Annarskonar sæla

Ár: 
2008
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

„Grensásvegurinn leiðir til heljar”

Það er eitthvað við ljóðið sem lagar sig betur að neðanjarðarstarfssemi í skáldskap, umfram önnur form. Þó er ljóðið líklega það form sem ber með sér mesta hefð og þyngstan farangur, skáldsagan er hins vegar ferskt og ungt form og ætti því að virka opið. En svo virðist sem skáldsagan hafi lagt sig í ákveðnar hæfilega afmarkaðar línur - sem höfundar eru þó stöðugt að rugla með - og því hefur ljóðið orðið að ákaflega víðum vettvangi tilraunastarfsemi hverskyns, hvort sem er í rituðu máli, flutningi eða jafnvel umbúningi, bókahönnun og samspili við myndefni. Fyrir nokkru hitti ég unga írska skáldkonu, gamla vinkonu mína, sem hafði þá troðið upp í nokkurn tíma með ljóða-gjörning, byggðan á sjálfsævisögulegri ljóðabók sinni. Hún varð grimm á svipinn þegar hún minntist athugasemdar kunningjakonu sinnar sem hafði tjáð henni að þetta hefði nú alveg verið gaman, en er það ljóð?

Í fyrstu tveimur bókum sínum, Kjötbærinn og Húðlit auðnin teygði Kristín Eiríksdóttir ljóðið ansi langt og hefur sjálfsagt boðið uppá nákvæmlega samskonar athugasemd. Í þeirri þriðju, Annarskonar sæla, er hún enn að föndra við form ljóðsins en þó ekki á eins róttækan hátt og fyrr; hér birtast textar sem í útliti líkjast meira því sem hefð er fyrir að kalla (nútíma)ljóð. Sem fyrr er umbrot bókarinnar, myndefni og framsetning allóvenjulegt, á bókarkápu er að finna allskyns letur, setningabrot, orð, orðaflæði og bull innanum það sem virðist vel geta verið brot úr ljóðum. Ofaná þessum marglita fleti orða er mynd af hestum sem kannski eru þeir sem lýst er í einu ljóðinu: „yfir rúminu hangir mynd af hestum / þeir hlaupa í vatni / einhversstaðar í myndinni eru göng / þau leiða annað”. Seinna birtast hestarnir aftur þegar ljóðmælandi „leggst á hjónarúmið / leita að útgönguleið / glampa í auga hestsins”.

Ljóðabókin Annarskonar sæla inniheldur fjögur ljóð, eða fjóra ljóðabálka. Í þeim fyrsta, „Leiðin”, erum við stödd erlendis, þar ferðast ljóðmælandi um í sporvögnum og hugsar um tilveruna, tímann, dauðann, fegurð og vax, svo dæmi séu tekin. Erindin enda flest á orðunum „annarskonar sæla / hvernig” og vitna þannig um leit að einhverskonar samhengi eða tilgangi, eða bara tilfinningu. Ljóðlínan flakkar strítt milli ólíkra atriða sem á stundum mynda heillega mynd eins og í erindinu um ljósið, sem „brýst gegnum smæstu rifur / um rafmagnið / sem leitt er um snúrur úr járni og gúmmíi / og taugar / ég hugsaði um taugar sem slengjast saman af vana / orsaka vellíðan hungur / þrá eftir ákveðnu formi bragði / ég hugsaði um sellur sem eyðast / sársauka / deyfingu verkjalyf vöðvaslakandi”. En það er alls ekki alltaf sem slík samfella myndmáls myndast, stundum sundrast myndin og ferðast víða og óreglulega. Í báðum tilfellum skapast sterk áhrif og líkt og í fyrri bókum höfundar myndast rík tilfinning fyrir undirliggjandi ólgu.

Ólgan er sömuleiðis til staðar í hinum þremur ljóðunum, en þó hvergi eins sterk. Í næsta ljóði, „Ástin og eilífðin”, erum við stödd á Íslandi og hversdagsleiki hins borgaralega lífs er yfirgnæfandi og þrúgandi eins og kemur fram í ljóðlínunni sem þjónar hér sem fyrirsögn: „Grensásvegurinn leiðir til heljar”. Myndin af hestunum sem áður er vitnað til undirstrikar sömuleiðis ofurkunnuglegan veruleika. Þriðja ljóðið nefnist „Kynlíf og dauði” og þar fer að bera á sterkari pólitískum tónum sem síðan taka mikið til yfir í síðasta ljóðinu, „Stóri hvíti maður”, en þar gefur fyrirsögnin viðfangsefnið greinilega til kynna. Þrátt fyrir nokkra sterka spretti er þetta ljóð það veikasta í bókinni og líður dálítið fyrir klisjur.

Klisjur eru þó að öðru leyti það síðasta sem lesandi tengir við ljóð Kristínar. Þau eru fyrst og fremst fersk, sterk og næstum skerandi þegar best lætur, teiknuð lausum rásandi og lifandi línum sem smeygja sér stöðugt undan fingrum lesandans sem kannski er líkt farið með og parinu í „Ástinni og eilífðinni”, „þráum morð / heit lík og / eitthvað / sem við skiljum ekki”.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 200