Þýðingasmiðja í Bókmenntaborginni Lviv

„Hlutskipti þýðandans er að lifa og hrærast í óvissunni” 

Í júlí síðastliðnum tóku þær Meg Matich og Gunnhildur Jónatansdóttir þátt í þýðingasmiðju í Lviv í Úkraínu. Lviv er Bókmenntaborg UNESCO líkt og Reykjavík og var m.a. þýðendum frá öðrum Bókmenntaborgum boðið að sækja um þátttöku í smiðjunni. Meg og Gunnhildur voru svo meðal þeirra umsækjenda sem Lviv valdi til þátttöku. Í Lviv tóku þær þátt í tíu daga langri smiðju sem ber nafnið LitTransformer og var þetta í fyrsta skipti sem hún er haldin. Báðar þýddu þær Meg og Gunnhildur yfir á íslensku. 

Auk Meg og Gunnhildar sóttu smiðjuna þýðendur frá Barselóna, Búkarest, Norwich, Utrecht og Vigo. Einnig tóku nokkrir úkraínskir nemendur í þýðingafræði þátt. Þýðendur voru hvort heldur sem er langreyndir atvinnuþýðendur eða námsmenn sem voru að stíga sín fyrstu skref.

Umsjón með smiðjunni höfðu þau Aron Aji, deildarstjóri bókmenntaþýðingadeildar við University of Iowa, og Iryna Odrekhivska, dósent í þýðingafræði við Ivan Franko-háskólann í Lviv. Auk þeirra veittu gestafyrirlesarar smiðjugestum innsýn í úkraínskt bókmenntalíf. Iowa City er einnig Bókmenntaborg UNESCO og skipulögðu þessar systurborgir smiðjuna í sameiningu.

Smiðjunni var þannig hagað að hver þýðandi mætti með smásögu frá sínu landi (eða á því tungumáli sem þýðandinn vinnur með), grófþýdda á ensku. Síðan voru þýðendur paraðir saman og þýddi hvor þeirra sögu hins yfir á sitt tungumál. Þó áttu þýðendur ekkert tungumál sameiginlegt utan enskunnar. Þannig æxlaðist það að „Inferno“ eftir Gyrði Elíasson var þýdd yfir á spænsku og „Mengele var misskilinn húmoristi“ eftir Gerði Kristnýju var þýdd yfir á rúmensku. Auk þess var kóresk saga þýdd á katalónsku,  katalónsk saga á hollensku, hollensk saga var þýdd yfir á úkraínsku og sögur á spænsku og rúmensku yfir á íslensku.

LitTransformer Photo by Myroslaw Trofymuk

Mynd af hópnum: Myroslaw Trofymuk.

Óvissan sem verkfæri

„Þýðingar eiga sér ekki stað í menningarlegu tómarúmi. Þýðingar eru svo miklu meira en að þýða orð úr einu tungumáli yfir á annað,“ segir Meg. „Það er á ábyrgð þýðandans að gera grein fyrir allri þeirri flóru menningar og sögu sem býr á bak við orðin og kúrir á milli línanna.“

Tilgangurinn með þessi þýðingasmiðju var einmitt sá að rífa þýðendur út úr þægindaramma sínum, neyða þá til að hægja á sér og grandskoða hvert einasta orð með það í huga að þeir gætu verið að missa af einhverju mikilvægu. Það er stórhættulegt fyrir þýðanda að verða of góður með sig, því þá spretta villurnar fram. 

„Í stuttu máli,“ segir Gunnhildur „þá er það hlutskipti þýðandans að lifa og hrærast í óvissunni. Og það var ef til vill helsta markmiðið með þýðingasmiðjunni: að láta þýðendur meðtaka óvissuna, ekki sem óvin heldur sem verkfæri.“

Bókmenntaborgin Lviv hyggst á næstunni gefa út rit með útdráttum úr afrakstri þýðingasmiðjunnar. Stefnt er að því að LitTransformer verði árlegur viðburður í Lviv.