Beint í efni

Misskilningur vindur upp á sig

Misskilningur vindur upp á sig
Höfundur
Embla Bachmann
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Stelpur stranglega bannaðar! eftir Emblu Bachmann er fjörug og skemmtileg saga sem fjallar meðal annars um það að vera þrettán ára og hvað það getur verið óskaplega flókið. Misskilningur milli bestu vinkvenna og óvænt leyndarmál í fjölskyldunni hefur mikil áhrif á líf aðalpersónunnar, sem kemst að því að breytingar geti vissulega virkað ógnvekjandi, en geti samt sem áður líka haft eitthvað gott í för með sér. Stelpur stranglega bannaðar! er fyrsta bók höfundar, sem er aðeins sautján ára gömul sjálf. Hún man því líklega vel hvernig er að glíma við tilfinngingarótið sem fylgir því að verða unglingur og stíga sín fyrstu skref í átt að fullorðinsárunum.

Sagan hverfist um Þórdísi, sem er þrettán ára og frekar ánægð með lífið, allt er eins og það á að vera að hennar mati. Hún á fínustu foreldra og tvo ágæta bræður og svo að þar að auki skemmtilega og samheldna fjölskyldu sem samanstendur af móðurömmu hennar, þremur móðursystrum og heilum haug af frændum. Samband Þórdísar við ömmu sína er sérstaklega sterkt og hún er alveg með það á hreinu að það er vegna þess að hún er eina stelpan af barnabörnunum. Auk fjölskyldunnar á Þórdís líka bestu vinkonu, Sunnevu, sem hún hefur þekkt síðan í fyrsta bekk. Þær stöllur eru algerar samlokur og gera helst allt saman.

Líf Þórdísar er allt í föstum skorðum í upphafi sögunnar. Hún hangir með Sunnevu eins mikið og hún getur, bæði í skólanum og eftir skóla, heimsækir ömmu sína og hittir móðursystur sínar og frændaskarann reglulega í fjölskylduboðum. Mamma hennar rekur tískuvöruverslun með systrum sínum og þangað fer Þórdís oft til að máta fyrir þær nýjustu tísku svo þær geti séð hvaða vörur henta í búðina hjá þeim. Hún er miðpunktur allrar athygli í fjölskyldunni og finnst það alveg meiriháttar. Öllu er hins vegar umturnað þegar hún rekur óvart augun í sónarmynd í síma ömmu sinnar og dregur þá rökréttu ályktun að einhver af dætrum ömmu hennar sé ófrísk. Þórdísi finnst þetta alveg hræðilegar fréttir. Hún er alls ekki spennt fyrir því að fá nýtt systkini eða frændsystkini, sérstaklega þar sem það gæti mögulega orðið stelpa og hún yrði þá ekki lengur uppáhald ömmu sinnar. Þórdís hefur enga hugmynd um hverri af systrunum fjórum myndin tilheyrir, en mamma hennar kemur sterklega til greina og það er alls ekki gott að mati Þórdísar. Hún verður að komast til botns í þessu máli svo hún geti undirbúið sig andlega ef hún skyldi missa stöðu sína í fjölskyldunni, en henni tekst ekki að fá fullorðna fólkið til að gefa neitt upp. Þórdís deyr samt ekki ráðalaus og nær á ansi hugmyndaríkan hátt að finna ýmsar vísbendingar, sem henni líst hreint ekkert á. Hún ákveður að fá tvo af eldri frændum sínum með sér í spæjaraleik, en þegar er verið að hnýsast í leyndarmál annarra fær maður oft ekki alla myndina og þá er auðvelt að fara að skálda í eyðurnar.

Á sama tíma og hún stendur í þessu brasi byrjar ný stelpa í bekknum hennar. Stelpan, sem heitir Aníta, verður strax vinsæl meðal hinna krakkanna, enda er hún frábær í alla staði, skemmtileg, hress og alltaf í góðu skapi. Þórdísi finnst hún reyndar alls ekki eins merkileg og hinum krökkunum og hefur engan áhuga á að kynnast henni, en meira að segja Sunneva er alveg heilluð. Allt í einu er Sunneva alltaf að gera eitthvað með Anítu og virðist alveg gleyma því að þær Þórdís hafi nokkurn tíman verið vinkonur. Þórdísi finnst hún alein í heiminum án Sunnevu og henni dauðleiðist, en hún fær sig samt ekki til að segja neitt. Hún dregur sig inn í skel og er mjög einmana og útundan.

Sagan er sögð frá sjónarhorni Þórdísar, sem segir skemmtilega frá og skýtur skondnum og oft skörpum athugasemdum inn í frásögnina. Hún lýsir til dæmis nágranna ömmu sinnar, sem þolir ekki börn og alls ekki öll barnabörnin hennar ömmu, á þann veg að hann sé “leiðinlegri en heimanám” (72). Svandísi móðursystur sinni lýsir hún sem týpunni “sem þrífur ryksuguna sína með annarri minni ryksugu” (70) sem henni finnst vera til marks um yfirgengilega snyrtimennsku hennar. Þórdís er mikil tilfinningavera og henni finnst afskaplega erfitt að standa frammi fyrir þeim breytingum sem eru að verða á lífi hennar. Hún veit að hún ætti ekki að vera að njósna um fjölskylduna sína og fær samviskubit yfir því þegar hún hlerar samtöl sem koma henni ekki við, en hún ræður hreinlega ekki við sig. Tilfinningum hennar er lýst af miklu innsæi og þrátt fyrir að lesandanum sé ljóst að hún taki ekki alltaf skynsamlegar ákvarðanir, getur hann ekki annað en að finna svolítið til með henni.

Vinkonumálið leysist að mestu þegar Sunneva og Þórdís eru óvænt einar saman og ná að ræða málin sín á milli. Þórdís áttar sig á því að þó það sé erfitt er stundum bara best að segja það sem manni býr í hjarta, til að koma í veg fyrir að fólk fari að draga ályktanir sem gætu verið kolrangar. Þær Sunneva sammælast um að vera áfram bestu vinkonur en gefa öðrum líka séns, og Þórdís sér að stundum er jafnvel skemmtilegra að vera þrjár saman. Óvissan í kringum barnið leysist ekki eins auðveldlega þó komi fljótt í ljós hver systranna á von á barninu, en hinir verðandi foreldrar gefa ekkert upp um kyn barnsins. Þórdís þarf því að velkjast um í vafa fram að fæðingu þess og nær að ímynda sér alls konar sviðsmyndir þar sem enginn hefur áhuga á henni lengur eftir að barnið fæðist. Hún lærir samt smátt og smátt að lífið er ekki alltaf fyrirsjáanlegt og oft er ekkert sérstaklega gagnlegt að ímynda sér hið versta.

Stelpur stranglega bannaðar! er skrifuð í léttum og gamansömum dúr, en lýsir því hvað það getur verið ótrúlega snúið að vera unglingur og takast á við flóknar tilfinningar. Fjölskyldan og vinirnir leika stórt hlutverk í lífi flestra á unglingsárunum en hlutverk og samskipti taka breytingum sem oft er erfitt að aðlagast og sætta sig við. Þórdís er alls ekki tilbúin í þessar breytingar en kemst samt að því að oft verður ekki hjá þeim komist og það þarf ekkert endilega að vera neikvætt að hlutir breytist, stundum getur það meira að segja verið af hinu góða.
 

María Bjarkadóttir, desember 2023