Galdur Vísdómsbókarinnar og Sverðberinn

Ár: 
2004
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Heima og heiman í ævintýraheimum

Það er gósentíð fyrir (okkur) fantasíuunnendur því nú streyma allskonar ævintýrabækur á arkaðinn, bæði íslenskar og þýddar. Tvær af þeim fyrrnefndu eru hér til umfjöllunar, Galdur Vísdómsbókarinnar eftir Iðunni Steinsdóttur (Salka, 2004) og Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur (Mál og menning, 2004). Þær eru báðar ætlaðar ungum lesendum, en mér sýnist þó að Sverðberinn sé meiri unglingabók en barnabók, meðan saga Iðunnar ætti að gleðja bæði yngri lesendur og stálpaðri.

Galdur Vísdómsbókarinnar fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um galdur Vísdómsbókar nokkurrar sem býr yfir margvíslegum mætti eins og góðra galdrabóka er háttur. Sagan hefst á því að hetja vor, hinn ungi Hrólfur, er að grafa jarðhýsi sem ætlað er að veita íbúum Humlabyggðar skjól ef óvini ber að garði. En uppgröfturinn leiðir hann í ógöngur, því djúpt í jörðu liggur konulík grafið og fljótlega kemur í ljós að sú kona er ekki einhöm, heldur hinn argasti draugur sem, gegn sínum vilja þó, gengur ljósum logum um þetta smáa byggðalag og virðist munu leggja það í rúst verði ekki að gert. Hrólfi er kennt um allt og hann sendur í langa og ævintýralega för til annars lands, Goddaveldis. Hinn grimmi þjóðflokkur Godda er einmitt ábyrgur fyrir fátækt og smæð Humlabyggðar, því Goddar höfðu farið þar um með ofbeldi og eyðingu og meðal annars haft á brott með sér Vísdómsbókina og þannig komið í veg fyrir að byggðin gæti eflst að nýju. Inn í málið blandast svo unnusta Hrólfs, sú eina sem trúir á hann og verður að sitja eftir heima og bíða eftir að hetjan snúi aftur, ferðafélagar Hrólfs, og svo auðvitað önnur lönd, en við fáum innsýn í þá þjóð sem tók við af Goddum og nefnast Lumpar. Heimur Lumpanna og samskipti hans við Humlabyggð minnti mig óneitanlega á þann heim sem á undanförnum árum hefur mótast í skáldsögum um Tyrkjaránið. Þar er einmitt dregin fram mikil andstæða milli fátæktar og einfalds lífs Íslendinga, öfugt við auðlegð og glamúr Alsír. Þetta blandast síðan á skemmtilegan hátt rammíslenskum drauga- og álfasögum, en Elvína, kvendraugurinn illskeytti, er bæði dæmi um skottu og álfadrottningu í álögum.

Í heildina er hér hið ágætasta ævintýri á ferðinni, hæfilega exótískt og hæfilega kunnuglegt líka, og þó það sé hitt og annað sem ég er ekki fullsátt við – stíllinn er á stundum dálítið stirður, og svo er ég orðin voðalega þreytt á því hvað fantasíur virðast kalla á gamaldags skiptingu kynhlutverka – þá finn ég að þetta skiptir ekki miklu máli fyrir heildarupplifunina, sem var ánægjuleg.

Á sama hátt var ýmislegt sem stakk mig í bók Ragnheiðar Gestsdóttur, Sverðberanum, og þá ber kannski fyrst að nefna að mér finnst sú táknsaga sem býr í hennar fantasíu óþarflega augljós. Hér eru sagðar tvær sögur samtímis, saga Signýar sem er ósköp venjulega Reykjavíkurmær á fyrsta ári í framhaldsskóla, og svo saga Ledu, sem er ævintýrahetja í fantasíuheimi. En líkt og í bók Iðunnar, ná gallarnir ekki að skyggja á það sem vel er gert og í heildina séð verður að segjast að hér er á ferðinni nokkuð áhugaverð tilraun til að flétta saman ólíka heima. Það sem er kannski einna áhugaverðast er að útgangspunkturinn er hlutverkaleikjaheimurinn, sem mörgum stendur stuggur af, en birtist hér í jákvæðu ljósi. Sagan hefst á því að Signý er að spila hlutverkaleik með vinum sínum, þau verða svöng og fara út að fá sér pizzu, bíllinn rennur í hálku, Signý fær höfuðhögg og liggur í dái. Síðan kynnumst við Ledu, sem er greinilega annað sjálf Signýar, ber enda nafnið sem hún hafði nývalið á karakterinn sinn í leiknum. Síðan vindur sögunni þannig fram að ýmist kynnist lesandi fjölskyldu Signýar þarsem þau sitja yfir stúlkunni á spítalanum, eða hann fer í ferðalag með Ledu. Í ljós kemur að í fjölskyldunni er vandi, sem á sér hliðstæðu við vanda ævintýraheimsins, en hann er byggður álfum. Drottning álfanna er með íshjarta og heldur konunginum, bróður sínum, í dái. Harðstjórn drottningarinnar veldur síðan hörmungum meðal álfanna. Hlutverk Ledu, sverðberans, er að stinga sverði sínu í frosið hjarta drottningar og frelsa álfana.

Hér eru greinilegir undirtónar ýmissa ævintýra, Snædrottning H.C. Andersen kemur strax upp í hugann, auk þess sem Hringadróttinssaga er aldrei fjarri þegar kemur að ævintýraheimum af þessu tagi. Einnig er hér bragð af fantasíum Astrid Lindgren. Blandan er í heildina góð, sagan fimlega skrifuð og stíllinn rennur betur en í sumum fyrri bókum höfundar, sem mér hafa fundist á stundum dálítið stífar. Og þótt mér hafi fundist táknsagan á stundum einum of augljós, þá er sagan í heildina vel heppnuð og lesandi á auðvelt með að gangast þessum tveimur heimum á hönd.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004