Fjórar línur og titill / Ráð við hversdagslegum uppákomum

Höfundur: 
Ár: 
2006
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Fjórar línur og hversdagslegar uppákomur

„Innivera hefur á síðustu árum verið stórlega vanmetin“ segir Óskar Árni Óskarsson í „Hollráðum í tengslum við inniveru” og gefur eftirvæntingarfullum innipúkum það góða ráð að semja við heimsendingaþjónustu. „Þá er maður fullkomlega frjáls og áhyggjulaus að reika milli herbergja, njóta bóklesturs, teygjuæfinga og alls þess sem maður hefur yndi af.” Óskar bendir réttilega á að gluggar hússins séu eins og besta afþreyingamiðstöð, „Veðrið fyrir utan gluggann er síbreytilegt og fátt veitir meiri innri ró en að fylgjast með skýjafarinu frá degi til dags.” Hver þarf eiginlega bíó þegar íslenskt veður er í boði? Út um gluggann sérðu kannski „Gáminn við íþróttahúsið”, en hann hefur staðið óhreyfður „Frá því í fyrrahaust”, „Galtómur. / Held ég.” Hér er komin heil sakamálamynd að hætti Braga Ólafssonar. Ein bókanna sem þú lest gæti meira að segja verið „Endurreisn Helvítis”, “eftir Leo Tolstoj. / Verð: 25 aurar. / Útgefin á Akureyri nítján hundruð og fjögur. / Kostnaðarmaður og prentari Oddur Björnsson.” Ósjálfrátt leita ég þýðanda í þessari stuttu bókfræðilýsingu, er það Oddur líka? Bragi gefur ekkert meira upp í þessum Fjórum línum sínum með titli. Bókina Endurreisn Helvítis finn ég svo á gegnir.is, hún er fágæt en til á nokkrum söfnum. Þýðanda er ekki getið, bara Odds. Þetta er því ekki svona Borgesarlegt trikk hjá Braga, að búa til bók.

Fyrst svo er má ætla að ráð Óskars Árna við hversdagslegum uppákomum standi á álíka traustum grunni. Ég vil því benda giftu fólki sérstaklega á bók hans, Ráð við hversdagslegum uppákomum, en þar er að finna nokkur góð ráð um viðhald maka og leiðbeiningar að góðu hjónabandi. Til dæmis er hjónum bent á að „umgangast ryksuguna eins og fjarskyldan ættingja sem hefur búið lengi í Kanada.” Bragi fjallar líka um “Tungumál hjónabandsins” og segir frá hjónakornum sem töluðu ekki sama mál, eða aðallega talaði konan ekki mál eiginmannsins, sem var skáld og rússi. Kannski hefur Oddur hjálpað eitthvað þarna til og reddað ósýnilegum þýðanda. Eða kannski hafa orðin bara komið til þeirra á óvæntum stundum „Skuldbindingar”, eins og þegar þau eru að teygja sig „eftir spagettilengjunum / í efstu hillu smákaupmannsins”, en þá gæti þeim dottið „í hug þessi fína setning / um kavíarbrúðkaupið.”

Já skáldskapurinn birtist oft í óvæntum myndum í fjórlínum Braga, eins og óvæntum fundi við önd á göngustíg við Hljómskálann: „Við göngum saman stundarkorn / og eitt andartak upplifi ég sjálfan mig sem ljóðskáld.“ Mögulega er þetta vegna áhrifa frá „Jónasi Hallgrímssyni, standmynd” sem trónir nærri stígnum. En ofar á holtinu, nánar tiltekið á Skólavörðustíg, forðar tunglið sér undan skáldunum í öðrum fjórlínungi Braga. Þetta gátu þeir ekki vitað, „Þeir sem teiknuðu upp hverfið / á miðri nítjándu öldinni”.

Óskar Árni á engin ráð handa skáldum en býður hinsvegar uppá þennan líka ágæta „Leiðarvísi fyrir fótstigin tunglför“. Mikilvægt er að klæða sig rétt og svo er það bara að hjóla „hratt af stað þar til tunglfarið hefur lyft sér upp af jörðinni.“ Í 500 metra hæð má hægja á og halla sér aftur í stólnum. „Þegar dimma fer þykir sumum gott að kveikja á næturlampanum og líta í bók eða fá sér reyk. Best fara franskar nítjándualdarbókmenntir við fótstigin tunglför.” Ekki kemur fram hvort þær þurfi að vera á frummáli eða í þýðingum. Og fyrir þá sem vilja stunda hina vanmetnu inniveru er boðið uppá „Leiðbeiningar fyrir innanhússflug“.

En þær er best að lesa með sjálfri sér í einrúmi, helst með ljósin slökkt og jafnvel um „Vetur í Þingholtum“ sem lýst er í þessari fjórlínu Braga:

Í nóttinni sem leggst yfir húsgarðinn
er verið að undirbúa komu næsta dags.
Það er hér sem það gerist,
það er hér í myrkrinu.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2006