Gulur Volvó

Höfundur: 
Ár: 
2018
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Höfundur umfjöllunar: 

Hversdagslegar sögur um dauðann

Gunnar Randversson gítarleikari og tónlistarkennari hefur gefið út fjórar ljóðabækur en gefur nú í fyrsta sinn frá sér prósatexta í bókinni Gulur Volvó. Verkið hefur að geyma átta örsögur, út frá þeirri þumalputtareglu að prósatexti sé örsaga ef orðafjöldinn er undir 1500 orðum. Sögurnar eru mislangar en eiga það sameiginlegt að vera knappar enda er bókin í heild ekki nema 60 blaðsíður. Allar fjalla örsögurnar um dauðann á einn eða annan hátt. Hér á það því við að „dauðinn sameinar“, eins og stundum er sagt, þó að í  raun og veru sé það lífið, ástin og vináttan fremur en allt annað sem býr yfir þeim krafti að sameina.

Sögurnar heita „Ellefta vorið“, „Rauða harmonikkan“, „Dauðaþorpið“, „Gulur Volvó“, „Útförin“, „Jólasveinar í júní“, „Með dauðann á hælunum“ og „Eyðilandið“. Nokkuð ber á lýsingum á árstíðum. Fyrsta sagan gerist að vori, í þriðju sögunni bregður fyrir kvöldsól, þá er kominn júlímánuður, haustið er farið að minna á sig í næstu sögu en svo kemur júní og í síðustu sögunni er talað um aprílmánuð. Af þessu má sjá að árstíðunum er ekki ætlað að binda sögurnar saman að forminu til þrátt fyrir notkun höfundar á líkingunni að mannsævin sé eins og árstíðirnar. Fólk er ungt að vori en eldra þegar haustar. Fimm sögur enda á svipaðan hátt, á stílbragði sem ef til vill mæti kalla knústpásu. Hún felst í því að á eftir smá þögn, í formi greinaskila, kemur stök ljóðræn málsgrein.

Gulur Volvó er eins og minnisbók. Sögurnar eru allar, að einni undantalinni, sagðar í fyrstu persónu. Frásagnarmáti þeirra er einfaldur og efnistökin hversdagsleg en undirtóninn er dramatískur. Sögumaðurinn virðist í fyrstu vera sá sami. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að sögumennirnir fást við ólík störf: rithöfundur, málari, stjórnmálafræðingur bókmenntafræðingur. En þeir eiga ýmislegt sameiginlegt. Sem dæmi hafa þrír þeirra tengingu norður í land, tveir misstu ungir föður sinn og tveir hafa misst bróður sinn. Ungu sögumennirnir tveir eiga það líka sameiginlegt að leika sér að stækkunargleri og tefla skák. Geta mætti sér til um að höfundur sækti innblástur í nærumhverfi sitt og ef til vill sínar eigin minningar. Stíllinn hefur persónulegt yfirbragð sem minnir á ljóð.

Þar sem höfundurinn er tónlistarmaður kemur ekki á óvart að tónlist kemur nokkrum sinnum við sögu í bókinni. Ungur sögumaður eignast hljómplötu með Jimi Hendrix og dreymir um að spila á gítar. Í annarri sögu er aftur komið inn á drauminn um að spila á gítar. Umfjöllunarefni sögunnar „Útförin“ er síðan sálmaval og engum ætti að koma á óvart að „Rauða harmonikkan“ fjallar meðal annars um harmoníkuleik.

Örsagnasafnið Gulur Volvó segir frá venjulegu fólki sem lifir fremur venjulegu lífi. Margt getur orðið til þess að vekja upp minningar, svo sem lestur minningargreinar eða það að rekast á gamlan kunningja. Í hlutum býr einnig saga. Gullfiskabúr, harmonikka og gulur Volvó geta framkallað minningar. Hlutirnir minna á liðinn tíma, látna ástvini, að gangur lífsins er að deyja. Frásögnin er blátt áfram og hversdagsleg. Hún kemur lítið á óvart. Spennu er haldið í lágmarki. Lífið er bara eins og það er. Fallegt þegar það er fallegt, sorglegt þegar það er sorglegt. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er.  

 

Karítas Hrundar Pálsdóttir, 2018