggi að baki sem  kom betur í ljós eftir því sem þéttur blekkingarvefur Ishigami raknaði upp. Persónusköpun í verkinu er ekki upp á marga fiska en þétt og jarðbundin frásögn ásamt fjölda flétta bætir upp fyrir það. Þrátt fyrir að ég lýsi verkinu sem skák milli Ishigami og Yukawa upplifði ég mikla samkennd með Yasuko og dóttur hennar. Þær ganga í gegnum hrikalega lífsreynslu í upphafi verksins og eru í raun meiri fórnarlömb en gerendur. Mæðgurnar leggja líf sitt að veði til að verjast ofbeldisfullum eiginmanni og stjúpföður -- tilfinningaþrunginn atburður sem hægt væri að kryfja til mergjar -- en úrvinnslan verkaði furðulega fjarræn á mig. Mæðgurnar voru fyrir mér þungamiðja frásagnarinnar en þrátt fyrir þrekraunir þeirra er heildarbragur Hins grunaða Hr. X „létt glæpasaga“ þar sem áherslan er á úrlausn ráðgátu frekar en alvarleika atburða. Þetta útskýrist af því að bókin er í raun þriðja sagan í Galileo-sagnabálki Higashino þar sem hann segir frá því hvernig Yukawa aðstoðar vin sinn og lögreglumanninn Kusanagi við að leysa óvenjuleg og flókin mál. Vitandi að Yukawa er hin eiginlega aðalpersóna -- frekar en Ishigami, Yasuko eða Kusanagi -- breytir því gjörsamlega hvernig lesandinn nálgast verkið og upplifir það. Þetta kann að vera augljóst fyrir sumum reyndum glæpasagnaunnendum en þar sem fæstir íslenskir lesendur kannast við Galileo-seríuna finnst mér það vera þess virði að minnast á.

Íslenska þýðingin er að mestu leyti góð og ánægjuleg aflestrar en þegar kemur að japönskum nöfnum og orðum er vandræðalega mikið um villur. Nafn Yasuko er vitlaust stafsett á kápu bókarinnar og í verkinu sjálfu. Einnig er nafnið beygt með s-i í eignarfalli sem lætur það hljóma eins og karlmannsnafn, til Yasukos í stað til Yasukoar -- en mér finnst reyndar óþarfi að beygja japönsk nöfn í þýðingum. Til viðbótar við nafnarugling eru þau japönsku orð sem notuð eru óþýdd í textanum -- sashimi, sake, o.s.frv. -- oft vitlaust stafsett, þrátt fyrir að rétt stafsetning hafi komi fyrir á öðrum stað í textanum. Þessar villur má líklega rekja til fljótfærnislegra vinnubragða við yfirlestur en vekja á sama tíma upp spurningar um ágæti þýðinga sem styðjast að engu leyti við frummálið. Ég hef það á tilfinningunni að þegar þýðendur þekkja til menningarheimsins sem verkið sprettur upp úr sé minna um villur og líklegra er að þeir nái að þýða menningu sem og orð verksins. En það er mikið lagt á íslenska þýðendur og ekki má gleyma að þökk sé þýðingunni geta lesendur nú kynnst Higashino á íslensku og það er alltaf fagnaðarefni fá nýjan höfund inn í íslenska bókmenntaflóru.

Hinn grunaði Hr. X er prýðileg ráðgátusaga sem býður upp á frumlega og jarðbundna fléttu. Í sögunni er ekki neinn hasar á borð við bílaeltingaleiki, raðmorðingja eða átök og áflog (fyrir utan upphaflega morðið) -- aðeins hversdagslegar lýsingar á yfirhylmingu glæps í ofurvenjulegu japönsku úthverfi. Samt sem áður nær Higashino að vekja upp spennu og forvitni hjá lesandanum. Blekkingarvefur Ishigami er meistaralega gerður og erfitt er að leggja bókina frá sér þangað til að ráðgátan hefur verið upplýst -- hver sem hún kann að vera.

 

Már Másson Maack, 2018