Beint í efni

Snjór í paradís

Snjór í paradís
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Meginstef þessarar bókar eru nánustu sambönd fólks; hjóna, foreldra og barna, elskhuga og vina; og hvernig hið leyndasta í lífi sérhvers manns, það sem hugur einn veit, getur breytt öllu komi það upp á yfirborðið. 

 

Úr bókinni

Hann var að fylgjast með snjókomunni. Síðustu daga hafði snjóað öðru hverju en það var ekki fyrr en þau voru að búast til brottfarar um morguninn að orð var á því gerandi. Þetta voru stórar flygsur sem svifu svo hægt og hljótt til jarðar að það hefði verið hægt að sofna við að horfa á þær. Ekki dró úr ofankomunni á leiðinni á flugvöllinn og ekki heldur eftir að þau innrituðu sig, þá var allt orðið hvítt umhverfis flugstöðina.
   Snjórinn kom illa við Kristínu sem óttaðist að hann kynni að setja flugið úr skorðum. Hún gat ekki stillt sig um að hafa orð á því við Harald sem virtist hins vegar engar áhyggjur hafa heldur beinlínis njóta þess að fylgjast með flygsunum svífa til jarðar, ekki síst þegar snjókoman þéttist og vindurinn fór að eiga við hana. Kristín spurði starfsfólk flugfélagsins hvort hætta væri á seinkun, bæði þegar þau innrituðu sig og líka þegar þau voru komin að hliðinu. Starfsfólkið sagðist ekkert vita enn.
   Kristín hafði stöðugt auga með Haraldi. Þótt svipurinn virtist hlutlaus reyndi hún að lesa úr honum einhverja vísbendingu um hvaða hugsanir bærðust á bak við hann. Hún var þolinmóð og bjartsýn að eðlisfari og hafði ítrekað við sjálfa sig meðan hún setti ofan í ferðatöskuna um morguninn að það sem hefði komið yfir hann á meðan dvöl þeirra stóð hlyti að verða eftir á jörðu niðri þegar flugvélin færi á loft.
   Nú brann hún í skinninu að ganga um borð, horfa á eiginmann sinn spenna sætisólar, hlusta á flugstjórann segja þeim hvað ferðin yrði löng og minna þau sem vekti á að missa ekki af ljósadýrðinni yfir norðupólnum. En snjónum kyngdi niður og starfsfólkið stakk saman nefjum og farþegarnir horfðu með áhyggjusvip hver á annan.
   Snjórinn þakti flugbrautirnar og bílana sem óku um með töskur farþeganna og vængi flugvélanna, líka þeirrar sem beið við hliðið. Það fennti í slóð bílanna sem héldu áfram för sinni til og frá flugvélunum, löturhægt að vísu.
   Þegar starfsmaður flugfélagsins ávarpaði loks farþegana stóð Kristín við borðið fyrir framan hann. Haraldur sat hinsvegar við gluggann og horfði út í snjókomuna. Hann sneri sér samt aðeins við þegar starfsmaðurinn hóf mál sitt en stóð ekki á fætur.
   Starfsmaðurinn var skýrmæltur og greinargóður. Hann sagði hvorki of margt né of fátt, talaði af stillingu, reyndi að hughreista farþegana án þess þó að lofa upp í ermina á sér. Þegar hann virtist hafa lokið máli sínu var allt í einu eins og honum fyndist hann hafa gleymt einhverju. Hann bar hljóðnemann aftur að vörum, ræskti sig dálítið og bætti við afsakandi:
   Það snjóar eiginlega aldrei í Tókýó.

(s. 54-56)

Fleira eftir sama höfund

Málverkið

Lesa meira
játning

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.
Lesa meira

Markaðstorg guðanna

Lesa meira

Aldingarðurinn

Lesa meira

Retour en Islande

Lesa meira

Sakleysingjarnir

Lesa meira

Minnenas palats

Lesa meira

Una passeggiata nella notte

Lesa meira

Fjögur hjörtu

Lesa meira