Beint í efni

Hótelsögur

Hótelsögur
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Una útgáfuhús
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Smásagnasafnið Takk fyrir komuna geymir safn hótelsagna og ljóða eftir meistaranema í ritlist við Háskóla Íslands, en það eru nemar í ritstjórn sem sjá um að ritstýra verkinu. Aftan á bókarkápu er tekið fram að Hótel Saga sé helsta sögusvið sagnanna og sögurnar fjalla margar hverjar um hótelið sem hefur verið áberandi kennileiti í Reykjavík um langt skeið en hefur nú verið lokað. Byggingin stendur þó áfram og mun, þegar fram líða stundir, hýsa starfsemi sem tengist Háskóla Íslands. Það verður áhugavert að ganga um ganga hótelsins í öðrum erindagjörðum en þeim að sækja fermingarveislu í Súlnasal, erfidrykkju í Sunnusal og hamingjustund við Mímisbar, en við lestur smásagnanna kviknaði á öllum þeim minningum sem undirrituð á um þennan merka reit í sögu borgarinnar. Framan á kápu bókarinnar má virða fyrir sér hringað gullmynstur sem vísar í gullstiga hótelsins og kemur oftar en einu sinni við sögu í safninu.

En hvað er hótelsaga? Er það grein í bókmenntum? Stutta svarið er já, alveg örugglega. Upp í hugann kemur Grand Budapest Hotel sem er reyndar ekki bók en kvikmynd sem byggir á höfundarverki austurríska rithöfundarins Stefan Zweig (1881-1942), einna helst sjálfsævisögu hans, því klassíska verki Veröld sem var (1942). Þá hef ég lesið um hvernig Wes Anderson, leikstjóri myndarinnar, hafði eina skáldsögu Zweig sérstaklega í huga við gerð myndarinnar. Sú ber titillinn The Post Office Girl (Rausch der Verwandlung) og fjallar um stúlku af verkamannaættum sem fær tækifæri til að dvelja á háklassa hóteli í Sviss með auðugri frænku sinni. Þar kynnist hún lífi í vellystingum og er ekki söm þegar hún þarf að snúa aftur til raunveruleikans nokkrum vikum seinna; til fátæktar og vinnustrits.

Sögusvið eins og hótel getur á einfaldan en áhrifaríkan hátt endurspeglað þá togstreitu og stéttaskiptingu sem ríkir í vestrænu kapítalísku samfélagi. Nýleg mynd sænska leikstjórans Triangle of Sadness rammar þetta nokkuð vel inn. Sú mynd gerist reyndar um borð í skemmtiferðaskipi þar sem vellauðugt fólk dvelur og stundar iðju sína, liggur í leti og drekkur kampavín, á meðan starfsfólk skipsins, flest farandverkafólk með skert réttindi, þjónustar það. Einhvern tíma skrifaði franski heimspekingurinn Michel Foucault um heterótópíur; staði sem eru eiginlega ekki staðir því þeir eru tileinkaðir ákveðnu millibilsástandi og oft einangraðir frá öðrum stöðum eða umhverfinu í kring. Þetta á til dæmis við um flugvelli þar sem fólk gerir ekkert annað en að bíða eftir fara frá einum stað til að komast á þann næsta. Hótel og skemmtiferðaskip eru af dálítið svipuðum toga. Þau virka ekki alveg raunveruleg; bjóða upp á aftengingu frá raunveruleikanum - eða eru þetta öllu heldur staðir sem gefa ýkta mynd af veruleikanum, kapítalisma og firringu?

Þessa stéttameðvitund, sem hótelið endurspeglar yfirleitt í bókmenntum, má finna í sumum hótelsögunum í safni ritlistarnemanna. Sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar og áhugavert að flytjast á milli ólíkra stílbragða og viðfangsefna sem flest eru þó bundin sömu staðsetningu. Þá leika höfundar sér að því að tengja sögusviðið við aðrar byggingar í nágrenninu; svo virðist sem foreldrafundir í Melaskóla endi oft með viðkomu á hótelinu hinum megin við torgið eins og kemur fram í sögunum „Bekkjarfulltrúarnir“ eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og „Iðar í skinninu“ eftir Mörtu Maríu Jónsdóttur. Leiðtogafundur í Háskólabíói, sem staðsett er steinsnar frá hótelinu, tekur óvænta beygju þegar hann færist yfir á hótelið í sögu Þórunnar Rakelar Gylfadóttur, „Herbergi 606“. Og svo eru það nemendurnir sem sækja nám handan við Suðurgötuna, í Háskóla Íslands, og búa jafnvel á stúdentagörðunum þar rétt hjá.

