Beint í efni

Þetta veit ég / Þetta ímynda ég mér

Miðvikudaginn 31. ágúst kl. 19 verður alþjóðleg ljóðadagskrá í Norræna húsinu með skáldum frá Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Mexíkó. Um leið kemur út ljóðakver með ljóðum þessara skálda, á íslensku og frummálum, sem selt verður á staðnum.

Á tímum heimsfaraldurs, stríðsátaka og náttúruvár er mikilvægt að minna okkur á að við erum manneskjur sem deila sameiginlegu rými og að sköpunarkrafturinn hjálpar okkur að takast á við það sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni. Það skiptir máli að varðveita sögu okkur, reynslu og minningar og vinna úr þeim á þann skapandi hátt sem hentar hverju og einu okkar best. Við höfum þörf fyrir bæði samsköpun og persónulega tjáningu í samræmi við menningu okkar og tungumál og eigum þannig í samræðu við umhverfi okkar í nútíð og fortíð.

Það sem tengir skáldin sem koma fram á viðburðinum er sjálfssögulegur þráður í sumum verka þeirra. Skáldin eru að öðru leyti afar ólík, það sem þau vita og það sem þau ímynda sér gerir þau hvert um sig einstakt og litar þann vef sem þau spinna í ljóðlistinni.

Skáldin eru:
Johan Jönson (Svíþjóð)
León Plascencia Ñol (Mexíkó)
Heidi von Wright (Finnland)
Haukur Ingvarsson (Ísland)
Roxana Crisólogo (Finnland)
María Ramos (Ísland)

Þýðendur:
Halla Kristjánsdóttir
Margrét Lóa Jónsdóttir
John Swedenmark
Petronella Zetterlund

Petronella Zetterlund og Margrét Lóa Jónsdóttir stýra dagskránni.

Viðburðurinn og útgáfa ljóðakversins er samstarfsverkefni NOXLit og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO. Athugið að kverið verður eingöngu selt á staðnum og er gefið út í takmörkuðu upplagi.

NOXLit er fjölmála bókmenntavettvangur á Norðurlöndum.

Skáldin

Johan Jönson (Svíþjóð, 1966) er ljóðskáld og rithöfundur. Fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1992 og síðan hefur hann sent frá sér yfir tuttugu bækur. Hann hefur hlotið ýmis bókmenntaverðlaun og viðurkenningar í heimalandinu, Svíþjóð. Bækurnar Marginalia/Xterminalia, sem komu út samhliða (2019), voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nýjasta verk Jönsons er Proponeisis frá 2021.

León Plascencia Ñol (Mexíkó, 1968) er ljóðskáld, rithöfundur, ritstjóri og myndlistarmaður. Hann stýrir útgáfunum Filo de Caballos og NOX Escuela de Escritura Creativa. Hann hefur sent frá sér meira en fimmtán ljóðasöfn og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, bæði heima fyrir og alþjóðlega. Nýjustu bækur hans eru La música del fin del mundo (2020) og Animales extranjeros (2021). Ljóð eftir hann hafa verið þýdd á ensku, frönsku, kóreönsku, portúgölsku, finnsku, sænsku og íslensku.

Heidi von Wright (Finnland, 1980) er ljóðskáld, menningarrýnir og myndlistarmaður. Fyrsta verk hennar, ljóðasafnið skör och spräcklig, kom út 2003. Ljóðabækurnar eru nú orðnar tíu talsin og hefur Heidi hlotið verðlaun fyrir sumar þeirra. Autofiktiv dikt av Heidi von Wright (2020) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nýjasta verk hennar er ljóðasafnið Solkatt sem kom út fyrr á þessu ári.

Roxana Crisólogo (Perú / Finnland, 1966) er ljóðskáld, þýðandi og menningarstjórnandi. Hún er stofnandi fjölmála útgáfuvettvangsins Sivuvalo (nú Sivuvalo Platform) og einn stjórnenda NOXLit. Fyrsta bók hennar, Abajo sobre el cielo, kom út 1999 og síðan hafa fjögur ljóðasöfn bæst við. Nýjasta ljóðabók Crisólogo er Kauneus (La belleza) (2021). Ljóð eftir hana hafa verið þýdd á þýsku, ítölsku, finnsku, sænsku og íslensku.

Haukur Ingvarsson (Ísland, 1979) er rithöfundur og bókmenntafræðingur. Hann er annar ritstjóra bókmenntatímaritsins Skírnis. Fyrsta ljóðabók hans kom út 2005 og síðan hefur hann sent frá sér ljóðabækur, skáldsögu og fræðibækur. Haukur hefur einnig skrifað fjölda greina og stýrt menningarþáttum í útvarpi. Ljóðabók hans Vistarverur (2018) hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Menn sem elska menn (2021) ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna. Ljóð eftir Hauk hafa verið þýdd á fjölda tungumála, m.a. dönsku, norsku, sænsku, þýsku, litháísku, grísku og ensku og skáldsagan Nóvember 1976 á þýsku.

María Ramos (Ísland, 1998) er ljóðskáld og rithöfundur. Hún á ættir að rekja til Kúbu en ólst upp á Íslandi. María hefur skrifað sögur og ljóð frá því hún man eftir sér og vann smásagnasamkeppni þegar hún var í framhaldsskóla. Hún sendi frá sér ljóðabókina Salt 2018 og hafði áður birt ljóð og smásögu í tímaritum og safnritum. Ljóðabókin Havana kom svo út 2020. María stundar nám í íslensku og ritlist við Háskóla Íslands og mun ljúka því í febrúar næstkomandi.