Bíldshöfði

Höfundur: 
Höfundur umfjöllunar: 

Bíldshöfði

Bíldshöfði er fjórða ljóðabók Bjarna Gunnarssonar. Fyrri ljóðabók Bjarna, Moldarauki frá árinu 2010, fór ef til vill ekki hátt í fjölmiðlum en vakti engu að síður athygli íslenskra ljóðaunnenda og annarra lesenda sem kunna að meta lágstemmt hversdagsraunsæi og ljóðrænar hugleiðingar um samtímann. Þau stef má einnig finna hér og aftan á bókarkápu Bíldshöfða er minnst á hin mörgu samfélagslegu hlutverk hvers manns og þá ábyrgð sem þeim fylgir. Ljóðin geyma vísanir í samfélagslegt ástand, kreppu og hrun, en einnig hversdagslegar myndir sem sumar tengjast föðurhlutverkinu – af pabbanum sem fylgir barninu sínu í skólann, spjallar við það og reynir að útskýra lögmál heimsins fyrir því.  Þessir þræðir mynda kjarna ljóðabókarinnar, ásamt hugleiðingum um ljóðagerðina sjálfa, ferli hennar og hlutverk.

Titillinn Bíldshöfði er útskýrður aftast í bókinni í kafla sem ber heitið „Úr alfræðinni“.  Ég hef sennilega ekki verið sú eina að sjá fyrir mér götu í 110 Reykjavík þegar ég heyrði titilinn fyrst nefndan og ímynda mér að innviðir bókarinnar þræddu bílasölur og sveitta hamborgarastaði. Svo er ekki. Bjarni skapar ákveðið samhengi með því að setja saman orðin bíldur og höfði sem ramma inn þema bókarinnar. Bíldur vísar hér til gamals lækningaáhalds notað til að tappa af blóði í þeim tilgangi að losa líkamann við óholla vessa og kvilla. Höfuð gefur þar að auki til kynna að tiltekin veikindi tengist andlegu ástandi eða í það minnsta að einhver tengsl séu milli líkamlegs ástands og andlegs. Þetta er svo undirstrikað með teikningunni framan á bókarkápu sem sýnir sneiðmynd af heila.

Bíldshöfði hefur því lítið með áður nefnt hverfi í Reykjavík að gera, heldur vísar heitið í ljóðgerðina sjálfa sem tæki til að tappa af höfðinu og vinna gegn almennu óþoli. Ljóðin í bókinni eru lækningakúnstir, eins og titill fyrri hlutans segir til um, og þegar vel tekst til getur ljóðmælandi unnið á kvillanum sem plagar hann með yrkingum. Þessi tengsl á milli kvilla og ljóða eru mjög skörp í ljóðinu „Taka þrjú“ sem á yfirborðinu lítur út fyrir að vera ákaflega einfalt ljóð en á sér dýpri skírskotanir og verður áhrifamikið innan samhengis bókarinnar:

Leggst á bakið
hendur niður með síðum
anda rólega og leyfi ljósinu
að sneiða mig

Hver mynd er ljóð

 Titill síðari hlutans gefur þá hugmynd að lækningakúnstirnar beri ávöxt því  „... eitthvað fram á vor“ ber með sér fögur fyrirheit um nýtt ár, nýtt upphaf og hækkandi sól. En einhver írónía fylgir íslensku vori eins og ljóðið „Próf“ gefur til kynna: „Vorið er tími/hagléls og hnífa/við bítum á jaxla/og skerum/á öryggislínur.“ Bjartsýni að vori er því fallvölt og því engin rökleg niðurstaða leidd út frá skiptingunni fyrri og síðari hluti, fyrir og eftir. Eins og svo margt í heiminum virðist Bíldshöfði aftur á móti lúta lögmálum hringrásar sem stöðugt endurtekur sig. Upphöf ljóðabókarinnar eru því mörg og endurspeglast í „Taka“-ljóðunum, sem bera titlana „Taka eitt“, „Taka tvö“, og alveg upp í fimm, og raðað er á víð og dreif um verkið. Upphafsljóðin lýsa tilraunum til að hefjast handa við að yrkja, til að takast á við hugarangrið hverju sinni og losa um meinvörpin. Ljóðið „Hringrás“ vísar mjög augljóslega í þessa uppbyggingu:

Um æðarnar streyma orð
marglitar flögur sem mynda keðjur
tengjast og rofna
á víxl

þegar allt situr fast koma hvítu
ljóðakornin og höggva á hnútinn

Svo byrjum við upp á nýtt
með autt blað

Þetta stef er endurtekið í Bíldshöfða og lýsir ferlinu að yrkja, að höggva á (rit)stífluna og koma hugmyndum og orðum frá sér í ljóðform. Ljóðformið getur þannig komið á sáttum milli hins líkamlega ástands og andlega. Þetta er tjáð í ljóðunum „Praktísk spurning“ og „Önnur praktísk spurning“ sem er stillt upp sem andstæðum. Fyrra ljóðið tengir vinnugleðina, þegar vel gengur, við vinnulag náttúrunnar og guðlegt afl:

Margar hendur að störfum, þú finnur kraftinn
streyma og sérð fyrir þér vatn sem leitar upp eftir
trjástofni, allt frá dýpstu rótum út í fíngert limið.

Gæti þetta verið Guð?

 Það seinna lýsir angist sem fylgir verkvíða og ritstíflu sem að lokum endar í ruddalegri vöðvabólgu og magasári:

Harður hnútur neðan þindar og fjöll á herðum
sem hvarflar ekki að þér að biðja um aðstoð við
að færa úr stað

Er það ekki Helvíti?

Í Bíldshöfða má einnig finna ljóð sem lýsa fegurð hins smáa og hversdagslega á mjög skýran og eftirminnilegan hátt. „Út í bílskúr“ er gott dæmi um ljóð af þessum toga og ég skil vel ánægju ljóðmælanda með bílskúrinn sinn – bílskúrar og geymslur eru sveipuð dulmagni nostalgíu, fjarlægra tíma og minninga, og svo leynist þar ýmislegt sem getur komið skemmtilega á óvart:

Þurrka rykið af magnaranum
og sting gítarnum í samband

Aldrei að vita nema frystikistan
lumi á hjörtum

Bíldshöfði er forvitnileg ljóðabók sem skeytir hversdagslegum og hlýjum myndum fjölskyldulífs saman við samfélagslega ádeilu og óþol gagnvart samtímanum og notar til þess myndmál sjúkdóma. Hér verður ljóðlist og tjáning að lausn eða lækningakúnstum. Það eitt og sér er kannski ekki ný hugmynd en ákaflega falleg. Hugmyndin undirstrikar nauðsyn skáldskapar og getu til að sporna gegn ýmsum kvillum, hvort sem þeir eru af samfélagslegum toga eða tengjast innra lífi ljóðmælanda. Þrátt fyrir að pólitíkin í ljóðunum verði á köflum dálítið útþynnt og vísanir í kreppu þreytandi er Bíldshöfði bæði bitastæð og áhugaverð ljóðabók.

Vera Knútsdóttir, desember 2012