Beint í efni

Sólskinsrútan er sein í kvöld

Sólskinsrútan er sein í kvöld
Höfundur
Sigfús Bjartmarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2001
Flokkur
Ferðasögur

Úr Sólskinsrútan er sein í kvöld:

Þrautabið eftir sæti og önnur eftir brottför athanans

Teinarnir inn í Mexíkóborg bjóða uppá langtum flottara útsýni en hraðbrautirnar. Lestin er líka svo væn að vera ýmist stopp eða silast um heim sem er ætlað að hnigna og deyja úr elli eins og lestarkerfinu. Þangað til það tekur andvörpin fá beinagrindur mannvirkjanna að ryðga, molna og fúna í ótrúlegu illgresinu. Af og til minnir rústrauð vél á forsögulega skepnu og svo skýtur upp draug gamallar lestarstöðvar. Það er furðu lítið um að framtakssamir fátæklingar hafi nýtt sér handhægan efnivið ryðhauganna til að koma sér upp kofaþaki á staðnum og því er fátt um sæla krakka í þessum ævintýralöndum.
 Annar klassinn hefur það alltaf út úr borginni þó maður efist um það leiðinlega lengi. Vonir mínar um að fá fljótlega sæti urðu að engu þegar ég frétti að í dag væri markaðsdagur í bæ sem lá að minnsta kosti tvo tíma inni í framtíðinni. Ég hafði gleymt því grundvallaratriði að forðast þá daga eins og pestina sem er orðalag við hæfi því hænsn og svín eru fljót að metta loftið í einum lestarvagni. Auk þess hafa þau leiðinda lag á því að lenda fyrir löppunum þegar fótheilsan krefst tilfæringa um ósýnilegt gólfið.
 Í markaðsbænum fóru færri út en komu í á leið til annars markaðsbæjar sem lá álíka langt inni í framtíðinni og þar mátti svo allt eins búast við að markaðslögmálin rækju íbúana með sama hætti í minna framboð.
 Ég var farinn að sjá fyrir mér endalausan dómínóeffekt þegar við drulluðumst loks inn á stöð sem gleypti fullt af fólki og fénaði. Viðskiptafjörið var svo fínt að mér sýndust háskalegar mannraunir að komast í gegnum stöðina.
 Eftir þetta fóru yfirleitt fleiri en komu og undir rökkur settist ég loks þreyttur og sveittur og sjúskaður og fannst ég eiga inni öl og samloku. Eftir það dottaði ég víst og leit næst upp í glyrnurnar á athana. Goggurinn var nýbrýndur að sjá og hann var að belgja sig alveg sérstaklega út af þeirri heimsku grimmd sem er prógrammeruð í örheilann. Sem betur fór var hann í tjóðri en það var samt nógu langt til að goggurinn næði í augun ef ég dottaði fram á við. En hann var þó ekki með stálsporana. Eigendahelvítið sá aðspurt ekkert athugavert við að einkasonurinn krafsaði sig upp bringuna, greip hann að vísu umbeðinn og setti í keltuna, en hleypti honum óðara upp aftur. Jú, haninn væri í tjóðri, ég skyldi bara halla mér aftur, hann færi rétt bráðum.

(s. 242-243)

Fleira eftir sama höfund

Das Licht dieser Welt

Lesa meira

Raptorhood

Lesa meira

Speglabúð í bænum

Lesa meira

Verndarengill

Lesa meira

Tröllasögur : skáldsagnir

Lesa meira

Án fjaðra

Lesa meira

Beint af augum

Lesa meira

Allra átta

Lesa meira

Drekkhlaðinn kajak af draugum : sagnir Ínúíta

Lesa meira