Beint í efni

Lesum heiminn

Miðvikudaginn 10. október kl. 17:30 verður opnuð textasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur sem er helguð vangaveltum um frelsi, sjálfstæði og uppreisnaranda. Textarnir koma frá nítján Bókmenntaborgum UNESCO víðs vegar um heiminn. Við opnunina koma fram fimm reykvísk skáld, þau Ewa Marcinek, Linda Vilhjálmsdóttir, Mazen Maarouf, Meg Matich og Sofie Hermansen Eriksdatter og tónlistarmaðurinn Svavar Knútur. Sabine Leskopf borgarfulltrúi opnar sýninguna.

Um sýninguna

Í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands bregður Bókmenntaborgin Reykjavík á leik með tilvitnunum frá systurborgum sínum í samstarfsneti skapandi borga UNESCO, UNESCO Creative Cities Network. Textarnir fjalla allir um frelsi eða sjálfstæði í sem víðustum skilningi og er ætlað að vekja okkur til umhugsunar um þessi hugtök og þýðingu þeirra fyrir okkur sem einstaklinga eða þjóðir. 

Á sýningunni  eru sýndar tilvitnanir úr ljóðum og prósaverkum frá eftirtöldum Bókmenntaborgum: Barcelona, Bucheon, Dublin, Dunedin, Edinborg, Heidelberg, Iowa City, Lillehammer, Ljubljana, Lviv, Manchester, Melbourne, Mílanó, Norwich, Nottingham, Obidos, Qebec City, Reykjavík og Tartu. Bókmenntaborgir UNESCO eru nú 28 talsins. 

Með sýningunni og opnunarviðburðinum vill Bókmenntaborgin leggja áherslu á þýðingu samtals menningarheima fyrir íslenskt samfélag, fullveldi þess og framþróun og heiðra skáld um víða veröld sem vekja okkur til umhugsunar um ólíkar hliðar frelsis og sjálfstæðisbaráttu í einkalegu og opinberu tilliti.

Um skáldin á opnunarviðburðinum 

Ewa Marcinek kemur frá Póllandi en hún hefur búið í Reykjavík síðastliðin ár. Hún er eitt af skáldunum sem stofnuðu Ós pressuna og verk eftir hana hafa birst í ritum Óss, í Tímariti Máls og menningar og víðar. Í textum sínum leikur Ewa sér með ólík tungumál, togstreitu milli félagslegra og einkalegra sjálfsmynda, persónulegar sögur og minningar. Hún hefur tekið virkan þátt í reykvísku menningarlífi frá því að hún flutti til Íslands, m.a. hefur hún kynnt pólska kvikmyndalist fyrir Íslendingum og tekið þátt í bókmenntaverkefnum á vegum Bókmenntaborgarinnar, Ós pressunnar, Borgarbókasafns og fleiri aðila. 

Linda Vilhjálmsdóttir er eitt af okkar þekktustu skáldum. Nýjasta bók hennar, Smáa letrið, kom út hjá Forlaginu fyrr í þessum mánuði. Fyrri ljóðabækur hennar eru Bláþráður (1990), Klakabörnin (1993), Valsar úr síðustu siglingu (1996), Öll fallegu orðin (2000), Frostfiðrildi (2006) og Frelsi (2015). Skáldsagan Lygasaga kom út 2003. Linda hlaut Menningarverðlaun DV fyrir Klakabörnin og sömu verðlaun auk Bókmenntaverðlauna bóksala fyrir Frelsi. Pólsk þýðing bókarinnar var einnig verðlaunuð í Póllandi í fyrra þegar Linda var útnefnd "European Poet of Freedom" fyrir verkið. Ljóð eftir Lindu hafa birst í þýðingum í safnritum og bækurnar Frelsi og Öll fallegu orðin hafa verið gefnar út á þýsku auk þess sem úrval ljóða úr Klakabörnunum og Bláþræði komu út á ensku í bókinni Mona Lisa

Mazen Maarouf er íslenskur/palestínskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi sem býr í Reykjavík. Ljóðabók hans, Ekkert nema strokleður, kom út hjá Dimmu 2013 en þar eru ljóð hans í íslenskum þýðingum Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, Kára Tuliniusar og Sjóns. Bókin hefur komið út á fleiri tungumálum. Aðrar ljóðabækur Mazens eru The Camera Doesn’t Capture Birds (2004 og 2010) og Our Grief Resembles Bread (2000). Ljóð eftir Mazen hafa verið þýdd á fjölda tungumála, m.a. ensku, frönsku, þýsku, spænsku og sænsku. Fyrsta smásagnasafn Mazens, Jokes for the Gunmen, kom út 2015. Hann hefur komið fram á fjölda bókmenntahátíða og viðburða víðs vegar um heim. Mazen hefur þýtt verk eftir íslenska höfunda á arabísku.

Meg Matich er bandarísk skáldkona og þýðandi búsett í Reykjavík. Þýðingar hennar hafa birst hjá PEN America, Exchanges, Words Without Borders, Asymptote, Gulf Coast og víðar. Árið 2015 hlaut hún styrk frá PEN Heim þýðingasjóðnum til þýðingar á ljóðabók Magnúsar Sigurðssonar Cold Moons (Phonema Media, 2017). Sem stendur vinnur Meg að þýðingu tveggja íslenskra skáldsagna á ensku. Hún hefur hlotið stuðning og viðurkenningar frá Fulbright sjóðnum, DAAD, Banff Centre, Miðstöð íslenskra bókmennta og Columbia University. Meg ritstýrði antológíu The Café Review með íslenskri ljóðlist síðasta sumar.

Sofie Hermansen Eriksdatter er dönsk skáldkona sem er búsett á Íslandi. Hún lærði við Skriverakademien í Forfatterskolen í Noregi og er auk þess með meistarapróf í fagurfræði og menningarfræðum frá Háskólanum í Árósum og Háskóla Íslands. Sofie skrifar fyrst og fremst ljóð og stuttan prósa og er samband manns og náttúru henni hugleikið, tengsl hins smáa og hins stóra og upplifanir sem tengjast ákveðnum stöðum. Textar eftir Sofie hafa birst í norrænum safnritum, svo sem í Signaler hjá norska forlaginu Cappelen Damm, og ljóðabók hennar Under gulvet gror der planter kom út í ár, en hún er samstarf hennar og myndlistarkonunnar Mariu Molbech. Sofie er verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í Norræna húsinu í Reykjavík.

Svavar Knútur tónlistarmaður og söngvaskáld hefur komið víða fram á löngum ferli, bæði hér heima og erlendis. Síðasta plata sem hann sendi frá sér var Brot (2015) en fyrsta sólóplatan var Kvöldvaka (2009). Svavar semur bæði texta á íslensku og ensku.