Beint í efni

Miðillinn

Miðillinn
Höfundur
Sólveig Pálsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Á köldum vetrarmorgni er rannsóknarlögreglan kölluð út að Hólavallagarði. Innan um þá sem þar hafa verið lagðir til hinstu hvílu finnst lík eldri konu og fljótt er ljóst að dauðdaga hennar hefur borið að með saknæmum hætti. Hver getur hafa átt eitthvað sökótt við þessa eldri konu sem virðist hafa verið hlédræg, vanaföst og einförul? Þegar rannsókninni miðar áfram er greinilegt að ekki var allt sem sýndist í lífi konunnar og Guðgeir Fransson og teymi hans eiga fullt í fangi með að leysa þetta dularfulla mál sem meðal annars leiðir þau á miðilsfundi og djúpt í þyrnum stráða fortíð fórnarlambsins.

Úr bókinni

Nóttin var erfið. Valþór svaf aðeins stutta stund í einu og dreymdi þá illa, á milli dúra lá hann vakandi með kvíðann eins og viðbjóðslegt nagdýr inni í brjóstinu. Arnhildur var nærri, hann fann það. Hún átti við hann erindi sem hann var hreint ekki viss um að hann vildi sinna. Um klukkan hálf sex gafst hann upp við að reyna að ná svefni og fór á fætur. Klæddi sig í fötin og hvolfdi í sig kaffibolla áður en hann fór í hlýja úlpu og setti á sig húfu. Þannig búinn öslaði hann snjóinn í köldu morgumyrkrinu. Í sofandi götunni var ekki sála á ferli. Ákveðnum skrefum gekk hann niður Þingholtin og enn rösklegar upp Skothúsveginn yfir Tjarnarbrúna. Hann hægði á göngunni þegar steinsteyptur veggur kirkjugarðsins var í augsýn. Hjarta hans sló óreglulega, hann fann fyrir andþyngslum og vissi að nú gengi hann í spor Arnhildar. Skynjun hans varð enn sterkari þegar hann beygði niður Suðurgötuna og gekk meðfram garðinum. Hann gjóaði augunum öðru hvoru yfir steinvegginn á misháa legsteinana en horfði þó mest niður fyrir fætur sér. Arnhildur var með honum í för. Á því lék enginn vafi og hann fann það í hverri taug líkama síns. Hún gekk ýmist við hlið hans eða rann saman við líkama hans. Þarna var staðurinn þar sem ljósastaurinn var bilaður og engin hús handan götunnar. Andardráttur hans þyngdist og honum fannst sem krumla tæki sífellt fastar um hjarta hans. Hann hraðaði göngu sinni til að komast sem fyrst framhjá þessum skelfilega stað. Í óðagotinu rak hann tána í ójöfnu á gangstéttinni og var næstum dottinn fram fyrir sig. Það var ekki fyrr en hann var kominn alla leið á Hofsvallagötu að honum tók að létta en þótt hann væri eftir sig þá hélt hann áfram yfir í gamla Vesturbæinn. Með hverju skrefi sem hann tók þyngdi honum aftur og þegar hann stóð fyrir framan rauða húsið fann hann hvernig nístandi sorgarblandin skelfing gagntók líkama hans og sál. Skjálfandi starði hann á dimman glugga með gylltri jólastjörnu. Ljósið var slökknað.

(s. 118-119)

 

Fleira eftir sama höfund

Flekklaus

Lesa meira

Hinir réttlátu

Lesa meira

Leikarinn

Lesa meira

Refurinn

Lesa meira

Fjötrar

Lesa meira

Eiskaltes Gift /

Lesa meira

Tote Wale

Lesa meira

Klettaborgin

Lesa meira