Beint í efni

Langibar - Adlon

Adlon bar eða Langibar, eins og hann var kallaður í daglegu tali, stóð á milli Aðalstrætis 6 og 8, það er Morgunblaðshallarinnar og Fjalarkattarins sem þá var. Langibar var athvarf unga fólksins í Reykjavík og gekk af þeim sökum einnig undir nafninu „Ungverjaland“, en enn annað nafn var „Sóðabarinn“ eftir skilti sem á stóð „Sodabar Fontaine“. Kaupmennirnir Silli og Valdi ráku staðinn sem var opnaður árið 1946 og ráku þeir hann til 1960, en þá tók smurbrauðsstofa við í sama húsnæði.

Langibar kemur við sögu í skáldsögunni Vögguvísu eftir Elías Mar, sem kom út árið 1950 og hefur stundum verið kölluð fyrsta íslenska unglingasagan. Sagan, sem er samtímasaga, segir frá ungum pilti, Bambínó, sem lendir utangarðs og er hún meðal annars áhugaverð fyrir þá mynd sem hún bregður upp af lífinu í Reykjavík á eftirstríðsárunum, ekki síst myrkari hliðum þess. Elías kannaði einnig slangur þessa tíma við ritun bókarinnar og gefur það henni skemmtilegan blæ. Vögguvísa var endurútgefin af forlaginu Lesstofunni haustið 2012 og í þeirri útgáfu má bæði finna ítarlegan eftirmála um verkið, svo og slangurorðasafnið sem Elías safnaði við ritun þess.

Svinggæjasjoppan Adlon, öðru nafni Ungverjaland, klúkir millum gamalla timburhúsa í miðbænum, innréttuð í forskalaðan hjall, eins og matarvagn í járnbrautarlest með bar eftir endilöngu. Pilturinn kemur sér ekki að því að fara inn á billjard fyrr en hann hefur fengið í sig volgan sopa.

Úr Vögguvísu eftir Elías Mar

Vögguvísa

„Vögguvísa er fyrsta unglingasaga hins unga lýðveldis og það er skemmst frá því að segja að hún sló í gegn. Elías skrifaði hana sumarið 1949, sama sumar og hann varð 25 ára. Sagan hefst á innbroti aðfaranótt fimmtudags og endar á sunnudagskvöldi þegar Bambínó liggur í snjó, sem orðinn er að leðju, á Austurvelli fyrir utan Sjálfstæðishúsið (síðar NASA) og rifjar upp atburði síðustu daga. Bambínó er borgarbarn og dregur sitt klíkunafn af dægurlagi. Hann er fimmtán ára, yngstur í hópnum. Um hlutskipi unglinga sem búa ekki í borg er ekkert vitað. Sveitin er jafnfjarlæg og tunglið. Gamla einangraða Ísland er horfið. Ísland nútímans með peningaviðskipti og bandarísk dægurmenningaráhrif er komið til að vera. 

Unglingana í Vögguvísu dreymir ekki endurreisn íslenskrar sveitamenningar, þá dreymir um að vera stælgæjar í flottum fötum. Þeir stunda kaffihúsin og barina, spila billjard, halda partí, safna hasarblöðum og spila grammafónplötur með boogiewoogie-tónlist. Þeir telja sig ekki hafa neinum skyldum að gegna. Þeir ræna peningum til að hala sig upp úr leiðindunum í Reykjavík. Þeir ræna vegna þess að þeir aðhyllast ákveðna fagurfræði. Málfar þeirra er mjög litað af dægurlögum og kvikmyndum. Elías nam tungutakið á börum, billjardstofum og kaffihúsum og tók saman sérstakt “slang-orðasafn” til að geta skrifað þessa sögu. Hið unga lýðveldi tók einhverja allt aðra stefnu en til stóð. Elías skynjaði betur en nokkur annar árið 1949 að dægurmenning unglinganna átti eftir að leggja heiminn undir sig. Sumar sögur skynja hjartslátt tímans.“

Hjálmar Sveinsson: „Nýr penni í nýju lýðveldi.“ Morgunblaðið, 28. október 2006.