Yfirlýsing Skapandi borga UNESCO vegna hryðjuverkanna í Christchurch

Við, meðlimir Samstarfsnets skapandi borga UNESCO (UNESCO CREATIVE CITIES Network - UCCN), stöndum sameinuð með íbúum Nýja Sjálands og samstarfsfólki okkar í Auckland (Tónlistarborg UNESCO) og Dunedin (Bókmenntaborg UNESCO) á þessum sársaukafulla tíma í Christchurch.

Þegar ein borg eða þjóð verður fyrir ofbeldi sem orsakast af kynþáttafordómum og beinni árás á tiltekinn hóp, í þessu tilfelli samfélag múslíma, þjáumst við öll.

Við skulum ekki þjást í þögn.

Við skulum þvert á móti standa saman gegn ofbeldi og stuðla að friði með list og menningu að vopni.

Við minnum á að sú viðleitni að skapa frið og skilning í hjörtum kvenna og karla um víða veröld er viðvarandi barátta fyrir samfélagsumbótum og framþróun.

List og menning er sérlega mikilvægt afl þegar kemur að því að sameina samfélög, byggja brýr og takast á við áföll.

Í dag stöndum við með fólkinu í Christchurch og hvarvetna á Nýja Sjálandi. Aldrei aftur ætti neinn hópur að verða fyrir slíku ofbeldi af hendi öfgaafla.

UNESCO leitast við að byggja upp frið og skilning í gegnum alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda og menningar. Þetta erindi samtakanna er sérlega mikilvægt í dag. Menningarleg fjölbreytni á undir högg að sækja og nýjar birtingarmyndir þröngsýni, afneitunar á vísindalegum staðreyndum og hafta á tjáningarfrelsi ógna friði og mannréttindum. Í einu af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna segir að aðildarríkin skuli: „Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum.“ Þá er eitt meginmarkmiða framtíðaráætlunar SÞ um sjálfbæra þróun í borgum (New Urban Agenda 2030) „að skilja engan eftir (leave noone behind).“

Það er mikið verk fyrir höndum víða um heim til að hægt sé að segja að friður ríki með sanni í borgum og samfélögum manna og að enginn sé settur til hliðar. Það er því hér eftir sem hingað til skylda UNESCO og okkar sem eigum aðild að Samstarfsneti skapandi borga UNESCO að ítreka húmanískt leiðarljós menntunar, vísinda og menningar. Um leið og við sendum félögum okkar á Nýja Sjálandi hjartans kveðjur mega þeir vita að þeir standa ekki einir í sinni baráttu.