Fiskarnir hafa enga fætur

Ár: 
2013
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Nálægt hafi sefast allar sorgir

Sá sem þetta ritar var ekki alveg sáttur við þennan titil í fyrstu, Fiskarnir hafa enga fætur. Til hvers að staðhæfa eitthvað sem er svo augljóst. Hvernig tengist þessi titill söguefninu? Reyndar kemur setningin fyrir síðla í sögunni og þá í þannig samhengi að ásættanlegt er að hafa hana sem titil. Samt, þær eru svo margar betri setningarnar í bókinni.

Aðalpersóna bókarinnar, Ari, snýr aftur til heimabæjar síns, Keflavíkur, en hann hefur undanfarið búið í Danmörku. Faðir hans liggur hugsanlega fyrir dauðanum. Ara finnst hann eiga sitthvað óuppgert við hann en milli þeirra hefur oftast ríkt þögn. Að minnsta kosti aldrei verið tekið á því efiða máli, láti móðurinnar, eiginkonunnar, fyrir margt löngu. Föðurfjölskylda Ara kemur frá Neskaupstað og er talsvert sagt frá henni allt frá því að langafi og langamma hans flytjast þangað. Þar er það sjómennskan sem er í fyrirrúmi, æðst allra starfsgreina. Blússandi útgerð. Keflavík er hins vegar kvótalaus bær. Kvóti þess bæjar var Kaninn, sem veitti störfum, bjór og alls konar öðrum vörum í bæinn, svo ekki sé minnst á músíkina sem dundi frá Kanaútvarpinu og hafði kannski meiri áhrif á upprennandi keflvíska hljómlistarmenn en aðra sömu stéttar sem annars staðar bjuggu. Leifsstöð meira að segja, stolt þessarar litlu þjóðar, er samt sem áður partur af Kanafé, partur af smyglinu, partur af lélegri sjálfsmynd og slæmri fortíð. Það er raunar ekki mikið fjallað beint um samskiptin við Kanann í bókinni, heldur meira ýjað að áhrifum hans á íbúana í kringum vallarsvæðið.

Nokkrar aukapersónur í bókinni munu sumir eflaust kannast við úr bæjarlífinu í Keflavík. Þarna er fyrrum söngvari Hljóma (og Pónik) sem er verslunarstjóri í plötubúðinni, Hljómalind. Einhverjir geta eflaust giskað á hver GÓ er. Kannski fleiri á ferð í bókinni sem íbúar Reykjanesbæjar gætu þekkt.

En af hverju er Keflavík “svartasti staðurinn” á landinu eins og hraut úr munni forsetans árið 1944? Því er ekki beinlínis svarað, en á þessu er klifað í bókinni. Þessu stílbragði, klifun, beitir höfundur allnokkuð, að minnsta kosti svo mikið að eftir því er tekið. Setningar eru endurteknar eins og þessi lýsing á fjöllunum sem umkringja Norðfjörð, svo að eitt dæmi sé tiltekið: “…skörð í laginu eins og öskur.” (s. 35), “…skörð sem eru í laginu eins og hótun.” (s.36). Þetta virkar ágætlega, minnir á ljóð, setur ljóðrænt yfirbragð á frásögnina ásamt þeim mörgu heimspekilegu vangaveltum sem finna má á víð og dreif.

Eiginkona Ara hefur sagt skilið við hann. Hún brást illa við hálfgildings framhjáhaldi sem varð raunar aldrei að neinu. Hann er verulega ósáttur við þá skipan mála, einbeitir sér að starfi sínu í útgáfubransanum, en forlagið er með útibú í Danmörku líkt og útgáfufélagið Bjartur. Hann getur ekki lengur skáldað ljóð og sögur, hefur áður sent frá sér tvær ljóðabækur og tvær skáldsögur, en vinnur af og til að eilífðarverkefni um Jóhann Sigurjónsson. Það er eflaust talsvert af höfundinum í þessari persónu, Ara, og líka í þessum dularfulla sögumanni sem fylgir honum. Sá býr sig undir að taka á móti Ara er hann kemur að utan í byrjun bókar. Þar eru þeir aðskildir en síðar fylgir þessi sögumaður Ara svo fast eftir að manni dettur í hug að þar fari einn og sami maður. Það kemur svo sem enginn skýring á því hver sögumaður er. Einhver frændi kannski? Hvað sem því líður, það skiptir ekki svo miklu máli, þá er þetta skemmtilegt trikk.

Það er margt fleira skemmtilegt hérna. Fullt af sögum í sögunni. Þær birtast hver um aðra þvera þessar sögur. Sumar eru stuttar og strax búnar, aðrar fá ekki framhald fyrr en seint um síðir eins og þessi um stúlkuna Sigrúnu sem fór svo illa en hefði getað endað á annan og yndislegri máta, ef Ari hefði verið aðeins djarfari. Það er stutt á milli hamingju og harms. Á það erum við minnt hvað eftir annað. Ef okkur gengi betur að taka réttar ákvarðanir og fylgja þeim eftir, væri lífið svo miklu betra. Eða hvað? Ráðum við nokkru um það þegar upp er staðið?

Eitt af því sem klifað er á er hið viðkvæma hjarta Títós leiðtoga Júgóslavíu árið sem hann lést, þjóðarleiðtogar þinga um heimsmálin en hafa fátt eitt að segja um hjartans málin, um ástina. Ástin skiptir þá engu máli, samt er hún okkur mikilvægari en flest annað.

Í sjónvarpsþættinum Kiljunni talaði Jón Kalman um að bókin fjallaði um leit; leit þjóðar sem er á flótta frá því að horfast í augu við sig. Hver viljum við vera? Passa draumarnir við veruleikann?

Það er fremur létt yfir frásögninni, eða frásögunum öllu heldur. Þægilegur húmor leynist víða, þótt oft sé verið að segja frá málum sem eru átakanleg. Sögurnar vefja sig hver um aðra eins og ritvefnaður, öll þessi orð, og sum endurtekin aftur og aftur, en allt fær heildstæða mynd að lokum. Jón Kalman Stefánsson er í fremstu röð íslenskra skáldsagnahöfunda. Þessi bók sýnir svo ekki er um villst hvers vegna. Helst vildi maður eiga það eftir að lesa bókina þegar lestri lýkur.  Getað byrjað aftur. Það er svo sem alveg hægt.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2013