Fjarveran

Höfundur: 
Ár: 
2012
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Fögnuður prófarkanna

Ármann Valur, söguhetja skáldsögu Braga Ólafssonar, Fjarveran, þolir ekki fyrirsagnir í eignarfalli. Hann er prófarkalesari og alkahólisti sem vaknar upp í byrjun bókar og veit ekki vel hvar hann er. En mikið rétt, það rifjast upp fyrir honum að hann hafði endað í einskonar partýi kvöldið áður, eftir að hafa komið heim frá London, en þar hafði hann hitt ungan mann sem af einhverjum ástæðum tók gleraugu Ármanns heim með sér. Sá hafði svo ekki verið heima þegar Ármann Val bar að garði, en í staðinn var þar fyrir annað fólk sem hélt uppi stuði.

Dyggir lesendur Braga Ólafssonar kannast við málið, en gestgjafalausa veislan geisar í skáldsögu hans frá árinu 2001, Gæludýrunum. Það virðist því svo að Fjarveran sé einskonar framhald þeirrar sögu, þó ekki hefðbundið, því það er aukapersóna en ekki aðalpersóna sem fylgt er áfram. En þegar á líður söguna kemur fleira í ljós sem gerir það að verkum að staðsetning Fjarverunnar í höfundarverki Braga verður ekki eins skýr. Vísað er til persóna tveggja síðustu skáldsagna Braga, Sendiherrans (2006) og Handritsins að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenny Alexson (2010). Ármann Valur þekkir til persóna þar og í ljós kemur að hann var kennari Sturlu, aðalsöguhetju Sendiherrans, en sá er sonur Jóns Magnússonar, einnar aðalsöguhetju Handritsins. Glöggur lesandi hefur mögulega kannast við nafnið Ármann Valur þegar það kemur fyrir í Sendiherranum – en það gerði ég ekki. Þessi tengsl komu því öll mjög flatt upp á mig og ég fór að velta fyrir mér hvort verið gæti að fleiri persónur væru á flakki milli bóka Braga og fylltist næstum því ómótstæðilegri hvöt til að lesa þær allar í gegn aftur. Aðallega fylltist ég þó kvíða fyrir því að skrifa um Fjarveruna – fyrst ég hef þegar misst af aukahlutverkum aðalpersónu þeirrar bókar, af hverju öðru hef ég þá líka misst?

Á endanum ákvað ég að láta bara vaða. Fjarveran er skáldsaga í þremur hlutum, sá fyrsti gerist árið 2001 (eins og Gæludýrin), annar árið 2006 (eins og Sendiherrann og Handritið) og sá þriðji árið 2011. Sagan spannar þannig tíu ár í lífi prófarkalesarans og fyrrum íslenskukennarans Ármanns Vals. Á þessum tíu árum gerist fátt markvert í lífi hans, en þó er nóg um uppákomur, til dæmis er nokkuð um dauðsföll, jafnvel voveifleg, sem í sjálfu sér þætti markvert í flestum greinum skáldskapar, sérstaklega þó glæpasögum. Glæpasagan er reyndar eitt af viðfangsefnum sögunnar, líkt og hún kom við sögu í Sendiherranum, þó ekki sem eiginlegur hluti af söguþræði eða plotti, heldur frekar sem viðfangsefni eða jafnvel einskonar stuðpúði. Því í upphafi sögunnar kemur fram að Ármann Valur er ekki allur þar sem hann er séður, hann býr yfir leyndarmáli. Árið 1974 hafði hann hlustað á samtal tveggja manna á skemmtistaðnum Klúbbnum, samtal sem hann taldi síðar að innihéldi mikilvægar upplýsingar sem vörðuðu hvarf Geirfinns nokkurs Einarssonar. Það er því ekkert minna en eitt frægasta sakamál Íslandssögunnar sem Bragi tekur fyrir – eða ekki.

