Waters and Harbours in the North

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO tekur þátt í alþjóðlega samstarfsverkefninu Waters and Harbours in the North nú í haust. Það felst í samvinnu rithöfunda og myndlistarmanna frá Reykjavík, Gautaborg í Svíþjóð, Newcastle á Englandi og Þórshöfn í Færeyjum. Allar eru borgirnar hafnarborgir, þrjár standa við sjó og Newcastle við ána Tyne.

Íslensku listamennirnir sem taka þátt í verkefninu eru rithöfundarnir Bryndís Björgvinsdóttir, Gunnar Helgason, Haukur Ingvarsson og Jónas Reynir Gunnarsson og myndlistarkonan María Dalberg. Unnið er í hópum í hverri borg fyrir sig og tekur einn höfundur frá hverju landi þátt á hverjum stað ásamt þarlendum myndlistarmanni. Allir hóparnir skrifa texta út frá þemanu vötn og hafnir og einnig verða vídeó- eða hljóðverk gerð um sama viðfangsefni. Afraksturinn verður birtur á vef verkefnisins og þeirra sem standa saman að því, en það eru Författarcentrum í Gautaborg, Norðurlandahúsið í Færeyjum, New Writing North í Newcastle og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Í Newcastle komu saman höfundar sem skrifa prósa, hvort sem er skáldaðan eða ekki, og var Haukur Ingvarsson fulltrúi Reykjavíkur þar. Listafólkið vann saman vikuna 9. - 15. október og komu höfundarnir einnig fram á Durham Book Festival þann 14. október. Aðrir þátttakendur voru Michael Chaplin, Mattias Hagberg og Oddfríður Marne Rasmussen. Northern Stars Documentary Academy sá um myndræna hlið verkefnisins í Newcastle.

Í Gautaborg vann hópur unglingabókahöfunda saman vikuna 11. - 17. október. Bryndís Björgvinsdóttir fór frá Reykjavík og vann hún með Stefan Larsson, Mark Illis og Marjun Syderbö Kjelnæs. Þau komu fram á menningarnótt, Kulturnatta, þann 13. október. Myndverkið gerði Johanna Pyköö. 

Barnabókahöfundarnir Gunnar Helgason, Hanna Jedvik, Laura Steven og Rakel Helmsdal munu svo vinna saman í Þórshöfn vikuna 21. - 27. nóvember og taka þátt í bókamessu í Norðurlandahúsinu. Brandur Patursson mun vinna myndverkið fyrir Færeyjar. 

Smiðjur og viðburðir í reykjavík

Í Reykjavík koma saman höfundarnir Jónas Reynir Gunnarsson, sem tók við Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar 11. október 2017, Hanna Wikman frá Svíþjóð, Degna Stone frá Newcastle og Trygvi Danielsen frá Þórshöfn. Myndlistarverkið er í höndum Maríu Dalberg, en hún mun skapa vídeóverk í samhengi við texta skáldanna.  Í Reykjavík vinna skáldin saman í Gröndalshúsi, fyrrum heimili Benedikts Gröndals skálds og myndlistarmanns. Þau heimsækja einnig Sjóminjasafn Reykjavíkur og varðskipið Óðin, Marshallhúsið og fara í bókmenntagöngu með hafnarþema á vegum Borgarbókasafns Reykjavíkur. 

Fimmtudaginn 19. október kl. 17 koma skáldin fram á Kaffislipp á Hótel Marina við Mýrargötu, segja frá verkefninu, kynna sig og lesa upp. Allir eru hjartanlega velkomnir á viðburðinn. 

JÓNAS REYNIR GUNNARSSON hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðabókina Stór olíuskip, sem kom út hjá Partusi á verðlaunadaginn, 11. október. Í sömu viku kom svo út fyrsta skáldsaga hans, Millilending, en fyrr á árinu sendi Jónas frá sér ljóðabókina Leiðarvísir um þorp. Það má því segja að þetta sé hans ár. Jónas hefur einnig birt ljóð í tímaritum og leikrit hans Við deyjum á Mars hlaut fyrstu verðlaun í leikritunarkeppni sviðslistadeildar Listaháskóla íslands 2015. 

