Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson

Höfundur: 
Ár: 
2010
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Óreiðan magnast

Einhverntíma las ég dáldið skemmtilega fræðilega útlistun á því hvernig óreiða er fyrirbæri sem vindur ævinlega uppá sig. Óreiða er ástand sem stigmagnast ef ekki er gripið inní og málin tekin föstum tökum, á endanum tekur hún yfir og gleypir heiminn. Þetta er reyndar kenning um fantasíubókmenntir sem eru svona almennt séð nokkuð fjarlægar bókum Braga Ólafssonar, en samt var þessi lýsing það fyrsta sem datt ofaní hausinn á mér þegar ég hafði, eftir mikið más og blás, lokið lestri á Handritinu að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga.

Vissulega hefur þessi tilfinning vaxandi óreiðu einkennt fyrri skáldsögur höfundar, allt frá Hvíldardögum sem fjallar um mann sem þolir ekki það álag að fara í frí. Ástand óreiðunnar kemur meðal annars til af því að persónur Braga eru með eindæmum átakafælnar og forðast allt það í lífinu sem krefur þær um að horfast í augu við eitthvað (alveg sama hversu lítilfjörlegt það er), hvað þá takast á við þær margskonar uppákomur (góðar og slæmar) sem lífið býður uppá. Átök, virkileg átök eða það sem kalla má framhleypni (proactivismi), eru algerlega út úr myndinni.

Allt nær þetta einhverskonar hámarki í skáldsögunni með langa nafnið, sem hér eftir verður nefnd Handritið. Sú saga er svo óreiðukennd og átakafælin að það er ekki einu sinni alveg ljóst hver er höfundur hennar, eða réttara sagt, hver segir hana, hverjum og hversvegna. Þó eru í það minnsta tveir höfundar skrifaðir fyrir henni eins og kemur fram í romsunni hér að framan („eftir Jenný Alexson eftir Braga”). Frásögnin markast mjög af þessu en margir lesendur kannast væntanlega við frásagnaraðferðina frá líflegum kvöldverðarumræðum (eða umræðum í hverskyns líflegum félagsskap), þarsem sagðar eru linnulausar sögur, oft hafðar eftir einhverjum öðrum, ævinlega brotnar upp af innskotum og aukaatriðum, hliðarsporum og skyndilegum vangaveltum eða hugdettum. Sögurnar spinna sig að því er virðist sjálfkrafa áfram eins og einhverskonar lífvera, einhver úr hópnum kannast við einhvern aðila úr sögunni, flókin tengsl myndast og flækjast enn frekar. Fyrr en varir leysist sagan upp í frumeindir sínar, engin man lengur hver er að segja hana, því allir taka þátt og halda svo áfram að segja sínar útgáfur í næsta félagsskap. Texti Braga er hreinlega ölvaður af þessari frásagnartækni sem vissulega gerir lesanda nokkuð erfitt fyrir (þangað til hann rifjar upp að hérna hefur hann verið áður), en skapar um leið dásamlega stemningu, margslungið líf (margradda er fræðilega hugtakið) og krefur hann um að takast á við textann, bókina, söguna, sögumanninn (eða konuna), söguhöfund, söguvitund, höfund...

Þannig neyðist lesandi til að gera einmitt það sem persónur sögunnar forðast, að takast á við eitthvað (lestur bókarinnar) og mögulega í leiðinni sjálfan sig.

Og um hvað er svo sagan? Miðað við fyrri skáldsögur Braga þá er þessi óvenju innihaldsrík af söguþráðum og plottum, þó ekkert þessa leiði sérstaklega til eins eða neins, enda var það aldrei markmiðið. Tveir kallar, ríflega sextugir leggja upp í sjóferð til Hull. Tilgangur ferðarinnar er tvíþættur. Annarsvegar er annar, Örn Featherby, að sækja föðurarf sinn, tæplega tvöhundruð mokkasíur, og hinsvegar ætla þeir félagar, sem hafa alla ævi burðast með listamannsdrauma án þess að gera nokkurn tíma nokkuð við þá, að skrifa handrit að kvikmynd. Jón Magnússon er nefnilega menntaður kvikmyndagerðarmaður, en hefur aldrei snert á kvikmyndagerð síðan hann útskrifaðist. En núna er stóra tækifærið upp runnið, gamall skólafélagi þeirra og bissnessmaður (lyfsali) býðst óvænt til að fjármagna kvikmynd ef þeir geti lagt fram handrit.

Kallarnir æsast allir upp við þetta og fara af stað með margvíslegar háfleygar hugmyndir: meðal annars á myndin alls ekki að innihalda frásögn, söguþráð eða framvindu, heldur að vera einskonar myndflétta (svona ekki ólíkt skáldsögum Braga sjálfs, sem hann virðist hér hamingjusamlega gera gys að), og eitt af því sem ruglar frásögnina er þegar lesandi dettur inní lýsingar á þessari kvikmynd, sem á stundum er séð útfrá höfundum handritsins, stundum frá sögukonunni og stundum (og það er mest ruglandi), frá sjónarhóli ímyndaðs frægs kvikmyndaleikara sem ætlar að taka að sér hlutverkið og les handritið, all ölvaður, í flugvél á leiðinni til Íslands.

Inn í þetta æsingslega plott blandast svo framhald sögunnar sem sögð er í fyrri skáldsögu Braga, Sendiherrann, en sú fjallar um ljóðskáldið Sturlu Jón, son Jóns Magnússonar og ferð hans á ljóðahátíð í Litháen (eða var það Lettland eða jafnvel Eistland?). Bókin kom út árið 2006 og Handritið gerist í beinu framhaldi. Þetta er auðvitað tíminn fyrir „hrunið” og Bragi nýtir þá óráðsíu sem afskaplega viðeigandi umgjörð um alla óreiðuna.

Eins dýrðlega gaman og þetta alltsaman er þá verð ég að viðurkenna að bókin hefði að ósekju mátt við styttingum. Bragi veltir sér uppúr löngum síendurteknum senum, til dæmis þegar persónur sitja á veitingastöðum og ætla að borða, en af ýmsum ástæðum frestast það alltaf að maturinn komi á borðið og í staðinn drekka allir mjög mikið og óreiðan magnast, samhliða lamandi tilfinningu fyrir bið. Sumar þessara sena hefði alveg mátt stytta, sérstaklega þegar nær dregur lokum bókarinnar. Annað dæmi um endurtekin stef eru svo í beinu framhaldi af þessu þema, en það eru klósettferðir, sem vissulega er ekki lýst sem slíkum (sem betur fer) heldur stunda persónur það gjarna að læsa sig inni á klósettum og dvelja þar langdvölum. Allt er þetta fyndið og skemmtilegt og greinilega ætlað að reyna á þolrif lesenda en ég sumsé verð að játa að mín áttu það til að bresta. Mögulega er það þó einmitt ætlunin, að æra lesandann (og gagnrýnandann?), og það tekst með ágætum. Það má því svo sannarlega segja að skáldsagan Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson láti engan ósnortinn – né óglaðan.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.