Ármann fór aldrei til lögreglunnar með þessar upplýsingar en sagði hinsvegar vini sínum, tónskáldinu Markúsi Geirharði, frá samtalinu, en sá samdi síðan tónverk við það og var textinn lesinn þar, en Ármann hafði skrifað samtalið orðrétt upp. Eftir þetta hefur Markús einhverskonar tak á Ármanni, en um það fjallar fyrsti hluti Fjarverunnar. Markús býr þá í kjallaraíbúð Ármanns og er umgengni hans frekar slæm, allavega fer hann mjög í taugarnar á konu sem býr einnig í húsinu og um þetta verða nokkur átök sem lýkur með því að Ármann finnur Markúsi annað húsnæði, í kartöflukofa í Mosfellsbæ. Þess ber að geta að íbúð, og kjallaraíbúð, Ármanns, er á Rauðarárstíg, beint á móti Lögreglustöðinni við Hverfisgötu, sem undirstrikar enn nálægð glæpasögunnar – eða ekki.

Í miðhlutanum koma Gæludýrin aftur við sögu, en þá vill svo til að Ármann fær það hlutverk að lesa yfir próförk sem er saga Emils, húsráðandans fjarverandi, sem þó var alls ekki fjarverandi, eins og lesendur muna, heldur undir rúmi. Emil hefur sem sagt skrifað bók um atburði þessa kvölds og Ármanni líst afar illa á þetta og ákveður að ráðleggja útgefandanum að hafna bókinni.

Hér er Ármann staddur á Akureyri og hefur aðsetur í Davíðshúsi. Hann dreymir um að hitta konu sem hann hefur alla tíð verið hrifinn af, Estheri nokkra, en sú var í sambandi við tónskáldið Markús þegar sá bjó í kjallara Ármanns. Svo vill til að dóttir Ármanns heitir einnig Ester, en ekki með hái, og hún býr í íbúð Ármanns meðan hann er fyrir norðan og verður fyrir ónæði vegna konunnar sem áður kvartaði hvað mest yfir Markúsi.

Flókið? Neinei, mér leið bara eins og ég væri í þeytivindu allan tímann sem ég las Fjarveruna. Mitt í þeirri fullkomnu ördeyðu atburða sem einkenna alla ‚framvindu‘ verksins er svo margt að gerast að það hálfa hefði verið nóg. Líkt og í síðustu bókunum tveimur er meðal annars verið að fjalla um skáldskap og hlutverk listarinnar, en Markús er óskiljanlegt tónskáld sem skyndilega og óvænt slær í gegn eftir dauða sinn (já hann er einn af þeim sem deyr sviplega), og svo dreymir Ármann auðvitað um að skrifa sjálfur, en vera ekki bara prófarkalesari – og dómari – skrifa annarra.

Þessar vangaveltur um skáldskap og listir eru í raun í tveimur lögum, bæði innan og utan sögunnar: hver er staða þessarar bókar, Fjarverunnar, í höfundarverki Braga? Þegar Handritið kom út lýsti hann því yfir að hún væri hluti af fjórleik. Er Fjarveran þá þriðja bókin í þeim fjórleik? Eða jafnvel sú fjórða, því kannski er Gæludýrin sú fyrsta, og Bragi hefur bara haldið því leyndu hingað til? Og hvernig er þetta yfirleitt með höfundarverk, taka þau á sig einskonar sjálfstætt líf þegar persónur ganga ljósum logum á milli þeirra?

Ennfremur er athyglisvert að velta fyrir sér stöðu verks eins og Fjarverunnar í íslensku bókmenntalandslagi: en í sögunni má segja að Bragi hafi á vissan hátt fullkomnað þá margvíslegu höfnun atburðarásar sem einkenndi bæði Sendiherrann og Handritið.[1] Þetta kemur meðal annars fram í titlinum. Fjarveran virðist snúast í eilífa hringi um eigið skott (Gæludýrasagan kemur fyrir, aftur og aftur, Est(h)terarnar tvær, endurtekna ónæðið í húsinu) án þess nokkurntíma að setjast niður. Sem slík stendur hún allmikið á skjön við þær tvær bókmenntagreinar sem eru hvað mest áberandi þessi árin, sögulegu skáldsöguna og glæpasöguna.

Allt þetta og miklu meira er að finna í hinni umfangsmiklu en látlausu Fjarveru. Að auki er bókin uppfull af undirfurðulegum húmor og kunnuglegum grátbroslegum vandræðagangi eins og þekkja má úr bestu bókum Braga, og Fjarveran kemur sér prýðilega fyrir í þeim áratuga langa gleðskap.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2012


[1] Sjá grein mína í Tímariti Máls og menningar 2/2011, „Sögur af skáldum og skáldaðar sögur“.