Gerður Kristný rithöfundur fékk það fallega hlutverk að afhenda fyrstu 1 árs afmælisgjöfina formlega á upphafsdegi Barnamenningarhátíðar árið 2021 og marka þannig upphaf hátíðarhalda á afmæliári Bókmenntaborgarinnar sem fagnar í ár 10 ára afmæli sínu. Öll börn í Reykjavík sem verða eins árs 2021 fá afmælispakka frá Bókmenntaborginni í tilefni þessa merkisafmælis en í honum er bókin Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju og Gunnar Karlsson, lestrarstikan Barnið vex með hverri bók eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur og kort frá Borgarbókasafninu með boði um að sækja um fyrsta bókasafnskort barnsins, en öll börn geta fengið ókeypis bókasafnskort allt frá fæðingu.
Fyrsta afmælispakkann fengu mæðgurnar Tilia Rózanska Rodrigues og Marcela Rózanska.