Beint í efni

Fríar rafbækur á pólsku

CZYTAJ PL - LESTU PL!

Bókmenntaborgin Kraká í Póllandi, sem er systurborg Reykjavíkur í Samstarfsneti skapandi borga UNESCO, býður pólskumælandi lesendum í Reykjavík og nágrenni upp á fríar rafbækur núna í nóvember 2018. Þetta eru tólf vinsælar bækur sem lesendur geta nælt sér í með því að skanna rafrænan kóða á veggspjaldi sem hangir uppi víða á höfuðborgarsvæðinu.

Afar einfalt er að ná sér í bækurnar, kóðinn veitir aðgang að fríu smáforriti sem geymir bækurnar tólf og getur fólk því hlaðið því niður á síma eða annað snjalltæki. 

Veggspjöldin hanga uppi á eftirtöldum stöðum:

Pólska sendiráðinu, Þórunnartúni 2

Borgarbókasafni Reykjavíkur í Grófinni, Hraunbæ, Spönginni, Gerðubergi, Sólheimum og Kringlunni.

Þjónustumiðstöðvum Reykjavíkur:
Efstaleiti 1;  Laugavegi 77; Hraunbæ 115; Álfabakka 12; Gylfaflöt 5, Grafarvogi

Mini market, Drafnarfelli 6 

Versluninni Iceland, Vesturbergi 

Euro market, Hamraborg 9, Kópavogi

Euro market, Smiðjuvegi 2, Kópavogi

Dósaverksmiðjunni (Tin Can Factory), Borgartúni 1

Málaskólanum Retor, Hlíðarsmára 8, Kópavogi

Háskóla Íslands - Stúdentakjallarinn

Verkefnið kallast CZYTAJ PL eða LESTU PL og er það samvinnuverkefni Bókmenntaborgarinnar Krakár, pólsku bókmenntamiðstöðvarinnar, pólskra útgefenda, menntamálaráðuneytis Póllands og fleiri stuðningsaðila. Því er ætlað að vekja athygli á bókum, hvetja til lesturs og ekki síst að ná til nýrra lesenda á förnum vegi sem að öðrum kosti myndu ef til vill ekki nálgast bækur til yndislesturs. Bækurnar eru allar ætlaðar fullorðnum lesendum. 

Með því að bjóða fólki í Reykjavík aðgang að bókunum vill Kraká tengjast pólskumælandi lesendum í systurborg sinni, Bókmenntaborginni Reykjavík. Verði framhald á verkefninu mun Bókmenntaborgin áfram koma bókunum á framfæri við reykvíska lesendur.