Beint í efni

Gula spjaldið í Gautaborg

Gula spjaldið í Gautaborg
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið. Fyrri bækur Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda og Aukaspyrna á Akureyri sem kom út í fyrra hlaut Bókaverðlaun barnanna, þar sem lesendur sjálfir velja bestu bók ársins.

Eins og áður er gripið niður í líf Jóns, sem nú er orðinn 13 ára, þar sem hann er á leiðinni á fótboltamót með félögum sínum í Þrótti. Nú er það stórmótið Gothia Cup í Gautaborg í Svíþjóð sem er framundan og þar verða lið frá öllum heiminum að keppa. Mikil spenna liggur í loftinu í flugvélinni á leiðinni út enda vélin full af fótboltakrökkum á leiðinni á mótið. Jón er þó annars hugar því hann hefur dreymt undarlega drauma upp á síðkastið sem hann er alveg handviss um að séu fyrirboðar um eitthvað slæmt.

Jón ætlar að leysa nokkur verkefni í Svíþjóð. Fyrst og fremst ætlar hann að spila fótbolta en svo þarf hann líka að leysa úr flóknu ástarlífi sínu og ákveða hvort hann sé skotinn í Rósu, sem er einmitt líka á leiðinni á mótið, og hvað hann eigi þá að gera í því. Svo ætla hann og Skúli vinur hans að reyna að sannfæra Ívar um að hætta að heimsækja pabba sinn. Ívar er vinur þeirra og liðsfélagi sem hefur verið í fóstri hjá fjölskyldu Skúla allan veturinn en er nú í heimsókn hjá pabba sínum sem býr einmitt í Gautaborg. Strákarnir hafa oftar en einu sinni bjargað Ívari frá pabba sínum og nú er komið að því að gera það í eitt skipti fyrir öll. Jón þarf líka að gera eitthvað í þessum ógnvekjandi draumum en hann veit af reynslunni að það er best fyrir hann að taka mark á því sem hann dreymir. Hann er sannfærður um að draumarnir bendi til þess að einhver muni deyja í ferðinni nema hann finni leið til að koma í veg fyrir það.

Þegar Jón og vinir hans eru ekki að keppa nota þeir tækifærið og skoða sig um, fara í tívolí og á ströndina en lýsingar á umhverfi eru lifandi og sögusviðið verður mikilvægur hluti sögunnar. Strákarnir hitta krakkana úr hinum liðunum, skemmta sér vel og eignast nýja vini. Tóti, pabbi Ívars, er mikið með þeim og þó að hann virðist hafa tekið sig á veit Jón ekki hvort hann eigi að treysta honum eftir allt sem á undan er gengið. En svo skýtur gamall óvinur upp kollinum í Gautaborg og er með ógnandi yfirlýsingar við Jón. Þá er gott að hafa Tóta nálægt. Það er eitthvað meira en lítið skrítið í gangi á þessu móti og Jón verður að komast að því hvað það er.

Eins og áður er Jón sjálfur sögumaður og fær lesandinn þannig alfarið sjónarhorn hans á það sem gerist. Hann lýsir leikjunum af mikilli innlifun og auðvitað öðrum atburðum og samskiptum við bæði hina krakkana og þjálfarana. Jón er sannfærandi sögumaður sem ávarpar lesandann reglulega og grínast við hann um framhald sögunnar. Hann hefur húmor fyrir sjálfum sér og dregur ekkert undan, hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum í frásögninni. Hann hefur líka gaman að því að kynda undir lesandanum, þegar allt virðist leika í lyndi í lok kafla skilur hann eftir vísbendingar um það sem koma skal og byggir þannig upp spennu fyrir lokum sögunnar. Án þess að farið sé út í nein smáatriði stendur endirinn fullkomlega undir væntingum, hann er æsispennandi og kemur svolítið á óvart.

Atburðarrásin í sögunni er hröð og grípandi. Ógnvekjandi og dularfullir draumar Jóns fléttast saman við leikskýringar og flókið ástarlíf hans. Lýsingarnar á lífinu í skólanum, samfélaginu sem myndast þar og andrúmsloftinu eru afskaplega trúverðugar, samtöl krakkanna og samskipti sömuleiðis. Jón er auðvitað sú persóna sem verður hvað skýrust í huga lesandans en aukapersónur fá einnig rými og eru ágætlega mótaðar. Viðsnúningur Tóta er einnig nokkuð sannfærandi. Hann hefur snúið við blaðinu en það fer ekkert á milli mála að þó hann leggi sig fram  um að standa sig geti enn brugðið geti til beggja vona. Efasemdir Jóns um Tóta eru trúverðugar og endurspegla það sem lesandinn er líklega að hugsa, hvort sé virkilega óhætt að treysta honum.

Í þessari síðustu bók um Jón Jónsson er margt sem breytist í lifi hans. Hann tekur stórar ákvarðanir, kynnist fólki upp á nýtt, tekur ábyrgð og tekur áhættu, og það oftar en einu sinni. Lýsingar Jóns á leikjunum og heimi fótboltans eru þannig gerðar að þær geta bæði höfðað til fótboltaáhugamanna og annarra, liðsandinn og spennan í leiknum eru í fyrirrúmi. Vinátta og fjölskylda eru í aðalatriði í sögunni og lögð er áhersla á samheldni og heiðarleika. Gula spjaldið í Gautaborg er bók fyrir alla og stenst að öllu leyti samanburð við fyrri bækur; hún er spennandi, fyndin og tekur á ýmsum málum sem er mikilvægt að tala um.

María Bjarkadóttir, desember 2014