Heiður

Ár: 
2018
Útgefandi: 
Höfundur umfjöllunar: 

Í leit að sannleikanum

Orðin þrjú sem áttu eftir að breyta öllu voru: „Þeir eru farnir.“ Skáldsagan Heiður eftir Sólveigu Jónsdóttir fjallar um 34 ára gamlan lögfræðing að nafni Heiður Signýjardóttir McCarron. Heiður ólst upp í Reykjavík, yngra barn íslenskrar konu og norður-írsks manns. Frá sex ára aldri voru þær þó bara tvær, hún og Signý móðir hennar. Yfir heimilishaldinu ríkti sorg og biturleiki. Það voru svo ótal margar ósvaraðar spurningar. Hvernig gat Jackie McCarron haft það af sér að fara frá eiginkonu sinni og dóttur? Hvað togaði hann aftur heim til Norður-Írlands? Af hverju tók hann Dylan, bróður Heiðar, með en skyldi hana eftir? Af hverju kom Dylan ekki aftur til Íslands eftir að faðir þeirra dó?

Dylan og Heiður voru náin í æsku og léku sér mikið saman þó þau væru einnig dugleg að stríða hvort öðru. Hann fæddist í janúar og hún í nóvember sama ár og því eru þau svokallaðir „írskir tvíburar“. Systkinin voru tvítyngd. Móðir þeirra talaði við þau íslensku en faðir þeirra ýmist ensku eða írsku. Sex ára að aldri voru þau reiprennandi á ensku jafnt sem íslensku. Írskan flækist fyrir Heiði en Dylan var orðinn nær altalandi. „Kannski hafði pabbi líka verið duglegri að kenna honum,“ hugsaði Heiður með sér þegar hún varð fullorðin (bls. 13). Var það tilviljun að Jackie skyldi taka Dylan með sér en ekki Heiði? Nei, að líkindum var aðskilnaður systkinanna á valdi örlaganna. Ýmis teikn voru á lofti. Með aldrinum líkist Dylan föður sínum meira og meira en Heiður líkist móður sinni. Dylan er nafn af keltneskum uppruna; Heiður er nafn sem þekktist á Íslandi hið forna.

Í endurminningu Heiðar er æskan yndisleg. Fjölskyldan er sameinuð í sveitinni hjá móðurafa við leik og störf. Allt var gott áður en feðgarnir yfirgáfu þær. Raunin var þó sú að foreldrar þeirra rifust oft. „Ég trúi því ekki að þú viljir að börnin þín kynnist því að sprengingar og morð séu daglegt brauð? Hver er tilgangurinn með þessu öllu? Hvert er markmiðið? Man það einhver lengur?“ reifst Signý við Jackie (bls. 61).

Í upphafi sögu veit Heiður ekkert um afdrif bróður síns. Hún hafði gefist upp á því að hafa samband við hann eftir árangurslausar tilraunir. Fjarlægðin og tíminn hafa skilið þau að. En dag einn, 28 árum eftir aðskilnaðinn, hringir Dylan og biður um hjálp. Heiður er á tímamótum í lífinu og finnst hún eiga nóg með sig en eftir frekari umhugsun pakkar hún í tösku og heldur af stað til Írlands á fund bróður síns. Þá hefst leitin, andleg leit Heiðar að uppruna sínum og fjölskyldu. Hún endurnýjar kynnin við bróður sinn og dvelur hjá honum á æskuheimili föður þeirra í Derry á Norður-Írlandi. Þau reyna að endurupplifa æskuna með því að borða ís og nammi í kvöldmat en það er erfitt að vinna upp 28 ára á fáum dögum. Það er svo margt sem Heiði langar að vita sem Dylan getur ekki svarað. Sannleiksþörf hennar er ekki fullnægt og hún leggur því af stað í leit að sannleikanum. Líkt og sagnfræðingur í bland við leynilögreglukonu spyr hún sig: Hvað gerðist í raun og veru árin 1980 og 1981? Hvað tók á móti Jackie og Dylan þegar þeir komu til Norður-Írlands? Hvernig lenti Jackie í fangelsi og af hverju þurfti hann að deyja?

Smátt og smátt fær Heiður betri mynd af ástandinu í Derry, þá og nú. Hún heyrir frásagnir af æsku föður síns sem var tólf ára þegar Vandræðin – The Troubles hófust og kaþólikkar á Norður-Írlandi kröfðust sömu réttinda og mótmælendur í landinu. Heiður heyrir sögur af blóðuga sunnudeginum og dauða föðurafa síns. Hún heyrir sögur af endurkomu Jackie til Derry og minningar úr æsku Dylans. Blóðrauði þráðurinn í gegnum frásagnirnar eru átökin sem krafa IRA, Írska lýðveldishersins, gerði um „eitt, sameinað Írland án enskra yfirráða“ (bls. 89). Baráttan var leidd áfram af þörf fyrir heiður og sæmd.

Heiður segir frá raunum einnar fjölskyldu og um leið harmleik heillar þjóðar. Sagan tekst á við áleitnar spurningar um frið og frelsi og gildi fjölskyldubanda og tryggðar við uppruna sinn. Umfjöllunarefni bókarinnar er áhugavert og vekur til umhugsunar þrátt fyrir að fléttan hafi verið fyrirsjáanleg. Stíllinn er lítið mótaður og má ef til vill rekja það til reynsluleysi höfundar en Heiður er önnur bók Sólveigar Jónsdóttur. Betur hefði mátt standa að prófarkalestri og ritstjórn. Auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir innsláttarvillur og óskýrar setningar. 

 

Karítas Hrundar Pálsdóttir, 2018