Beint í efni

Rike Scheffler gestahöfundur

Þýska listakonan Rike Scheffler er gestahöfundur Goethe stofnunar og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO í Gröndalshúsi í maí 2021. Rike, sem er frá Berlín, kom hingað með Norrænu og hóf dvölina með sóttkví á Seyðisfirði áður en hún kom til Reykjavíkur. 

Ljóð, tónlist og gjörningar

Rike er ljóðskáld, gjörningalistamaður og hljóðlistamaður sem skapar verk á mörkum tungumáls og tónlistar. Hún notar ýmsar miðlunarleiðir í listsköpun sinni, textagerð, tónlist, gjörningalist og innsetningar og kemur ýmist fram ein eða með öðrum. Sem flytjandi notar hún röddina, hljóðgervla, áhrifspedala og fleiri tæki til að skapa alltumlykjandi veruleika sem ögrar venjubundinni skynjun okkar.

Rike hefur komið fram víða um heim og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín. Ljóðasafn hennar, der rest ist resonanz (2014) vann Orphil Debut verðlaunin á sviði pólitískra og framúrstefnuskrifa. Hún vinnur oft með öðrum listamönnum, svo sem danska skáldinu Mette Moestrup og íslensk-kanadíska rithöfundinum og listakonunni angelu rawlings, hljóðlistamönnunum Robert Lippok og Claudio Puntin og hún hefur líka unnið með Stúdíói Ólafs Elíassonar (Institut für Raumexperimente). Verk eftir Rike hafa verið sýnd í Neue Nationalgalerie & Hamburger Bahnhof í Berlín og í Palais de Tokyo í París.

Náttúra, tungumál og umhverfi

Í Reykjavík hyggst Rike vinna að fjölmála ljóðabálki, Rite now,  í samvinnu við angelu rawlings en þær hafa áður unnið saman, bæði hér á Íslandi og erlendis og framið gjörninga saman, síðast árið 2018 í Árósum þar sem þær fluttu verk sitt „becoming water“ á hátíðinni Lyd+Litteratur. Sama ár komu þær fram í Marshall húsinu í Reykjavík í tengslum við tilraunaeldhús Victoríu Elíasdóttur og Stúdíó Ólafs Elíassonar. Rike mun sækja innblástur í íslenska náttúru á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, en hún heillast af náttúru landsins – mosanum, flórunni, eldvirkninni, jarðhitanum og fjöllum. 

Meira um Rike Scheffler

Vefsíða Rike Scheffler - www.rikescheffler.tumblr.com

Svipmynd af listamanninum á rás Louisiana safnsins í Danmörku. 

Verk hjá Institut für Raumexperimente Ólafs Elíassonar.

Hringljóðið honey I'm home á Vimeo.