Beint í efni

Melkot

Melkot var einn af síðustu torfbæjunum í Reykjavík og stóð bærinn um það bil þar sem Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu stendur í dag (í suðurhorni lóðarinnar). Þetta tómthúsbýli tilheyrði landi Melhúsa og var það byggt á 18. öld.

Melkot, sem er fyrirmynd Brekkukots í skáldsögunni Brekkukotsannáll (1957) eftir Halldór Laxness, var rifið árið 1915, en þar kynntust foreldrar Halldórs þegar þau voru vinnufólk á bænum. Síðustu ábúendur í Melkoti voru Magnús Einarsson og Guðrún Klængsdóttir, en systir Guðrúnar var amma Halldórs og var hann vel kunnugur á bænum á barnsárum sínum.

Úr Brekkukotsannál:

„[...] sunnanvið kirkjugarðinn í höfuðstaðnum okkar tilvonandi, þar sem brekkan fer að lækka við syðri tjarnarendann, alveg á blettinum þar sem hann Guðmundur Gúðmúnsen sonur hans Jóns Guðmundssonar í Gúðmúnsensbúð reisti loks veglegt hús, þar stóð einusinni lítill torfbær með tveim burstum; og þilin tvö vissu suðrað tjörninni. Þessi litli bær hét í Brekkukoti. Í þessum bæ átti hann afi minn heima, hann Björn sálugi í Brekkukoti sem veiddi stundum hrokkelsin á vorin, og hjá honum sú kona sem hefur staðið nær mér en flestar konur þó ég vissi færra um hana, hún amma mín. Þetta litla moldarhús var ókeypis gistiherbergi handa hverjum sem hafa vildi. Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“

Fræg kvikmynd var gerð eftir bókinni árið 1973. Fjallað var um gerð myndarinnar í sjónvarpsþættinum Einu sinni var, í umsjón Elínar Hirst og Boga Águstssonar, í Ríkissjónvarpinu. Horfa á má á þáttinn hér að neðan.