Beint í efni

Laugavegur 1

Laugavegurinn dregur nafn sitt af gömlu þvottalaugunum í Laugardal en þangað báru konur þvott frá Reykjavík til þess að þvo í heitu laugunum allt til ársins 1930.

Reykvískar húsmæður og vinnukonur lögðu af stað snemma morguns og þurftu að rogast með þungan þvott og hafurtaskið sem honum fylgdi – þvottabala, bretti, sápu, sóda, þvottaklapp, fötu, kaffi og nesti – um langar vegleysur. Konur sinntu þessari vinnu yfirleitt einar, en karlmenn áttu þó til að fylgja með og nýttu erlendir sjómenn laugarnar einnig til þvotta.

Leiðin í og úr laugunum var illfær og aðstæður oft ótryggar, þar sem lækir gátu orðið vatnsmiklir í vætutíð og flætt yfir. Þetta var erfið og hættuleg vinna, slys hentu og dæmi eru um að þvottakonur hafi fallið í vatnsmikla læki og drukknað undan þungum byrðunum. Árið 1885 var hafist handa við að leggja veg til þess að auðvelda fólki leiðina að laugunum og var vonast til að burður á þungum þvotti legðist af með bættum samgöngum.

Notkun lauganna minnkaði þegar Hitaveita Þvottalauganna var lögð árið 1930 og eru laugarnar þurrar í dag.

Margrét Jónsdóttir (1893-1971) skáldkona, ritstjóri og kennari, einkum þekktust fyrir að semja „Ísland er land þitt“, samdi eftirfarandi ljóð um Þórunni þvottakonu, sem þvoði þvott fyrir aðra en lifði sjálf við kröpp kjör.

Þórunn gamla

eftir Margéti Jónsdóttur

Þórunn gamla þvottakona
þrammar áfram köld og sljó,
eftir dagsins erfiðleika
á hún von á hvíld og ró.
vetur yfir veginn breiðir
voð úr mjallahvítum snjó.

Þórunn gamla þvottakona
þvær hjá margri hefðarfrú,
eftirsótt er hún við störfin,
af því hún er dygg og trú.
Þórunn gamla þvottakona
þrammar yfir Tjarnarbrú.

Bólgnar, hnýttar, bláar hendur,
bognar herðar, fótur sár,
þannig útlits Þórunn gamla
þrammað hefir fjölmörg ár.
Undan skýlu lokkur lafir,
langt er síðan hann varð grár

Líttu inn í ljósum prýddan,
litum skrýddan veizlusal:
Drifhvít hálslín, hreinir dúkar,
hér er sveina og meyja val.
Allt er glæst og fagurt fágað,
fagna í kvöld og gleðjast skal.

Þórunn gamla þvoði og fægði,
því næst gekk hún heim til sín,
inn í lítið, ofnlaust hreysi,
aldrei þangað sólin skín.
Þar er held ég heldur lítið
hreint og strokið drifhvítt lín.

Var hún eitt sinn ung og blómleg,
efni í glæsta hefðarfrú?
Átti hún bjarta æskudrauma,
ástir, vonir, heita trú?
Átti hún rétt á láni lífsins
Líkt og aðrir – eg og þú?

Vetur breiðir voðir sínar,
Vefur jörð í mjallarlín,
jafnar yfir allt og sléttar,
einnig, Þórunn, sporin þín.
Fram úr skýjum fæðist máni,
Fölt og kalt á snæinn skín.