HANNA WIKMAN er rithöfundur, ritlistarkennari og bókavörður. Hún er í hópi sem skipulagði og heldur úti námskeiði í Kvinnofolkhögskolan um feminískar og „trans-seperate“ bókmenntir undir heitinu Þögn þín mun ekki vernda þig. Hún stýrir einnig ritsmiðjum á bókasafninu í Biskopsgården og kennir ritlist við Götlands folkhögskola. Skáldsaga Hönnu, Lift, kom út hjá Kabusa árið 2010 og hún hefur birt ljóð í tímaritum, svo sem Bang og Provins. Í haust koma ljóð eftir hana út í safnriti og önnur skáldsaga hennar, Härdar, er væntanleg en í henni fjallar Hanna um ólík efni, svo sem verkalýðsmál, skógrækt, andfasisma, þrá og ást. 

DEGNA STONE er ljóðskáld og framleiðandi. Hún er einn stofnenda og ritstjóra tímaritsins Butcher‘s Dog. Degna er með meistaragráðu í ritlist frá Háskólanum í Newcastle og er eitt þeirra skálda sem hafa tekið þátt í Complete Works verkefninu. Degna hlaut Northern Writers verðlaunin árið 2015. 

TRYGVI DANIELSEN er skáld, kvikmyndagerðarmaður og tónlistarmaður. Hann sendi frá sér safn smásagna og ljóða ásamt hljómplötu árið 2013, sem ber heitið The Absent Silver King og var verðlaunaður af Listasjóði Færeyja sem besti ungi listamaður Færeyinga 2014. Stuttmynd eftir Trygva var sýnd á kvikmyndahátíð í Palestínu 2016 og sem stendur leggur hann lokahönd á nýja mynd. Trygvi vinnur einnig að nýju safni texta og tónlistar sem kemur út síðar á þessu ári. Hér má hlusta á tónlist Trygva á YouTube.

MARÍA DALBERG útskrifaðist með M.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2016. Verk hennar hafa verið sýnd á yfir þrjátíu samsýningum og á kvikmyndahátíðum víða í Evrópu og í Ameríku. Hún hefur unnið með vídeóinnsetningar, hljóð, gjörninga, ljósmyndir, teikningar og textaskrif. Fyrir innsetninguna Streymi (2009) velti hún því fyrir sér hvernig hægt væri að efnisgera hreyfimynd sem flæðir áfram líkt og vatnsstreymi og í framhaldinu þróaði hún eigin aðferð til þess að ná þessu fram. Tilraunir með efni og efniskennd í vídeóverkum ásamt öðrum miðlum eru miðlægar í hennar listræna ferli. 

Á seinni árum hefur María farið reglulega í 20 mínútna langa göngutúra þar sem hún hljóðritar brot af því sem hún sér, hugsar og heyrir. Eftir marga göngutúra í ögrandi og minna ögrandi aðstæðum hefur hún náð að þróa ákveðna hugsanastrúktúra. Þeir varpa fyrst og fremst ljósi á ólík tengsl hugsunar og hlustunar annarsvegar og hugsunar og sjónar hinsvegar. Um þessar mundir kannar hún hvernig hægt sé að koma þessum athugunum í efniskennt form. 

María var valin á Moscow Biennale fyrir unga listamenn árið 2016. Hún var hluti af Alt_Cph09 Alternative Art Fair í New York árið 2010, í sýningarstjórn Kling og Bang. Einnig sýndi hún á kvikmyndahátíðinni í Oberhausen 2010 og 2008 sýndi hún í Bergens Kunsthall og í Photogalleriet í Osló. 

Waters and Harbours in the North var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. 

Sjá nánar um Waters and Harbours in the North verkefnið og listamennina