Beint í efni

Ófeigur Sigurðsson

Æviágrip

Ófeigur Sigurðsson er fæddur í Reykjavík 1975. Hann stundaði heimspekinám við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi þaðan árið 2007. Hann hefur gegnt ýmsum störfum, m.a. flutt pistla í útvarp, en starfar nú sem rithöfundur.

Fyrsta bók Ófeigs var ljóðabókin Skál fyrir skammdeginu sem kom út árið 2001. Árið 2005 kom út fyrsta skáldsaga hans, Áferð. Árið 2010 kom út önnur skáldsagan Ófeigs sem fyrst vakti verulega athygli á höfundinum, Skáldsagan um Jón og hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur og undirbjó komu hennar & nýrra tíma, en þar segir frá Jóni Steingrímssyni eldklerki sem uppi var á 18. öld.

Ófeigur sendi frá sér skáldsöguna Landvætti árið 2012 og árið 2014 kom út Öræfi sem hlaut mikið lof hjá gagnrýnendum og varð metsölubók. En fyrir hana hlaut Ófeigur bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. 

Ófeigur hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2011 fyrir skáldsögu sína um Jón en hún var fyrst íslenskra skáldverka til að hljóta þau. Bækur Ófeigs hafa verið þýddar og gefnar út í Evrópu og Bandaríkjunum. Auk þess sem hann hlaut tilnefningu til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á Verndargrip Roberto Bolano.