Beint í efni

Íslendingasögur

Njálsbrenna

Íslendingasögur eru þekktustu bókmenntir Íslendinga og lesnar um víða veröld. Elstu varðveittu handrit þeirra eru frá 13. öld en sögurnar segja frá tímanum um og uppúr landnámi á 9. öld allt til miðbiks 11. aldar. Þær voru ritaðar á þjóðtungu Íslendinga sem var sérstakt á miðöldum þegar latína réð ríkjum í rithefð. Þarna mótaðist því strax sú sterka hefð að hér væru bókmenntir skrifaðar á íslensku.

Þótt sögusvið Íslendingasagna sé ekki hér í Reykjavík heldur út um landið minna götuheiti í Norðurmýri og austanverðu Skólavörðuholti okkur á þennan dýrmæta menningararf. Hér rekumst við á Gretti Ásmundarson (Grettis saga), Egil Skallagrímsson (Egils saga), Leif Eiríksson (Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga) og allmargar persónur úr Njálu og Laxdælu. Hjónin Njáll og Bergþóra eiga sér samsíða götur vestan Snorrabrautar en Njálsgata heldur síðan áfram yfir Snorrabraut og mætir þar Gunnarsbraut sem endurspeglar náið samband þeirra Njáls og Gunnars á Hlíðarenda í Njáls sögu. Á sama hátt liggur Bjarnarstígur bak við Kárastíg líkt og Björn í Mörk er að baki Kára Sölmundarsyni á ögurstundu í sögunni, en þaðan kemur máltækið „ber er hver að baki nema sér bróður eigi“. Í Norðurmýri er gata Guðrúnar Ósvífursdóttur staðsett milli fóstbræðranna Bolla og Kjartans og minnir með því á þennan fræga ástarþríhyrning í Laxdæla sögu.

Þeir Kjartan og Bolli unnust mest. Fór Kjartan hvergi þess er eigi fylgdi Bolli honum. Kjartan fór oft til Sælingsdalslaugar. Jafnan bar svo til að Guðrún var að laugu. Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu því að hún var bæði vitur og málsnjöll. Það var allra manna mál að með þeim Kjartani og Guðrúnu þætti vera mest jafnræði þeirra manna er þá óxu upp.

Ennþá velta lesendur því fyrir sér við hvorn þeirra Guðrún á þegar hún segir síðar í sögunni: „þeim var ég verst er ég unni mest.“

Því má bæta við að nokkrar götur í Norðurmýri og tvær rétt ofan við Kvosina bera nöfn úr Landnámu þar sem sagt er frá landnámi Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur í Reykjavík á 9. öld. Í bók Jóns Karls Helgasonar, Hetjan og höfundurinn (1998), eru götuheitum í miðbænum gerð skemmtileg skil.

 

GÖTUR OG SÖGUR

NJÁLS SAGA:

Kárastígur – Kári Sölmundarson

Bjarnarstígur – Björn í Mörk

Njálsgata – Njáll á Bergþórshvoli

Bergþórugata – Bergþóra Skarphéðinsdóttir

Gunnarsbraut – Gunnar á Hlíðarenda

Skarphéðinsgata – Skarphéðinn Njálsson

GRETTIS SAGA:

Grettisgata – Grettir Ásmundarson sterki

LAXDÆLA SAGA:

Auðarstræti – Auður djúpúðga

Bollagata – Bolli Þorleiksson

Guðrúnargata – Guðrún Ósvífursdóttir

Kjartansgata – Kjartan Ólafsson

Hrefnugata – Hrefna Ásgeirsdóttir, kona Kjartans

EGILS SAGA:

Egilsgata – Egill Skallagrímsson

EIRÍKS SAGA RAUÐA / GRÆNLENDINGA SAGA:

Eiríksgata – Eiríkur rauði Þorvaldsson

Leifsgata – Leifur heppni Eiríksson

Þorfinnsgata – Þorfinnur karlsefni

LANDNÁMA:

Ingólfsstræti – Ingólfur Arnarson

Hallveigarstígur – Hallveig Fróðadóttir

Vífilsgata – Vífill þræll Ingólfs og Hallveigar

Karlagata – Karli þræll Ingólfs og Hallveigar

Mánagata – Þorkell máni, sonarsonur Hallveigar og Ingólfs

Skeggjagata – Þórður skeggi Hrappsson landnámsmaður

Flókagata — Flóki Vilgerðarson (Hrafna-Flóki) landkönnuður, sá er nefndi Ísland