Auður

Ár: 
2010
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Konur í blíðu og stríðu

Vilborg er einn af fáum íslenskum höfundum sem skrifar sögulegar skáldsögur. Sögur hennar eru sögur kvenna og gerast annars vegar á árunum sem Ísland er að byggjast samkvæmt gömlum heimildum, það er kringum 900 (sögurnar um Korku og Auði) og hins vegar á 14. og 15. öld (Eldfórnin, Galdur og Hrafninn).

Auður fjallar um íslensku landnámskonuna Auði djúpúðgu áður en hún nemur hér land. Sagan segir frá uppvexti hennar á Tyrvist, sem tilheyrði Suðureyjum, og búsetu í Dyflinni á Írlandi eftir að hún giftist. Auður er höfðingjadóttir sem elst upp á stórbýli, en búinu er stjórnað af móður hennar, ömmu og öðrum konum þar sem faðirinn og annar karlpeningur er mestan part ársins í burtu í hernaði og hefur því ekki mikið að segja um daglegan rekstur býlisins. Vilborg lýsir vel daglegu lífi fólks á þessum tímum þar sem þrælahald er almennt en allir þurfa að vinna, hvaða stétt sem þeir tilheyra. Karlmenn fara í víking þegar vorar og koma til baka með herfang, meðal annars. þræla og búfénað. Heiðni er almenn meðal höfðingja en kristni farin að breiðast út, meðal annars gegnum þrælana sem margir koma frá Írlandi. Menn þessa tíma eru umburðarlyndir í trúmálum og ekki er gert mikið veður út af því að einn og einn fjölskyldumeðlimur láti skírast til kristinnar trúar. 

Auk Auðar eru móðir hennar, amma og systur í forgrunni ásamt hjákonu föður hennar, en með henni á hann dótturina Jórunni mannvitsbrekku. Jórunn og móðir hennar eru kristnar og þær sjá einnig fyrir óorðna atburði og kunna að lækna sjúka og særða. Enn önnur mikilvæg persóna er munkurinn Gilli, fyrrum þræll sem snýr aftur til Tyrvist undir því yfirskini að kristna systur Auðar, Þórunni hyrnu, og börn hennar. Þórunn er kona Helga magra sem hafði tekið kristna trú og vill að það sama geri kona hans og börn. Auður hrífst að kenningum munksins, en eins og segir á bókarkápu á vinátta þeirra eftir að verða henni dýrkeypt.

Sagan gerist meðal kvennanna og þeirra sem heima sitja, þræla og vinnuhjúa. Konurnar tala saman um karlana á heimilinu, það er sagt frá því þegar þeir koma heim og fara aftur en atburðir sögunnar eiga sér mestan part stað meðan þeir eru í burtu. Þetta á jafnt við um fyrri hluta sögunnar þegar Auður er ung og ógefin í föðurhúsum og þann síðari þegar hún er sest að í Dyflinni með manni sínum. Eini kaflinn þar sem karlar eru með sem gerendur í sögunni er frásögnin af brúðkaupi Auðar, enda erfitt að halda það án brúðgumans. Frásagnarhátturinn hæfir efni sögunnar fullkomlega, hann er hæfilega forn til að ná andrúmslofti þessa tíma, en jafnframt er bókin auðlesin og stíllinn verður aldrei stirður eða tilgerðarlegur. 

Nú er bara að bíða og sjá hvort að við fáum meira að vita um Auði og aðdraganda þess að hún nam hér land. Höfundur hefur greinilega lagt á sig mikla rannsóknarvinnu og á örugglega efni í aðra bók. Þetta er saga sem kveikir áhuga á landnámskonunni Auði, hún er skemmtileg og spennandi og því viljum við fá meira að heyra.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2009