Doris deyr

Ár: 
2010
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Fjarlæg nálægð

Það ríkir einhver fjarlægð í smásögum Kristínar Eiríksdóttur í þessu safni, en þó fjalla sögurnar aðallega um samskipti fólks. Titilsagan „Doris deyr” er gott dæmi um þetta, en þar fær sögumaður símtal með tilkynningu um að Doris sé dáin. Hann rifjar upp vinskap þeirra er þau ferðuðust saman um Evrópu nokkrum árum fyrr. Félagsskapurinn hentaði báðum vel en þó var aldrei um ástarsamband að ræða, þau halda vandlega fjarlægð hvort frá öðru og í fyrsta skiptið sem þau snertast segir Doris: „Eins og að snerta sjálfan sig.” (82) Þannig virðist sem þau séu á einhvern hátt tengd nánum böndum, en þekkjast samt í raun alls ekki, enda missa þau sambandið þegar þau fara hvort í sína áttina og sögumaður getur ómögulega munað nokkuð um konuna sem getur gefið honum möguleika á að grennslast frekar fyrir um líf hennar eða dauða.

Kristín Eiríksdóttir hefur getið sér gott orð sem ljóðskáld, en ljóð hennar eru þó yfirleitt á mörkum prósa og ljóðs eins og kemur vel fram í síðustu bók hennar, Annarskonar sælu. Textar hennar hafa hingað til verið afar tilraunakenndir með sterkum súrrealískum tónum. Þetta smásagnasafn er nokkuð mikið frábrugðið fyrri verkum höfundar, frásagnarmátinn er allur hefðbundnari og óróleika tilrauna með texta er hvergi að finna. Þvert á móti er texti sagnanna ákaflega agaður og tálgaður og að mörgu leyti einnig hefðbundinn. Verkið markar því greinilega nýtt upphaf, eða skil, í ferli höfundarins, en slíkt er ekki óalgengt meðal höfunda sem byrja á samskonar nótum og Kristín. Bækur á þessum tímapunkti markast oft af því að vera ‘leitandi’, svo notaður sé frasi, þær virka dálítið eins og millistig eða tengiflug á leið höfundarins frá einum stað til annars. Svo er um Doris deyr, en þrátt fyrir að rödd höfundarins sé greinileg er hún tæplega nægilega sterk og verkið nær þar með ekki þeim krafti sem fyrri bækur Kristínar hafa.

Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að það sé margt ansi magnað í þessum sögum, enda hefur Kristín sýnt að hún hefur heim skáldskaparins vel á sínu valdi. Sögurnar láta flestar lítið yfir sér, í þeim er einblýnt á það sem virðast vera smávægileg atvik en þau taka á sig aukið vægi, alveg eins og hefð smásagnaformsins segir til um. Þannig  koma þær á einkennilegan hátt óþægilega við lesanda, en það að skapa með honum tilfinningu einhverskonar ókennileika er einmitt helsta einkenni skrifa höfundar. Heildarsvipurinn er þó raunsær, en á einstaka stað stingur fantasían eða súrrealisminn sér niður, til dæmis í sögunni „Þrjár hurðir.” Fjarlægðin sem nefnd var hér í upphafi birtist á margvíslegan hátt, allt frá því að vera grimm og köld yfir í undarlegt form nálægðar. Það síðarnefnda kemur kannski einna best fram í síðustu sögunni, „Holur í menn”, en þar hverfur fjölskyldufaðirinn skyndilega og án útskýringa. Börnin hans finna í gegnum lífsleiðina ýmis konar vísbendingar um hvarfið og dvalarstað föðurins sem endar svo með því að lík hans finnst og þrátt fyrir ólík lífshlaup deila systkinin skyndilega fullkomnum skilningi. Titill sögunnar gæti vísað til enska ljóðsins „The Hollow Men” eftir T.S. Eliot, með tilheyrandi tilfinningu fyrir tilgangsleysi, en ‘holir menn’ leynast reyndar víðar í sögum Kristínar.

Sagan um safnarann, „Staðsetja, útvega, flokka, raða og varðveita” er til dæmis magnað dæmi um vinnu með (tilgangslaus) smáatriði, en þar lýsir sögukonan því hvar hún var þegar suðurlandsskjálftarnir gengu yfir árið 2000. Í fyrra skiptið var hún stödd í búningsklefa elliheimilisins Grund og í síðara skiptið í heimsókn hjá sérkennilegum pilti sem hún hefur óvænt kynnst, en hefur fyrst og fremst áhuga á að nýta sem efnivið í skemmtisögur handa vinum sínum. Hann er safnari og safnar ótrúlegustu hlutum að því er virðist til að koma einhverskonar reglu á líf sitt, eða jafnvel heiminn allan: „Mig vantar alltaf eitthvað” segir hann, „það er stöðugt ástand, frá því ég vakna og þangað til ég sofna.” (31) Hann er því greinilega holur maður, söfnunin uppfyllir eitthvað sem hann þráir en nær samt aldrei að fanga. Meðal annars safnar hann beinagrindum dýra sem hann geymir vandlega flokkaðar í kössum og boxum, en allt þetta fer sumsé á skrið þegar jörðin skelfur.

Sagan „Ekkert sést í sjónum kringum Ísland” fjallar um hrunið í allsérstæðu samhengi. Þar segir frá Elsu sem er að ferðast um heiminn í krafti peninga föður síns. Hún hefur flosnað upp úr námi í kjölfar þess að hætta með kærastanum og er að reyna að ná tökum á sjálfri sér á ný. Undir lok ferðarinnar er hún stödd á fullkominni sólarströnd og hittir þar bandaríska konu sem hefur látið gera á sér nokkuð róttækar fegrunaraðgerðir. Þrátt fyrir að vita ekki alveg hvað hún eigi að segja við konuna þá gerast þær félagar, aðallega í krafti þess að vera einar konur á ferð. Elsa talar af stolti um Ísland og fær heimþrá. Hún fylgist illa með fréttum og veit því ekkert um hvað fólk er að tala þegar það byrjar að ræða um ástandið á Íslandi og hegðun hinnar bandarísku Cherry verður æ undarlegri og vafasamari. Í lokin situr Elsa við sjóinn og virðist gersamlega laus við það að vita hvað hún eigi af sér að gera, hún hugsar heim og um „hvað það er svart við strendur Reykjavíkur.“ (105) Myndin af ráðvilltri þjóð gæti varla verið skýrari – en jafnframt birtist hér sá óþægilegi ókennileiki sem fylgir svo mörgum sagnanna.

Þessi saga er auk þess dæmi um tök Kristínar á frekar gróteskum kynferðislegum undirtónum, en slíkir eru víðar og bera iðulega með sér tilfinningu fyrir grimmd og tilgangsleysi. Þó er ástin líka til staðar, safnarasagan er til dæmis öðrum þræði falleg ástarsaga. Sögurnar í Doris deyr spanna því breiðan tilfinningaskala, jafnframt því að hafa yfir sér heildaryfirbragð átakanlegrar fjarlægðar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010