Beint í efni

Pósthússtræti 5

Málfríður Einarsdóttir

Fyrsta bók Málfríðar Einarsdóttur (1899-1983), Samastaður í tilverunni, kom út þegar hún var á áttræðisaldri og vakti mikla athygli. Hún bjó lengi á efstu hæð pósthússins í Austurstræti, þar sem maður hennar Guðjón Eiríksson var húsvörður.
Það vakti furðu að svo snjall rithöfundur skyldi brjótast fram á sjónarsviðið svo seint á æviskeiði sínu, en Málfríður hafði þó lagt stund á ritstörf um árabil áður en hennar fyrsta bók fékkst útgefin. Auk sjálfsævisögulegra bóka hennar og skáldverka birtust kvæði og greinar eftir hana í tímaritum og dagblöðum og var hún einnig mikilvirkur þýðandi.

Bækur Málfríðar einkennast þær af frumlegum efnistökum og persónulegum tóni, sem átti sér fáar hliðstæður í íslenskum bókmenntum. Efni þeirra er sjálfsævisögulegt, en Málfríður fylgdi ekki hefðbundinni forskrift bókmenntagreinarinnar um línulega frásögn frá fæðingu til samtíðar. Frásögn verkanna er brotakennd og samhengið ekki ávallt á reiðum höndum, enda textarnir skrifaðir á löngum tíma með hléum og innskotum.

Málfríður þjáðist af berklum um áratuga skeið og var lengi rúmföst sökum vanheilsu. Hún var að sögn sískrifandi, en eftirfarandi ritaði skáldið, og útgefandi Málfríðar, Sigfús Daðason í minnargrein um hana: „Málfríður Einarsdóttir var rithöfundur fram í fingurgóma, haldin þeirri ástríði rithöfundar sem nálgast grafómaníu. Hún skrifaði á hverjum degi ef nokkur tök voru á: nulla dies sine linea, og ég hygg að síðustu línurnar hafi hún skrifað föstudaginn 21. október, en 22. október veiktist hún og var flutt á spítala. Hún dó síðdegis 25. október.“

Úr Samastað í tilverunni 

„Ætíð hef ég átt samastað, að minnsta kosti hefur aldrei farið svo, að ég hafi þurft að vera hvergi. Að vísu hafa mér lokast staðir allfáir, enn fleiri aldrei opnast, á nokkrum fékk ég að hanga fyrir náð og vegna þess að lög banna að sjúkum sé úthýst úr sjúkrahúsum ef þeir brjóta ekki lög og reglur. Á heimili mínu hinu núverandi hef ég fengið einna lengst að vera. Annar sá staður sem ég dvaldist lengi á var bernskuheimili mitt, og átti ég þar reyndar ekki stað sem ég mætti kalla minn, eða væri óhult fyrir amasemi eða öðru verra; svefnstað hafði ég fyrir ofan föðursystur mína í rúmi hennar, og henni þótti vænt um þennan krakka sem enginn átti. Þetta var þröngur staður, en staður engu að síður, en þó er ég ekki fyllilega viss um að þarna hafi verið líft í eiginlegri merkingu þó ég lifði eða tórði réttara sagt. Kuldinn var mikill, hann kallaðist trekkur. Fyrir utan þetta litla, ömurlega hús, sem ekki var samastaður minn nema að ósköp litliu leyti, tók við vilpan. Í hana var ekki gott að stíga. Utan vilpunnar tóku við aðrar vilpur. Víðast var illfært. Þó kom það fyrir, að sól skini úr heiði og túnið væri þurrt, jafnvel að skondra mætti út fyrir það og koma fyrir trémönnum í vegglægju, þar sem þeir áttu að eiga bústað. Því mér var það áskapað að vilja ætla öllu samastað, einkum því sem gleymst hafði eða orðið út undan.“

Málfríður Einarsdóttir, Samastaður í tilverunni, 2008: Forlagið (1. útgáfa, 1977: Ljóðhús)