Ein eftirminnilegasta sagan „Tvöhundruð og átta“ eftir Brynhildi Yrsu Valkyrju, fjallar einmitt um einstæða móður í námi sem á erfitt með að ná endum saman og freistast til að vinna sér inn aukapening með því að sofa hjá eldri karlmanni gegn greiðslu á hótelinu skammt frá stúdentagarðinum þar sem hún býr ásamt dóttur sinni. Hér dregur sögusviðið fram ólíkar aðstæður fólks með tragískum hætti. Þá fjalla nokkrar sögurnar um erfidrykkju sem á sér stað á hótelinu. Hótel Saga tilheyrir að vissu leyti fyrri tíð og því eðlilegt að eldri kynslóðir hafi sóst eftir því að ástvinir og eftirlifendur myndu minnast þeirra með erfidrykkju á þessum glæsta stað. Ein erfidrykkjan á sér stað í sögunni „Sonurinn í firðinum“ eftir Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur en sú saga segir einnig frá ljóðapartýi á Grillinu sem endar með skyndikynnum á einu hótelherberginu. Hótel og framhjáhald virðist tengjast og koma við sögu að minnsta kosti einu sinni í safninu. Það er einhver undirliggjandi kynferðisleg spenna í mörgum sagnanna sem tengist sögusviðinu; hið forboðna lúxuslíf sem varir frá check in til check out. Aðeins einn höfundur velur að velta fyrir sér sjónarhorni erlendra gesta hótelsins en „Mölflugan“ eftir Sunnevu Kristínu Sigurðardóttur fjallar um erlendan skordýrafræðing sem dvelur að því er virðist á hótelinu og verður uppnuminn af mölflugu einni en veltir ekki mikið fyrir sér umhverfinu sem er að sjá út um hótelgluggann. 

Fyrsta sagan og sú síðasta ramma vel inn þá þýðingu sem hótelið hefur í íslenskri menningarsögu. Upphafssagan fjallar um bændamenninguna, en Hótel Saga var hótel bændasamtakanna, reist til heiðurs bændum landsins og með fjárstuðningi þeirra. Í sögu Birnu Stefánsdóttur, „Stóllinn“ leysir bólstrari út greiða sem hann á við hótelið með því að gista þar og snæða kvöldverð á Grillinu. Þar hittir hann bræður úr sveit en hann dvaldi hjá þeim sem ungur drengur. Vinirnir þrír minnast gamals tíma en það er einhver sorg og tregi sem einkennir stemmninguna. Bændalífið er á hverfanda hveli þar sem stóriðja hefur tekið við starfsemi einstakra búa. Svo virðist sem bræðurnir hafi valið Hótel Sögu til að kveðja þetta líf með glæsilegum hætti. Hinsta kveðja er einnig til umræðu í síðustu sögunni, „Aldamót“ eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur, en þar eru aldamótin 2000 í nánd og afi sögumanns hefur farið fram á að erfidrykkja hans verði haldin á gamlárskvöld á Hótel Sögu. Aðstandendurnir eru því mættir í sínu fínasta pússi og loftið er lævi blandið; margir hverjir kvíða aldamótunum en sagan rifjar upp hvernig sumir töldu að aldamótin mörkuðu endalok alheimsins. Hér er Hótel Saga kvödd í allsherjar flugeldasýningu, sprengingum og litadýrð, en það hæfir vel að kveðja hótelið og um leið smásagnasafnið á þessum nótum.

Takk fyrir komuna er forvitnilegt smásagnasafn en grunnhugmynd verksins, hugmyndin um hótelsöguna, er þó ívið sterkari en sögurnar sjálfar. Smásagan er knappt form sem gefur oft meira í skyn en hún lætur uppi; höfundar leitast við að lýsa andrúmslofti eða stemmningu, og stundum hverfist smásagan um einn atburð, ýmist skondinn, harmrænan, jafnvel ógnvekjandi, sem kemur lesanda á óvart. Höfundum Takk fyrir komuna tekst misvel að gera formið að sínu; sumar sögurnar takast á við flókin og margbreytileg viðfangsefni með eftirminnilegum hætti en aðrar virka dálítið stefnulausar og treysta of mikið á óvæntar uppákomur svo þær líði ekki úr minni lesandans að lestri loknum. 

 

Vera Knútsdóttir, nóvember 2022

_______
Höfundar Takk fyrir komuna eru meistaranemar í ritlist við Háskóla Íslands: Berglind Erna Tryggvadóttir, Birgitta Björk Bergsdóttir, Birna Stefánsdóttir, Brynhildur Yrsa Valkyrja, Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, Hildur Selma Sigbertsdóttir, Hrafnhildur Rafnsdóttir, Marta María Jónsdóttir, Sunneva Kristín Sigurðardóttir, Þórunn Rakel Gylfadóttir.