Beint í efni

Ingólfur Arnarson

Ingólfur Arnarson er þekktastur landnámsmanna, hann kom hingað um árið 872 og  var fyrstur til að nema land hér. Ingólfur sigldi hingað með Hjörleifi bróður sínum frá Noregi að flýja undan ofríki Hákonar hárfagra Noregskonungs. Hjörleifur var drepin af þrælum sínum stuttu eftir komuna til Íslands. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir. Landnámi hans og staðarvali er lýst svo í Landnámu:

„Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land. Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.“

Ingólfur sendir þræla sína til að leita að öndvegissúlunum og fundust þær í vík einni fullri af reyk. Þangað flutti Ingólfur bú sitt og nefndi staðinn Reykjavík.

Margt hefur verið ritað um Ingólf og veru hans í Reykjavík. Eru þetta óljósar heimildir en sem reynt að rökstyðja með fornleifafundum í Reykjavík sbr. Landnámssýningin 872±2 þar sem reynt er að varpa ljósi á lífshætti landnámsmanna.
Ingólfur og landnám Íslands hefur einnig verið mörgum rithöfundinum uppspretta sköpunar og má nefna ljóð Þórarins Eldjárn, Ingó sem dæmi.

Ingó

Oní fjöru Ingólfur
er í skapi fúlu,
fram og aftur flækist þar
en finnur enga súlu.

Hann finnur gamlan gúmmískó
og grænar netakúlur,
en ekki sínar öndvegis-
og afbragðsgóðu súlur.

Hann kemur auga á ótal hús,
með uppþvotavél og síma:
HANN ER Í RÉTTRI REYKJAVÍK
Á RÖNGUM KOMUTÍMA.

Hann gengur upp á grænan hól
og gerist fyllibytta,
og er þar síðan alla tíð
algjör myndastytta.

Úr bókinni Halastjarna frá 1997. Útg. Forlagið.

Fleiri en Þórarinn Eldjárn hafa skrifað ljóð um Arnarhól og má finna brot af þeim á Ljóðakorti Reykjavíkur.

Einar Jónsson myndhöggvari (1874-1954)

Einar Jónsson

Styttan á Arnarhóli af landnámsmanningum Ingólfi Arnarsyni mótaði myndhöggvarinn Einar Jónsson árin 1902-1903 þegar hann dvaldi í Róm. Hann vann áfram að styttunni þegar hann snéri aftur til Kaupmannahafnar þar sem hann nam höggmyndalist og bjó í upphafi listferils síns. Styttan var fyrst sýnd á sýningu De Frie Billedhuggere árið 1906 í Kaupmannahöfn. Það sama ár fæddist sú hugmynd að Danir gæfu Íslendingum styttu af Ingólfi þar sem íslenski myndhöggvarinn Einar Jónsson hefði sýnt slíka mynd. Ekki fór svo að Danir gæfu Íslendingum styttuna heldur söfnuðu þeir sjálfir fyrir henni og var hún afhjúpið árið 1924 bronstytta á landsnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni á Arnarhól.